Það er gott að búa á Íslandi

ÍslandskortÍmyndum okkur að við hlustuðum á svartagallsrausið um íslenskt þjóðfélag daginn út og inn - og tryðum því öllu. Við okkur myndi ekki blasa falleg mynd. Hún væri eitthvað á þessa leið: Allt er á leið til glötunar og stjórnvöld önnum kafin við samsæri gegn almenningi í landinu. Lífskjör slök, litlu fé veitt til almannaheilla og stjórnvöldin spillt og ómöguleg. Samkvæmt svartagallsrausinu fer heimur hér mjög versnandi.

En sjáum nú til.

Í nýjasta hefti breska blaðsins Economist birtast fróðlegar tölulegar upplýsingar, sem eru svartagallsrausinu eins konar kjaftshögg. Annars vegar er vitnað í skýrslu um lífsgæði í heiminum og hins vegar greint frá skýrslu um spillingu stjórnvalda í veröldinni.

Human development report greinir frá því að á Íslandi séu lífsgæði næst best í heiminum. Einungis velferðar og olíuframleiðslulandið Noregur tekur okkur fram. Mælikvarðarnir sem liggja til grundvallar eru hvaða lönd veita þegnum sínum, bestu lífskjörin og innihaldsríkasta lífið og hvar langlífi er mest. Til grundvallar liggja mælikvarðar á borð við menntun, lífskjör og og langlífi. Næst okkur eru Ástralía, Írland, Svíþjóð, Kanada, Japan og Bandaríkin. Enn lengra fyrir aftan okkur eru lönd  sem eru einskonar burðarásar Evrópusambandsins, Bretland, Þýskaland og Frakkland.

Og lítum þá á aðra mælikvarða. Að þessu sinni um spillingu. Alþjóðleg stofnun, Transparancy International leggur mat á spillingu í heiminum. Ísland ásamt með Finnlandi og Nýja Sjálandi skara fram úr vegna lítilliar spillingar stjórnvalda. Frændur okkar og vinir Danir eru í fjórða sæti, sem sé á eftir okkur. En skemmst er að minnast gagnrýni frá dönsku dagblaði á viðskiptalíf okkar. Þar fyrir aftan koma svo Singapore, Svíþjóð og Sviss.

Þetta eru athyglisverðar upplýsingar. Og sannarlega stangast þær mjög á við síbyljuna sem stundum heyrist í almennri umræðu hér á landi. Það er líka stundum svo að menn þurfa að skoða hlutina úr fjarlægð og í ákveðnu alþjóðlegu samhengi. Þá sjá menn kannski að þótt sitthvað megi og beri að bæta hér á landi, þá stöndumst við afskaplega vel hinn alþjóðlega samanburð. Það sýna þessar tvennu skýrslur, sem nú er verið að fjalla um í alþjóðlega viðurkenndu tímariti, sem þekkt er fyrir flest annað en að fleipra eða styðjast við hæpin gögn.

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband