Ljósi varpað á hjaðningavígin í ríkisstjórnarflokkunum

   

Farsakenndir stjórnarhættir sem innleiddir hafa verið af núverandi stjórnarflokkum hafa sennilega gert það að verkum að menn átta sig ekki á helstu tíðindunum,  þegar ráðherra í ríkisstjórninni er leiddur fyrir stórskotaliðssveit úr eigin herbúðum. Hér er átt við þá ótrúlegu uppákomu sem varð þegar Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra var bombarderaður af meintum félögum sínum úr stjórnarflokkunum á fundi þriggja þingnefnda í síðustu viku.

 Hér er ekki bara átt við Mörð Árnason þingmann Samfylkingarinnar. Hann var bara samur við sig.

 Stóru tíðindin eru auðvitað þau að ráðherrann mætti óvigum her eigin flokksmanna, í sömu erindum. Þetta voru svo sem ekki neinir aukvisar, eða léttavigtarfólk. Þarna voru komnir í þessum tilgangi, formaður utanríkisnefndar, formaður þingflokksins og fyrrverandi ráðherra úr sama stjórnmálaflokki og sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

 Tilefnið var að ávíta ráðherrann fyrir það eitt að hann stóð í lappirnar og fylgdi áratuga stefnu okkar í auðlindanýtingarmálum á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það var nú allur glæpurinn. Og þó að fundir sem þessir séu haldnir undir merkjum trúnaðar fór efni hans  fljótt í opinbera umræðu jafnt á bloggsíðum sem og í prent- og í ljósvakamiðlum.

 Þessi uppákoma lýsir  inn í það ástand sem er á stjórnarheimilinu. Hvernig  klofningur birtist okkur í aðskiljanlegum málum og segir okkur það sem er viðblasandi. Hér er við völd ríkisstjórn sem er ófær um að stjórna vegna innbyrðis ósamkomulags, tortryggni og hjaðningavíga.

 Að nafninu til styðst ríkisstjórnin við eins manns meirihluta. Það hefur gefið einstökum þingmönnum tækifæri til þess að láta kné fylgja kviði í einstökum málum. Og nú er svo komið að blóðbragðið er komið í munninn. Menn sæta lagi, eins og dæmin eru þegar farin að sanna.

 Inn í þetta blandast auðvitað alþekktur klofningur í röðum VG. Sá flokkur er í rauninni klofinn ofan í rót. Það kristallast meðal annars í heiftarlegum átökum um ESB. Og þar blandast mál eins og rétturinn  til hvalveiða inn í. Sú umræða er í grunninn umræðan um réttinn til sjálfbærrar og ábyrgrar auðlindanýtingar. Allir vita að einmitt þar stendur hnífurinn í ESB kúnni.

 Hvalveiðar eru bannorð í ESB. Átökin við ESB í aðildarviðræðum VG- og Samfylkingarstjórnarinnar, snúast um rétt þjóðarinnar til nýtingar og stjórnunar á eigin auðlindum. Það er því mikið í húfi núna  fyrir aðildarsinnana í stjórnarflokkunum að gera hvalveiðarnar  tortryggilegar. Og í þessu ljósi þurfa menn þess vegna að skoða atlöguna að Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband