"Munu leiða til gjaldþrota nokkurs stórs hluta sjávarútvegsfyrirtækja“

 

 

Fiskveiðifrumvörp ríkisstjórnarinnar hafa fengið herfilega útreið í umsögnum nær allra þeirra sem kynnt hafa álit sín fyrir atvinnuveganefnd Alþingis. Þau eru talin brjóta stjórnarskrána í veigamiklum atriðum og áhrif þeirra á þjóðarhag eru talin neikvæð. Sem þýðir auðvitað það að sá arður sem rennur til þjóðarinnar að lokum af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar mun minnka. Gagnstætt því sem ætlað var. Verra getur það því ekki verið.

Flotinn í höfn í Bolungarvík

Um áhrifin á fyrirtækin þarf ekki að fjölyrða.

Tveir sérfræðingar voru kallaðir til af hálfu atvinnuveganefndar til þess að vega og meta  efnahgslegar og byggðalegar afleiðingar frumvarpanna.  Þetta voru þeir Daði Már Kristófersson dósent við Háskóla Íslands og Stefán Gunnlaugsson lektor við Háskólann á Akureyri. Þeir eru báðir sérfróðir um þessi mál og hafa áður verið kallaðir til ráðslags um fiskveiðifrumvörp ríkisstjórnarinnar.

Niðurstöðu sína ramma þeir inn með þessum orðum: „Áhrif frumvarpanna eru það mikil að þau munu leiða til gjaldþrota nokkuð stórs hluta íslenskra sjávarútvegs fyrirtækja.“ Viðbrögð stjórnarliða eru þannig að ekki verður séð að þessar hrollköldu staðreyndir hruggi mikið við þeim.

Rétt er það sem haldið hefur verið fram. Nokkur hluti sjávarútvegsfyrirtækja er svo skuldugur að hæpið er að geta staðið undir skuldum sínum. Önnur geta það með erfiðismunum, en eiga samt vegna góðs rekstrar alla möguleika á að lifa af að óbreyttum lögum og ná vopnum sínum.

En þá koma nýju frumvörpin til skjalanna. Þau gera úti um það.

Þetta á  alveg sérstaklega við um þorskveiðifyrirtækin. Nú vitum við að allt stefnir í að úthlutaður þorskkvóti muni aukast á komandi árum. Sem að óbreyttu myndi þýða auknar tekjur þessara fyrirtækja. En með nýju sjávarútvegsfrumvörpunum er girt fyrir það. Aflaaukningin í þorski mun ekki nema að hálfu renna til þessara fyrirtækja. Hinn hlutinn fer í pottasjóði ríkisins.

Sérfræðingarnir kveða upp úr um að þetta ráðslag muni gera það að verkum að fyrirtækin sem nú eiga lífsvon, komist í þrot.

Þetta er auðvitað sérstaklega alvarlegt fyrir hefðbundnar þorskveiðiútgerðir. Þetta þýðir á mæltu máli, t.d byggðir á norðvestanverðu landinu, smábáta, einyrkja  og raunar víðar. Þetta fyrirkomulag er sem sagt bein árás á þessa framangreindu aðila.

Það eru pólitísk inngrip með nýju frumvörpunum, sem valda munu því hruni þessara útgerða alveg sérstaklega. Það eru hin pólitísku inngrip sem munu gera það að verkum að fjöldi útgerða um land allt fer í þrot sem ella myndu lifa. Það verður þá á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þeirra þingmanna sem að málinu standa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband