Sjálfskaparvíti ríkisstjórnarinnar

UK-EUÞau eru alltaf verst sjálfskaparvítin. Það hefur ríkisstjórnin mátt þola nú síðasta sólarhringinn eða svo. Þess vegna eru ráðherrar svo pirraðir sem raun ber vitni og birtist glöggt á dæmlausum blaðamannafundi sem haldinn var í framhaldi af því að forseti Íslands kaus að vera sjálfum sér samkvæmur og synja illa þokkaðri Icesavelöggjöf staðfestingar. Ráðherrarnir rembast við að ófrægja Ólaf Ragnar Grímsson forseta, þegar það blasir við hverjum manni að sökudólguirinn í málinu er ríkisstjórnin.

Það var ríkisstjórnin og enginn annar sem ber ábyrgð á lyktum þessa máls alls. Það var nefnilega ríkisstjórnin sem kom heim með fráleitan samning við Hollendinga og Breta um mitt síðasta ár eftir að hafa ástundað leynipukur mánuðum saman með viðsemjendum sínum. Sá samningur var enda ekki í samræmi við þau viðmið sem samið hafði verið um við viðsemjendur og ESB. Þessi samningsviðmið (Brusselviðmiðin) hafði Alþingi  fallist á, með samþykkt sinni 5. desember 2008.

Gleymum því ekki að samningi ríkisstjórnarinnar frá síðasta sumri  hafnaði Alþingi í raun og setti inn fyrirvara og skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni, sem var forsenda samningsins

En þá fór ríkisstjórnin enn á stjá að nýju, samdi aftur við Hollendinga og Breta og uppskar gríðarlega andstöðu. Stjórnarandstaðan - mínus einn - fór gegn málinu. Það gerðu líka tveir stjórnarþingmenn. Í skoðanakönnunum birtist massíf andstaða almennings og fjórðungur atkvæðisbærra manna skoraði á forsetann að synja löggjöfinni staðfestingar.

Hvað gat hann þá gert? Hann gat verið sjálfum sér samkvæmur og neitað að skrifa undir, eða fara gegn eigin stefnumótun. Hann valdi fyrri kostinn.

Þá bregður svo við að það er mynduð heil breiðsíða gegn Ólafi Ragnari. Þar fara í fylkingarbrjósti þau stjórnmálaöfl sem lofuðu hann og prísuðu fyrir að taka sér neitunarvald fyrir fimm árum.

Hér á það við að skamma stund verður hönd höggi fegin. Með ákvörðun sinni árið 2004 markaði forsetinn nýja stefnu undir hvatningar- og húrrahrópum Samfylkingar, Vinstri grænna, útrásarvíkinga og gjallarhorna þeirra meðal annarra. Þeir sem þannig létu þegar það hentaði geta ekki kvartað núna.  

Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar uppskáru eins og til var sáð með málatilbúnaði sínum í Icesavemálinu. Þeir geta engum kennt um ófarir sínar nema sjálfum sér. Það er lítilmótlegt af þeim að skella allri skuldinni á forsetann.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband