Hvar liggur hundurinn grafinn?

  

 

Stóra spurningin sem vakir yfir allri umræðunni um Stjórnarráðsfrumvarpið er þessi: Af hverju er þessi ofuráhersla á að ljúka þessu máli núna fyrir mánaðarmótin? Það er ekkert augljóst svar við þessari spurningu. Engir tímafrestir eru í frumvarpinu. Það rekur því ekki á eftir því, ólíkt því sem er á ferðinni í gjaldeyrishaftamálinu.  Ríkisstjórnin ætti að hafa vald á þessu máli í haust; geti hún á annað borð reitt sig á sinn veika þingmeirihluta og hjálparkokka sína á Alþingi, í þessu máli.

En samt er þybbast við af hálfu stjórnarliða. Málið er umdeilt, það er meira að segja mjög umdeilt á meðal stjórnarliða. Einn ráðherra er andvígur og annar sat hjá við afgreiðslu þess úr ríkisstjórn. Slatti af þingmönnum stjórnarinnar skilaði nefndaráliti með fyrirvara.

Ein skýringin á ofsa ríkisstjórnarinnar í þessu máli gæti því verið sú að hún treysti því ekki að málið fái brautargengi frá sínu eigin fólki. Ríkisstjórnarforystan óttist því  að málið brenni inni í ríkisstjórn eða þingflokkum stjórnarflokkanna.

Önnur skýring gæti verið sú að málið sé metnaðarmál forsætisráðherrans. Við vitum raunar að svo er. En ótrúlegt er það samt sem áður að metnaður forsætisráðherrans í þessu tiltekna máli sé svo blindur að starfsfriðnum á Alþingi sé hleypt í uppnám.

Þriðja skýringin gæti síðan leynst í efni málsins sjálfs. Frumvarpið mun auka völd framkvæmdavaldsins á kostnað Alþingis. Það er óumdeilanlegt og sést best á hinni umdeildu 2. grein þess sem felur það í sér að völd sem áður voru hjá löggjafanum verða í höndum forsætisráðherrans.

Vitaskuld getur ráðherrann hverju sinni ekki farið með þetta vald að vild sinni. En með samþykkt frumvarpsins fær forsætisráðherra engu að síður stóraukið hótanavald; valdið til að deila og drottna. Og þar er núverandi forsætisráðherra á heimavelli , eins og alþjóð veit.

Í breytingartillögum meirihluta allsherjarnefndar Alþingis er síðan opnað á það að hægt sé að hafa hvern þann fjölda ráðherra og ráðuneyta, sem menn vilja. Ráðuneytin geta teórítiskt orðið allt frá einu og upp í hið óendanlega og ráðherrafjöldinn sömuleiðis. Síðan er líka lagt til að  skipta megi upp ráðuneytum, allt eftir vild þeirra sem að völdum eru hverju sinni. Það verður sem sé hægt að taka einstök verkefni út úr ráðuneytunum og flytja þau í önnur ráðuneyti. Með öðrum orðum: Það er verið að safna saman gríðarlegu valdi á nánast eina hendi.

 Og þá vaknar sú spurning sem hefur þráfaldlega verið  borin upp í umræðunni: Liggur hundurinn grafinn þarna? Er þetta sú hugsun sem verið er að innleiða; að greiða leið að því að taka tiltekin viðfangsefni frá óþægum ráðherrum og setja þau í annarra hendur?

Við þessu fást engin svör. Stjórnarliðar hafa haft endalaus tækifæri til þess að veita þau, en þeir hafa bara lagt kollhúfur. Þeim er greinilega nokk sama um lýðræðislega umræðu. Þeir vilja bara beita valdi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband