Hver axlar ábyrgð af þessu hneyksli og þessu klúðri?

 

Í ríkisstjórnum þar sem menn gerðu faglegar kröfur og kysu gagnsæ vinnubrögð væru hausar farnir að fjúka, eftir þá útreið sem sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar hefur fengið. Skýrsla hagfræðinganna sex, sem gerð var opinber á fimmtudag og fjallað hefur verið um, er slíkur áfellisdómur yfir stefnu ríkisstjórnarflokkanna í þessum grundvallarmálaflokki, að einhver hlýtur að vera farinn að huga að því að hirða pokann sinn.

Gáum að einu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stefna ríkisstjórnarflokkanna í þessum málaflokkanna fær svona verkun. Í endurskoðunarnefndinni, sem kölluð hefur verið sáttanefnd, var leitað til Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri til þess að leggja mat á sjávarútvegsmálin og taka fyrningarleið ríkisstjórnarflokkanna sérstaklega út. Þar fékk fyrningarleiðin hrikalega útreið. Athugun Akureyringanna leiddi ofureinfaldlega í ljós að helmingur sjávarútvegsfyrirtækjanna færi á hausinn ef stjórnarstefnunni yrði hrint í framkvæmd.

Þess vegna varð niðurstaða endurskoðunarnefndarinnar sú að hafna fyrningarleiðinni. En þrátt fyrir það var föndrað við það að setja hana í lög, bakdyramegin og í vægari skömmtum. Um það snerust sjávarútvegsfrumvörp ríkisstjórnarinnar.

Og nú er búið að taka þá útgáfu til skoðunar af óvilhöllum sérfræðingum. Eftir stendur að stærra frumvarpið er í tætlum. Það uppfyllir enga kvarða. Hið minna frumvarp var strípað niður í meðförum Alþingis eins og allir vita.

Sannast sagna voru það ekki margir sem báru blak af frumvarpsóbermum ríkisstjórnarinnar. Og nú er brostinn flótti í liði þeirra fáu sem mærðu frumvörpin er þau voru lögð fram. Varaformaður sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar Alþingis vill endurskoða stóra þætti frumvarpsins stóra. Þögn hefur fram undir þetta amk. umlukið aðra ábyrgðarmenn málsins. Sú þögn skal virt þeim til tekna. Menn kunna þó að skammast sín. Það er áægt byrjun.

Og athygli vekur að nú er ekki lengur talað um þessi sjávarútvegsmál sem ríkisstjórnarmál. Nú er talað um frumvörp Jóns Bjarnasonar. Það á greinilega að reyna að hengja hann fyrir að hafa lagt fram kolómöguleg frumvörp. En þá skulum við gá að einu. Þessi frumvörp eru að sönnu á stjórnskipunarlega ábyrgð Jóns Bjarnasonar. En alveg fram að því að síðati stafkrókur var í þeim skrifaður höfðu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon hönd í bagga. Og það höfðu líka fjórir eða fimm handvaldir þingmenn stjórnarflokkanna. Þetta fólk, - einkanlega ráðherrarnir, - bera því fulla ábyrgð á hneykslinu. Frumvörpunum, sem allir fyrirverða sig nú fyrir, en voru óvart afrakstur átta mánaða vinnu, samstarfs og hrossakaupa stjórnarflokkanna í þessum málaflokki.

Það er ljóst að þó ætlunin sé sýnilega í spuna ríkisstjórnarforystunnar, að láta Jón Bjarnason einan hanga í þessu klúðri, þá hlýtur ríkisstjórnarforystan ekki síður að hugsa sinn gang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband