Hvað sem tautar og raular

 

Miðað við hina dæmalausu afgreiðslu meirihluta atvinnuveganefndar á fiskveiðistjórnarfrumvarpinu í síðustu viku, mætti ætla að engin alvara væri á bak við málið. Frumvarpið tók sáralitlum breytingum í meðferð nefndarinnar, þrátt fyrir mjög alvarlegar athugasemdir, frá nánast hverjum einasta umsagnaraðila. Ekki var einu sinni tekið tillit til tæknilegra athugasemda frá Fiskistofu og öðrum slíkum. Hvað þá auðvitað að nokkuð hafi verið hirt um aðrar athugasemdir.

Flotinn í höfn í Bolungarvík Frá Bolungarvíkurhöfn. Fyrir liggur -  og virðist óumdeilt hjá öllum sem hafa skoðað málið – að alvarlegustu og fyrstu afleiðingarnar verði þær að lítil og meðalstór fyrirtæki verði illa úti. Svæði eins og Norðvesturkjördæmið meira og minna allt, verður fyrir þungu höggi. Samt er málið keyrt áfram.

Við allar venjulegar aðstæður væri þetta til marks um að ekki eigi að ljúka málinu á þessu þingi. Enginn þingmaður sem vildi láta taka sig alvarlega léti sér til hugar koma að afgreiða svona mál sem lög frá Alþingi. Vitandi vits um að frumvarpið næði ekki máli á nokkra lund. Vitandi að það stæðist ekki tæknilega. Í ljósi þess að ýmsar efnisgreinar væru óskýrar og hugtakanotkun röng. Hvað þá að mál af þessum toga yrði afgreitt, sem fyrir lægi að hefðu svona neikvæðar afleiðingar fyrir sjálfan sjávarútveginn, ylli skaða í viðkvæmustu sjávarbyggðunum og gæti sett rekstur fjölda fyrirtækja í uppnám.

En samt verðum við að taka þetta alvarlega. Gleymum því ekki að frumvarpið var lagt fram af ríkisstjórninni þvert ofan í aðvaranir helstu sérfræðinga á þessu sviði. Það er greinilegt að menn ætla að ganga svona fram, þrátt fyrir að fyrir liggi að afleiðingarnar verði svona grafalvarlegar.

Það er til dæmis morgunljóst að frumvarpið mun gera það að verkum að sjávarútvegurinn greiðir minna til ríkisins, en núna. Sjávarútvegurinn greiðir til dæmis tekjuskatt í vaxandi mæli. Með samþykkt frumvarpsins mun skapast gjaldfærsla, sem veldur því að greinin muni borga miklu minna í tekjuskatt en áður. Óhagkvæmnin vex líka þannig að veiðigjaldið verður lægra en ella.

Síðan liggur fyrir – og virðist óumdeilt hjá öllum sem hafa skoðað málið – að alvarlegustu og fyrstu afleiðingarnar verði þær að lítil og meðalstór fyrirtæki verði illa úti. Svæði eins og Norðvesturkjördæmið meira og minna allt, verður fyrir þungu höggi. Þetta vita allir; líka þeir sem afgreiddu málið, en þeir láta það ekki stoppa sig.

 

 


Er stríð betri en friður?

 

Síðustu dagar hafa fært okkur heim sanninn um mikilvægi þess að taka upp ný vinnubrögð. Hin miklu og ástæðulausu átök sem hafa staðið yfir um stór mál á Alþingi eru vitnisburður um að þeir sem hafa forystu fyrir landinu hafi teflt þessum málum í svo miklar ógöngur, að enginn getur lengur velkst í vafa. Hér sannast hið fornkveðna að veldur sá er heldur.

2raduneyti-JS-10-12 Ljóst er að ríkisstjórnin taldi sér það henta að halda uppi sem mestum átökum um hvaðeina. Stjórnrskrá, rammaáætlun, sjávarúrvegsmálin, ESB, Icesave og áfram má endalaust telja

Það eru stjórnvöld hverju sinni sem slá tóninn. Og ill var hin fyrsta ganga.

Kjörtímabilið hófst í miklum hefndarhug þeirra sem fengu lýðræðislegt umboð til þess að stjórna landinu. Kjörorðið var fyrst og fremst að jafna um andstæðinginn. Hið makalausa landsdómsmál gegn Geir H. Haarde, er gleggsta dæmið um það og ein dapurlegasta stund íslenskrar stjórnamálasögu frá upphafi heimastjórnar. Þá var farin mikil sneypuför, sem allir þeir sem hlut áttu að óhæfuverkinu, munu hafa mikla skömm af.

Ljóst er að ríkisstjórnin taldi sér það henta að halda uppi sem mestum átökum um hvaðeina. Alveg er sama hvar niður er drepið, alls staðar var hið sama uppi á teningnum. Átakaleiðin var meðvituð. Hún átti að vera einhvers konar uppgjör við pólitíska fjendur. Þess vegna var hvarvetna beitt þeirri aðferð að efna til átaka, til þess að skerpa línur á milli stjórnmálaflokkanna.

Það er hægt að nefna svo sem eina og eina undantekningu frá þessu. Sáttanefndin um sjávarútvegsmálin var gott dæmi um það. En það stóð ekki  lengi. Blekið var ekki  þornað af þeirri niðurstöðu, þegar hafist var handa um að svíkja allt sem þar stóð. Sjávarútvegsmálunum sem öðrum var stefnt inn í átök.

Að vísu fór illa um þá sjóferð. Afrakstur valdabrasks ríkisstjórnarflokkanna fékk svo hraklega útreið í umsögnum allra sem um þau tjáðu sig, að annað eins hefur varla sést. Sérfræðingar vógu frumvörp ríkisstjórnarinnar og fundu léttvæg, en áfram er samt haldið, eins og við sjáum nú síðustu dægrin.

Rammaáætlun er annað mál. Það hafði verið í vönduðu ferli faglegrar vinnu. Á síðust metrunum var það allt eyðilagt. Og tilgangurinn? Jú það þurfti til, svo bjarga mætti lífi ríkisstjórnarinnar.

Og svona  eru dæmin endalaus, ESB, Icesave, nefndu það bara. Nú síðast – og auðvitað alvarlegast – er það stjórnarskráin. Það mál kom ekki inn í þingið fyrr en seint og um síðir nú í haust. Fjöldi sérfræðinga varaði mjög við samþykkt þess. Það var leitað út fyrir landsteinana eftir sérfræðiáliti og allt fór á sömu lund. Enn er þó þybbast við.

Alþingi að störfum Þegar ríkisstjórnin leggur mál inn í þingið lítt undirbúin og í miklum ágreiningi við allt og alla, á stjórnarandstaða engan kost annan en að láta járna við.

Við svona aðstæður á stjórnarandstaða sem vill láta taka sig alvarlega, sem vill vinna mál sín af kostgæfni og með efnislegum hætti, ekki annan kost en að láta járna við. Hversu mjög sem við viljum reyna að ná samstöðu við stjórnvöld um sameiginlega niðurstöðu, er ekki hægt að komast lönd né strönd.

Það eru stjórnvöldin á hverjum tíma sem ráða vinnulaginu. Og þegar við búum við stjórnvöld sem beinlínis kjósa átökin og koma með vanbúin mál inn í þingið, fer sem fer. Það er sorglegt af því að það hefði verið svo hægur vandi að vinna öll þessi stóru mál í miklu samlyndi. En ríkisstjórnin vill það ekki. Hún kýs ófriðinn þó friður sé í boði.


Fitch sendir sterk viðvörunarljós

 

 

Það eru jákvæð tíðindi að matsfyrirtækið Fitch ratings hafi lyft lánshæfismati landsins örlítið. Eftir stendur þó, því miður að enn er þetta mat mjög hraklegt. Hafi álit matsfyrirtækja einhverra þýðingu ( það voru þau sem gáfu okkur fyrstu ágætiseinkunn, alveg fram að bankahruni) er fyrirsjáanlegt að lánskjör okkar verði áfram slæm og vextir háir.

fitch-ratings Fitch segir lítið hafa gerst í afnámi gjadleyrishafta. Það mun tefja batann og getur búið til bóluhagkerfi.

Þegar álit Fitch er lesið kemur skýrt fram að efnahagsástandið er mjög brothætt og hlutir gætu auðveldlega snúist til verri vegar, því miður

Athyglisvert er að Fitch nefnir samstarfið við AGS sérstaklega sem jákvætt. Þá er rétt að minna á að þetta samkomulag varð til í samstarfi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar kom núverandi ríkisstjórn að tilbúnum hlut, sem þeir vilja núna njóta ávaxtanna af.

Fitch nefnir líka að skuldir heimila og fyrirtækja hafi lækkað. En hvernig gerðist það? Eins og fram hefur komið í svari við fyrirspurn frá mér, þá stafar sú skuldalækkun að lang mestu leyti af því að svo kölluð gengisbundin lán voru dæmd ólögleg. Þetta var ekki verk ríkisstjórnarinnar, hún getur ekki hreykt sér af því. Þetta var verk dómstóla.

Þá vekur matsfyrirtækið athygli á því að lítill árangur hafi náðst við afnám gjaldeyrishaftanna. Með áframhaldandi höftum verður efnahagsbatinn hægari og geti stuðlað að bóluhagkerfi. Sem sagt með áframhaldandi höftum, getur tvennt gerst: 1. Efnahagsbati verði lítill, 2. Hér myndist fölsk bóla.

Loks nefnir Fitch fjögur atriði sem gætu stuðlað að hærra lánshæfi:

A)     Stöðugleiki í gengi. Við vitum hver raunveruleikinn er. Gengið hefur fallið, þó Seðlabankinn noti skuldugan gjaldeyrisvarasjóðinn til þess að halda genginu uppi. Það gengur ekki til lengdar.

B)      Trúverðug stefna til að aflétta gjaldeyrishöftunum. Engin slík stefna er til staðar. Fátt hefur áunnist.

C)      Frekari endurskipulagning skulda heimila og fyrirtækja. Í þessu hefur ríkisstjórnin skilað auðu og alveg ljóst að úr hennar átt er einskis frekar að vænta.

D)     Frekari skuldalækkun ríkisins og skulda við útlönd. Þar blæs ekki byrlega. Ríkissjóður greiðir núna 80 – 90 milljörðum króna og allt bendir til að mjög muni halla á ríkissjóð á næstunni, með minni hagvexti og minni einkaneyslu. Vöruskiptajöfnuðurinn stendur ekki undir afborgunum og fjármagnskostnaði vegna erlendra skulda.

 


Það þarf mikillar fundvísi við

 

Það er kallað að berja hausnum við steininn þegar menn halda einhverju áfram af fullkominni þrákelkni, en í tilgangsleysi. Ekki telst það gott fyrir þann líkamspart sem toppstykkið er, en stundum er skeytingarleysið og forstokkunin svo ferleg að menn halda áfram þessu ógæfuverki, hvað sem öllu öðru líður.

Alþingi að störfum Enn á ný er lagt af stað með nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp. Þetta heitir að berja hausnum við steininn og er ekki mjög heilsusamlegt fyrir þennan líkamspart.

Ríkisstjórnin fer nú þessa leið með nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp. Þetta er þriðja tilraunin til þess að koma með fiskveiðistjórnarfrumvarp inn í þingið til afgreiðslu. Allir vita hvernig fór með fyrri sjóferðirnar. Þær enduðu með fullkomnum ósköpum. Jón Bjarnason og Steingríkmur J. Sigfússon urðu algjörir strandkapteinar og komust hvorki lönd né strönd.

En í laumi er samt hægt að dást svolítið að þrákelkninni í honum Steingrími að leggja nú frá landi enn á ný, með sitt pólitíska fley jafn ósjóklárt og hin fyrri, svo samlíkingunni um fyrri fiskveiðistjórnarfrumvörpin sé haldið.

Ég leitaði eftir því í þinginu í dag, hvað hefði nú helst breyst í málinu, frá því við skildum við það síðast. Ég rifjaði það upp að hvarvetna sem menn tjáðu sig um málið,fékk það hreina útreið. Gilti þar einu hvort í hlut áttu, sjómenn, útvegsmenn, fiskverkendur, sveitarfélög, samtök fiskvinnslufólks, svo ekki sé nú talað um fræðimennina sem skoðuðu málin fyrir atvinnuveganefnd Alþingis.

En lærðu menn ekkert af reynslunni? Var tekið tillit til ábendinga um það sem betur mætti fara? Ég kem ekki auga á það. Stjórnarliðarnir sögðu okkur að svo væri. Aðspurðir um dæmi, gátu þeir lítið týnt til. Við vorum því engu nær eftir umræður dagsins.

Sjálfsagt er að þeir sem frumvarpið lögðu fram fái að njóta vafans. Málið þarf greinilega mikillar rýni við. Nauðsynlegt er að fara vel ofan í það, bera það saman við fyrri afurðir og gefa sem flestum kost á að tjá sig. Betur sjá augu en auga og kannski sjá menn eitthvað sem við mörg hver sem tjáðum okkur í dag í þinginu komum ekki auga á.

Gagnrýnin á fyrri mál var býsna óvægin. Þau voru sögð vond fyrir þjóðarhag, drægju úr fjárhagslegri getu greinarinnar, setti fjölda útgerðarfyrirtækja á hausinn, kæmi í veg fyrir fjárfestingar, stuðluðu að lægri launum sjómanna og landverkafólks, rýrðu stöðu þeirra sem selja sjávarútveginum vöru og þjónustu, stórsköðuðu sveitarfélögin, veiktu sjávarbyggðirnar og stuðluðu að lægri tekjum ríkissjóðs til lengri tíma. Er þá ekki allt upp talið.

9878016-searching-answer Stjórnarliðar segja að margt hafi breyst til bóta´í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu. Verst er að þeir geta engin dæmi nefnd. Framundan er því mikil leit að betrumbótunum

Nú segja stjórnarliðar að brugðist hafi verið við með breytingum, sem um muni. En geta samt engin dæmi nefnt. Nú þarf því að skoða málin í þessu ljósi og átta sig á því hvort hið nýja frumvarp sé svona gott sem sagt er af stuðningsmönnum þess. Það væri alla vega vont ef möguleg glámskyggni okkar margra og skortur á fundvísi stjórnarliða, yrði til þess að framhjá okkur færi öll þessi mikla framför, sem nýja málið hefði tekið og sem kollvarpaði allri fyrri gagnrýni.

Okkar bíður því gríðarlegt verkefni sem í atvinnuveganefnd Alþingis sitjum. Og við þurfum bersýnilega mikla aðstoð til þess að komast til botns í þessu frumvarpi. Það virðist býsna djúpt á endubótunum, sem stjórnarliðar segja okkur að einkenni þetta þingmál. Við komum ekki auga á það, almennir þingmenn í stjórnarandstöðunni og stjórnarliðið virðist ekki geta hjálpað neitt til,miðað við viðbrögðin í dag.


Munu huldufyrirtæki eignast bankana?

 

Kannast einhver við þessi fyrirtæki:

Brulington loan management í Bretlandi, CCP Credit Acquisition Holdings Luxco, S.A.R.L. í Bandaríkjunum, Silver Point Luxemburg Platform Sarl í Bandaríkjunum, Silver Point Luxemburg Platform Sarl í Luxebourg, Thingvellir S.a.r. Bretlandi, eða kannski Owl Creek Investments I, LLC, í Bandaríkjunum.

Svo má líka spyrja um Hillcrest Investors á Írlandi, Perry Luxco í Luxembourg, TCA Oppoortunity Investments í Luxembourg.

bigstock_Falling_Money_669153 Hverjir munu eignast "íslensku" bankana? Við þekkjum nöfn þeirra. En hver eru þau í raun og veru, hvað gera þau, hvert stefna þau með rekstur bankana? Það vitum við ekki.

Það kæmi ekki á óvart þó svarið við spurningunum sé neikvætt. En til fróðleiks skal þá þess getið að þetta eru fyrirtækin sem verða væntanlega  í hópi stærstu eigenda Arion banka og Íslandsbanka. Þetta eru fyrirtækin sem eiga skuldabréfin á Kaupþing banka og Glitni og munu því að öllum líkindum verða á meðal helstu eigenda hinna endurreistu banka Íslandsbanka og Arion banka.

Þessar upplýsingar hafa nú fyrsta sinn birst opinberlega. Það gerðist, eftir að ég hafði lagt fram fyrirspurnir til atvinnuvega og nýsköpunarráðherra í tveimur liðum. Spurningarnar voru eftirfarandi:

1.      Hverir eru 50 stærstu kröfuhafar Kaupþings og Glitnis og þar með 50 stærstu eigendur Arionbanka og Íslandsbanka, miðað við nýjustu stöðu?

2.      Liggur fyrir mat á hæfi þessara hluthafa til þess að fara með ráðandi hlut í bönlunum tveimur?

Svar ráðherra tók til þeirra sem eiga 1% eða hærra hlutfall krafna í þrotabú Glitnis og Kaupþings. Þetta má lesa HÉR.

Þó framangreindar upplýsingar liggi fyrir, þá er ekki aðgengilegt að afla upplýsinga um hverjir þessir aðilar raunverulega séu sem eiga þessi skuldabréf og verði þar með stærstu eigendurnir. Sú mikla leitarvél Google, færir mann tl dæmis lítt nær þeim upplýsingum. Ekkert þessara fyrirtækja, sem ég athugaði með, virðist til dæmis vera með heimasíðu! Nöfn þeirra sem á annað borð koma upp við leit á vefnum, gefa ekki frekari upplýsingar um eðli þessara fyrirtækja. Í ýmsum tilvikum virðast þetta vera dótturfyrirtæki ( skúffufyrirtæki? ) fjárfestingafélaga, vogunarsjóða eða þá einfaldlega lítt um þau vitað.

Þetta er sem sagt hin nýja einkavæðing bankanna í hnotskurn; eins og ríkisstjórnin stóð fyrir henni. Upplýsingar um kaupendur eru takmarkaðar og kannski helst á færi innvígðra að vita eitthvað um þá. Þeir virðast vera slíkir huldumenn að öflugasta leitarforrit heimsins, sjálft Google finnur þá helst ekki!  Við vitum sem sagt ekkert um þá, ekkert hvað þeir fást við, ekkert um hvað þeir hafa í hyggju með starfsemi bankanna hér á landi, né heldur hver áform þeirra eru að öðru leyti.

Þetta er þess vegna einstæð einkavæðing í sögunni. Það er á fárra vitorði amk. af hvaða toga kaupendurnir eru, alls ekki vitað hvejir þeir verða þegar og ef nauðasamningar verða gerðir og þá alls ekkert hvað þeir hyggjast fyrir.

Stjórnarliðar leggja kollhúfur þegar þetta er fært í tal. Marg oft er búið að krefjast þess að þetta ferli verði allt rannsakað. Við því er ekki orðið. Það er eins og þeir sem ráða nú ferðinni í landinu óttist allt slíkt.


Slegið á fingur Valgerðar og Álfheiðar

 

Forysta stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingi, þær Valgerður Bjarnadóttir og Álfheiður Ingadóttir, verða seint sakaðar um lagni þegar kemur að stjórnmálum. Ætlun þeirra var sú að vaða fram með stjórnarskrárfrumvarpið, áður en umsagnir hefðu borist frá þingnefndum, sem þó höfðu málið til umfjöllunar. Þeirra hugmynd var líka sú að keyra málið inn í þingið og afgreiða áður en Feneyjanefndin skilaði einu sinni  bráðabirgðaáliti sínu, hvað þá auðvitað hinu endanlega áliti.

220PX-~1

Þetta fannst þeim algjörlega eðlilegt og sjálfsagt. Það fannst þeim líka hinum tryggu bandamönnum ríkisstjórnarinnar á Alþingi, þingmönnum Hreyfingarinnar og Bjartrar framtíðar. Þetta er vel skjalfest í ótal viðtölum fjölmiðla við þessa þingmenn og þjóðin varð vitni að.

En svo varð skyndileg stefnubreyting.  Þó fyrrgreindum þingmönnum þætti ekkert athugavert við vinnubrögð sín, þá reyndist það  að lokum ekki mat annarra flokksfélaga þeirra. Klókari og reyndari þingmönnum varð það ljóst að þetta þyldi ekki vel dagsljósið, svo einhver tók það að sér að slá á putta þingkvennanna tveggja.  Á einu augabragði tók málið 180 gráðu beygju. Hætt var við að afgreiða málið. Þess í stað var beðið eftir umsögnunum sem augljóst var öllum að þyrfti að gera.

Þetta hafði ekkert með efnismeðferð málsins að gera. Þetta var bara taktískt klókindabragð, í þeirri von að málið liti betur út.

Þó það væri Álfheiði  Ingadóttur og Valgerði Bjarnadóttur óskiljanlegt, þá sáu það flestir aðrir, að ekki væri það gott fyrir umræðuna um málið, að það væri afgreitt án þess að menn þættust hafa numið eitthvað úr umsögnum þingnefndanna. Þess vegna varð það niðurstaðan að menn gerðu sér það að minnsta kosti upp að hafa eitthvað litið á það sem aðrar þingnefndir hefðu um málið að segja.

Það leit nefnilega  ekki vel út að hundsa þessi álit, svo öllum væri ljóst. Nóg væri að allir sæi að varnaðarorð sérfræðinga væru hundsuð. Það þurfti því að breyta texta leikritsins.

Auðvitað  er þetta ekkert nema leikrit. Umfjöllun stjórnskipunar og eftirlitsnefndarnefndar um umsagnir þingnefnda er í skötulíki.

images Þó siglt hafii verið á síkjum Feneyja til fundar við nefndina, á ekki einu sinni að bíða eftir bráðabirgðaálit hennar, hvað þá auðvitað endanlegu áliti.

 Sýnilega á ekki einu sinni að bíða eftir bráðabirgðaáliti Feneyjarnefndarinnar. Endanlegt álit þessarar nefndar á ekki að líta dagsins ljós fyrr en í mars, þegar Alþingi verður ekki lengur að störfum!!

Hafði þó Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar siglt á síkjum Feneyja til fundar við nefndina, enda var í upphafi  mikið látið með þýðingu þess að leita álits hennar.

 Þetta er auðvitað alveg ömurlegt allt saman. Ekkert  er gert með álit sérfræðinga. Ekki átti að gera einu sinni sýndartilraun til þess að meta álit fagsnefnda á Alþingi. Feneyjarnefndinni er bara réttur fingur upp í loftið og stjórnarskráin er orðin að leiksoppi í höndum fólks sem greinilega stendur á sama um öll viðvörunarorð.


Hvorki verður skeytt um skömm né heiður

 

Hvað ætli eftirtaldir einstaklingar eigi sameiginlegt?

Björg Thorarensen prófessor,

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor,

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor,

Indriði H. Indriðason aðstoðarprófessor,

Aagot Óskarsdóttir, lögfræðingur,

Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor,

Karl Axelsson dósent og hrl.

Ágúst Þór Árnason, deildarforseti,

Ragnhildur Helgadóttir prófessor,

Skúli Magnússon, lögfræðingur og dómari,

Birgir Guðmundsson dósent,

Þóroddur Bjarnason prófessor,

Helgi Áss Grétarsson lektor,

Sigurður Líndal prófessor emeritus,

Ragnar Árnason prófessor,

Sigurður Tómas Magnússon prófessor,

Þráinn Eggertsson prófessor,

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis.

Jú, þetta fólk er í hópi þeirri fjölmörgu fræðimanna sem hafa gert margvíslegar, stórar og smáar og mjög alvarlegar athugasemdir við frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem nú liggur fyrir Alþingi.

Engar líkur eru á að nokkurt tillit verði tekið til athugasemda þessa fólks. Meirihluti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis virðist ætla að sniðganga sjónarmið þeirra og fara sínu fram. Það er greinilega ætlunin að skeyta hvorki um skömm né heiður.

220PX-~1 Það er gróflega dapurlegt að forysta stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis ætlar að sniðganga viðvörunarorð okkar helstu sérfræðinga um hugmyndir að nýrri stjórnarskrá.

Forystufólk nefndarinnar, þær stöllur Valgerður Bjarnadóttir og Álfheiður Ingadóttir, vinna eftir kjörorðinu „Vér einir vitum“. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart.

En hér er sjálf stjórnarskráin í húfi. Það er ekki verið að fjalla um eitthvað léttavigtarmál. En það breytir engu. Hvað sem á dynur, hvað sem tautar og raular, er ætlunin að leggja af stað í hreina óvissuferð með stjórnarskrána.

Í hópi þeirra sem harðast ganga fram í óskammfeilninni eru þingmenn sem einu sinni boðuðu fagleg og bætt vinnubrögð. Einnig þingmenn sem nú boða betri tíma með góðum vinnubrögðum,samstöðu og bjartri framtíð. Þetta fólk hefur nú afhjúpað sig. Það er í sjálfu sér fróðlegt að sjá. Hitt er þó auðvitað miklu verra; það virðist staðráðið í að hafa stjórnarskrána að leiksoppi.

 


Þau ættu kannski að prófa að þegja

 

Hin hörmulega útreið stjórnarflokkanna í skoðanakönnunum er farin að valda áhyggjum og vangaveltum talsmanna flokkanna, eins og við höfum orðið vitni að síðustu dægrin. Það þarf engan að undra. Skoðanakannanir mæla fylgi flokkanna þannig, að Samfylkingin hefur séð á bak þriðja hverjum kjósanda sinna frá kosningum. Tveir af hverjum þremur kjósendum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, treysta flokknum ekki lengur fyrir atkvæði sínu.

2raduneyti-JS-10-12 Ætli engum á stjórnarheimilinu hafi dottið í hug að vandi stjórnarflokkanna sé heimatilbúinn. Fólkið skynji það sem ríkisstjórnin skilur ekki; að almenningur sé búinn að fá sig fullsaddan af sjálfumgleðinni í fílabeinsturninum.

Og hverjar eru skýringarnar?

Jú. Fólkið skilur ekki og meðtekur ekki afrek okkar, segja talsmennirnir. Þetta höfum við séð í skrifum þingmanna og þetta mátti heyra í Kastljósinu í kvöld, þar sem formannsefni Samfylkingarinnar ræddu saman.

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Þetta er endurómur þess sem formenn flokkanna hafa áður sagt, af svipuðum tilefnum, þó vissulega sé staða þeirra lakari nú í skoðanakönnunum en áður.

En ætli þetta sé þannig? Geta talsmenn og forystumenn þessara flokka sagt með sanni að sjónarmið þeirra hafi ekki fengið að njóta sín í opinberri umræðu?

Öðru nær. Ráðherrar eru daglegir gestir í stofum landsmanna í gegn um sjónvarpsfréttirnar. Venjulegur fréttatími Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins samanstendur af þremur til fjórum fréttum þar sem ráðherrar eru aðal stjörnurnar. Orð þeirra fá daglega og vængi oft á dag í prentmiðlunum og netmiðlum. Af minnsta tilefni, er boðað til blaðamannafunda ráðherra. Þeir ávarpa okkur landsmenn í gegn um tilkynningar sem sendar eru út til þess að vekja athygli á því sem þeir telja sér til pólitískra tekna.

Og dag hvern sem þingið starfar eiga ráðherrar og þingmenn möguleika á að láta í sér heyra og til þess að skýra sitt mál.

Ofan í kaupið hefur forsætisráðherrann ráðið sér illyrtan blaðafulltrúa, sem skrifar hvern dálksentimetrann af fætur öðrum til þess að bera blak af herrum sínum og frúm og með ófrægingum um þá sem ekki eru taldir þóknanlegir.

Það verður því ekki undan því kvartað að þetta fólk komi ekki sínum málstað á framfæri.  En ekkert dugar. Því meira sem frá þessu fólki heyrist, þeim mun óvinsælla verður það og nýtur minni stuðnings almennings.

Spurningin sem vaknar er því ekki sú hvort fólk fái ekki að kynnast því sem ráðherrar og aðrir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa fram að færa. Því fer víðs fjarri eins og allir vita. Almenningur heyrir þetta og sér í eins fögrum búningi og frekast er unnt. - En ákveður síðan, að það eigi ekki samleið með ríkisstjórnarflokkunum. Fólk sér í gegn um blekkinguna.

Og hvað er þá til ráða fyrir ríkisstjórnarflokkana?

Ætli engum á stjórnarheimilinu hafi dottið í hug að vandi stjórnarflokkanna sé heimatilbúinn. Fólkið skynji það sem ríkisstjórnin skilur ekki; að almenningur sé búinn að fá sig fullsaddan af sjálfumgleðinni í fílabeinsturninum. Sé orðinn þreyttur og skilningsleysinu og blekkingunum, sem birtist í hvert sinn sem talsmenn stjórnarinnar opna munninn.

Eða hvenær ætli það renni upp fyrir stjórnarherrunum að þeirra vandi er ríkisstjórnin sjálf, stefna hennar, úrræðaleysi, sjálfumgleði og skilningsleysi? Kannski þeir ættu að prófa að þegja.


Gefum tafarlaust út einhliða kvóta í makrílnum


Eins og fyrri daginn þá gáfu ESB ríkin og Noregur út einhliða kvóta í makríl í gær. Þetta var svo sem viðbúið og  í ætt við annað úr þessari átt. Nú er ekki eftir neinu að bíða fyrir okkur. Eðlilegt er að þegar í stað verði gefinn út kvóti fyrir Ísland með sams konar hætti og gert hefur verið undanfarin ár.

ESB tengir makríldeiluna og ESB umsóknina Norðmenn og ESB taka sér 90% ráðlags heildarafla í makríl.

Með ákvörðun ESB og Norðmanna er auðvitað fullreynt að sinni, að ná megi vitrænu samkomulagi varðandi nýtingu makrílstofnsins. Veiðarnar munu því halda áfram án samkomulags. Þá verður vitaskuld svo að vera.

Við Íslendingar höfum staðið að málum með sanngjörnum og ábyrgum hætti. Við höfum krafist sanngjarnrar hlutdeildar í veiðinni í samræmi við að makrílinn gengur í miklum mæli inn í íslenska lögsögu,  sækir þangað  mikinn næringarforða og  sem veldur verulegu inngripi í lífkeðjuna. Rökin fyrir verulegri hlutdeild í veiðinni af okkar hálfu eru þess vegna algjörlega himinhrópandi og augljós.

Það eru ESB ríkin og og Norðmenn sem eru óábyrgu aðilarnir. Þeir hafa gefið út aflaheimildir til eigin útgerða með einhiða hætti. Þeir hafa skellt skollaeyrum við öllum sanngjörnum tillögum okkar og láta sem ekkert hafi breyst í göngumynstri makrílsins.

Þeir hafa sem sagt sýnt lítinn raunverulegan samningsvilja.

Þess vegna hefur verið nöturlegt að heyra einstaka hjáróma raddir hér innanlands sem hafa látið í veðri vaka, eða sagt, að  við  séum hinir óábyrgu. Það erum við ekki. Þvert á móti, höfum við boðberar sjálfbærrar nýtingar og ábyrgra veiða. Það eru þeir sem fyrstir taka sér 90% ráðlags aflamagns, sem eru boðberar rányrkjunnar.  Hinir óábyrgu eru ESB þjóðirnar og Norðmenn.

Okkur hefur verið svarað með hótunum um viðskiptaþvinganir  og ESB hefur hreinlega lagt upp lagaverk til þess að geta beitt þeim. Það er ótrúleg skammfeilni og sýnir að ætlunin er að reyna að neyta efnahagslegs aflsmunar.

Svona haga siðaðar þjóðir sér alls ekki.  

Makríldeilan er síðan náskyld aðildarumsókninni  að ESB. Það hafa ráðherrar okkar viðurkennt og vakið í raun athygli á með því að fullyrða að seinagangurinn í viðræðum um sjávarútvegsmálin í ESB viðræðunum sé vegna ágreiningsins um makrílinn.

Makríldeilan er einhver aalvarlegasta milliríkjadeilan sem við höfum lengi staðið frammi fyrir. Við eigum í höggi við mjög einarða andstæðinga, sem eru greinilega tilbúnir til þess að ganga ótrúlega langt til þess að brjóta okkur á bak aftur.

Ákvörðun þeirra um einhliða kvóta sjálfum sér til handa, rétt eina ferðina, er skýrt merki um algjöran skort á samningsvilja. Það er þess vegna ekki eftir neinu að bíða. Gefum út makrílkvóta einhliða og það tafarlaust.

 


ESB málið sett í súr

 

Í ESB umræðunni hafa orðið til dálítið skemmtileg hugtök, sem öll lúta að geymsluaðferðum á matvælum. Það hefur verið talað um að setja viðræðurnar við ESB „á ís“, eða að „setja þær í salt“. Athyglisvert er að sjaldan er rætt um algengustu geymsluaðferðina sem hér er notuð að öðru leyti, sem væri þá að „frysta  viðræðurnar“; hraðfrysta þær, eða leifturfrysta, vilji menn vera nákvæmir. Svo mætti auðvitað hugsa sér að þær yrðu „þurrkaðar“, svo enn einni geymsluaðferðinni  sé haldið til haga.

Með hinni nýju og stórundarlegu vendingu ríkisstjórnarinnar í ESB málinu má segja að tekin hafi verið upp gömul geymsluaðferð í þessu skyni; málið hefur augljóslega verið „sett í súr".  ESB viðræðurnar hafa sem sagt verið súrsaðar.

SRMATU~1 Með hinni nýju og stórundarlegu vendingu ríkisstjórnarinnar í ESB málinu má segja að að tekin hafi verið upp gömul geymsluaðferð í þessu skyni; málið hefur augljóslega verið „sett í súr". Það er viðeigandi í upphafi þorrans.

Það er auðvitað mjög viðeigandi. Þorrinn hefst eftir um viku og borð landsmanna munu næstu vikurnar svigna undan súrmat af öllum gerðum. Og málið hefur óneitanlega súrnað mjög í munni þeirra sem hafa ábyrgð hafa á því borið, jafnt hjá Samfylkingu og VG.

Þessi  ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem átti að verða eins konar pólitísk andlitslyfting fyrir ríkisstjórnina hefur gjörsamlega snúist í höndunum á flokkunum sem ákvörðuninni  stóðu. Innan þeirra beggja ríkir megn óánægja, en auðvitað út frá tveimur gjörólíkum forsendum.

ESB málið er sem sagt orðið mjög súrt í munni beggja flokkanna.

Nú er hafið mikið áróðursstríð af beggja hálfu.

Vinstri grænir keppast við að segja okkur að þetta séu mikil tímamót og þeir hafi náð sínu fram. Athygli vekur hins vegar að núna er eins og úr þeim sé allur vindurinn. Þeir forðast að ræða málið, enda líklega orðið ljóst að útspil þeirra hefur bara gert illt verra.Þannig þögðu þingmenn flokksins þunnu hljóði um þetta mál í umræðum á Alþingi í gær.

Samfylkingarmenn segja okkur hið gagnstæða. Ekkert hafi gerst. Utanríkisráðherra segir okkur að málinu hafi verið siglt í var og ESB verði ekki bitbein í kosningum. Þingmenn flokksins segja málið verða kosningamál.

Inn í þetta tómarúm, sem hefur orðið til í Samfylkingunni, siglir nú Björt framtíð, flokkurinn sem í daglegu tali, manna á meðal, hefur verið kallaður Litla Samfylkingin. Það vekur athygli að þingmenn BF keyra á sinn gamla flokk, Samfylkinguna í þessu málið. Þeir meta það svo, enda er þeim ljóst að á þeim miðum getur orðið atkvæðavænt að setja út veiðarfærin.

Svona tekur klækjapólitíkin á sig stöðugt nýjar myndir. Það er síðan fróðlegt að sjá hvernig hinn hinn nýji stjórnmálaflokkur ber sig að við hana, vel og fagmannlega; en boðar síðan á sama tíma ný vinnubrögð í stjórnmálunum!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband