31.5.2012 | 22:08
Þetta er helber dónaskapur
Mér telst svo til að í umfjöllun sinni um veiðigjaldafrumvarpið og frumvarpið um stjórn fiskveiða hafi atvinnuveganefnd Alþingis haldið 18 fundi; margir þeirra stóðu klukkutímum saman og örugglega engir undir tveimur tímum. Fjöldi þeirra sem sendu nefndinni umsagnir um málin sýnist mér að hafi verið um 80. Sumir sendu inn umsagnir um bæði frumvörpin í einu, aðrir álit um hvort frumvarp fyrir sig. Til nefndarinnar voru svo kvaddir um 70 gestir. Margir þeirra komu um langan veg. Rifu sig upp frá daglegum störfum sínum, lögðu land undir fót, ýmist akandi eða fljúgandi, með ærnum tilkostnaði og kynntu mál sitt með miklum ágætum.
Við nefndarmenn spurðum gesti okkar. Óskuðum eftir rökstuðningi og kölluðum eftir viðbótar upplýsingum. Gestir okkar stóðu örugglega í þeirri trú að hér væri alvara á ferðum. Og vissulega var tilefnið brýnt. Við vorum að ræða nýja heildarlöggjöf um sjávarútvegsmálin; hvorki meira né minna.
Að fundi loknum hafa gestir nefndarinnar örugglega farið heim í þeirri von og trú að eitthvað mark yrði tekið á málflutningi þeirra. Þeir gætu haft áhrif á gang málsins, eins og hið lýðræðislega fyrirkomulag slíkra funda hefur að tilgangi.
Það vantaði svo sem ekki að fulltrúar stjórnarmeirihlutans hafi gefið slíkt til kynna. Þetta er ekkert skuespil (þýðing mín, leikrit) hóf einn fulltrúa stjórnarmeirihlutans einlægt mál sitt og horfið í augu gestanna, til þess að árétta að hér væri um mikið alvörumál væri að ræða og að viljinn væri einlægur.
Og ofan í allt þetta vorum við í atvinnuveganefndinni lestuð með þverhandarþykkum, vel unnum greinargerðum, sem menn höfðu lagt mikinn kostnað í, enda gerð af miklum metnaði.
Og svo birtust viðbrögð stjórnarmeirihlutans.
Tjöldin voru dregin frá. Og þá kom það í ljós, að allt þetta hafði bara verið eitt risastórt skuespil. Leikrit. Farsi, þar sem í raun og veru var verið að hafa allt þetta góða fólk að háði og spéi.
Ferðirnar suður voru til einskis. Skýrslurnar höfðu verið settar í tætarann. Og rökin sem sett höfðu verið fram af alvöruþunga þess fólks sem við á að búa, höfðu greinilega ekki verið virt viðlits. Breytingartillögurnar voru hvorki fugl né fiskur, nema það sem laut að rekstrarumhverfi smábátaflotans. Þeim málum hefur verið hleypt í uppnám.
Þetta er auðvitað helber dónaskapur og lofar ekki góðu um önnur stór mál sem nú er verið að véla um í þinginu og meðal annars á vettvangi atvinnuveganefndar.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook