„Þjóðin í heild mun tapa“

 

Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands skrifaði ákaflega athyglisverða grein í Morgunblaðið sl. miðvikudag. Ragnar, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir fræðistörf sín á sviði auðlindahagfræði, bendir á að íslensk stjórnvöld vinni nú kerfisbundið að því að veikja samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs. Þegar fram í sæki muni það leiða til þess að við verðum undir á alþjóðlegum mörkuðum sem verði þess valdandi að lífskjör hér á landi verði verri.

Ragnar Árnason

 

Þetta eru sláandi ábendingar og ættu að verða íslenskum stjórnvöldum ábending um að snúa tafarlaust við blaðinu.

Í grein Ragnars segir:

„Á sama tíma og þessi þróun á sér stað eru íslensk stjórnvöld kerfísbundið að veikja samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs. Ef svo heldur fram sem horfír mun samkeppnisstaða hans á alþjóðlegum fiskmörkuðum verða mun lakari en helstu keppinautanna. Þá verður ekki að sökum að spyrja. Við þæraðstæður er einungis tímaspursmál  hvenær hinir erlendu samkeppnisaðilar ná að hrekja íslenska framleiðendur út af bestu mörkuðunum með undirboðum og öflugri markaðssetningu. Þá mun þróun liðinna ára snúast við. Í stað þess að þjóðin fái stöðugt hærra verð fyrir sjávarafurðirnar mun verðið fara lækkandi og okkar útflytjendur smám saman hrekjast út í lökustu markaðshornin. Framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslu mun minnka að sama skapi. Okkur mun einfaldlega verða minna úr auðlindum sjávarins. Þjóðin í heild mun tapa.“

Okkur hefur auðvitað verið ljóst að sú óvissa sem skapast hefur í íslenskum sjávarútvegi hefur verið okkur dýrkeypt. Dregið hefur úr fjárfestingum um sem svarar um 60 milljörðum á síðustu þremur árum. 60 milljarðar sem ella hefðu valdið hér vaxandi umsvifum, fjölgað störfum og dregið úr atvinnuleysi, hækkað tekjur almennings, sveitarfélaga og ríkisins.

 En hitt er vitaskuld miklu alvarlegra, sem Ragnar lýsir. Þessi þróun gerir okkur síður samkeppnisfær. Við verðum því hrakin út í horn; verðum eins konar hornkerlingar á vel borgandi sjávarafurðamörkuðum, þar sem við höfum átt sterka stöðu. Það leiðir svo til lægri heildartekna, verri launa þess sem í greininni starfar, veikari atvinnuvegar.

Afraksturinn af okkar sameiginlegu auðlind verður þess vegna minni, sem skaðar ríkissjóð og þjóðina í heild Sem sagt allir munu tapa; ekki bara sjávarútvegurinn, heldur við öll.

.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband