18.10.2012 | 17:11
Tillaga Stjórnlagaráðs: Einungis 11 þingmenn af landsbyggðinni
Verði tillögur Stjórnarlagaráðs um breytta kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag, samþykktar mun það ekki hafa í för með sér svo kallað jafnt vægi atkvæða. Það mun hins vegar búa til nýtt ójafnræði af stærðargráðu sem ekki hefur fyrr sést á lýðveldistímanum, auka átök í þjóðfélaginu og skapa óréttlæti gagnvart landsbyggðinni sem verður algjörlega ólíðandi.
Tillögur Stjórnlagaráðs gera ráð fyrir að einungis 11 þingmenn verði kjörnir úr landsbyggðakjördæmum. Þetta er ekki jafnt vægi atkvæða. Þetta er ójafnræði sem ekki hefur sést fyrr á lýðveldistímanum
Ef jafna ætti vægi atkvæða þyrfti að færa sex þingmenn sem nú eru kjörnir úr landsbyggðakjördæmum á höfuðborgarsvæðið. Tillögur Stjórnlagaráðs fela það ekki í sér. Þær tillögur gera ráð fyrir að þingmenn verði 63, en að einvörðungu 11 þeirra kæmu úr landsbyggðakjördæmunum.
Tillögurnar gera ráð fyrir að annars vegar verði 30 þingmenn kjörnir á grundvelli kjördæma, en 33 af landslista.
Miðað við þetta kæmu væntanlega 3 úr Norðvesturkjördæmi, 4 úr Norðausturkjördæmi og 4 úr Suðurkjördæmi. Alls 11 þingmenn. 19 þingmenn kæmu síðan úr kjördæmum af höfuðborgarsvæðinu.
Þetta má sjá af lestri afar athyglisverðrar greinar dr. Þórodds Bjarnasonar prófessors við Háskólanna á Akureyri, eins helsta sérfræðings okkar í byggðamálum, í Fréttablaðinu í gær, sem HÉR má sjá.
Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur hefur komist að sams konar niðurstöðu og var fjallað um hana í útvarpsfréttum í gær.
Samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs á að kjósa meirihluta þingmanna af landslista. Við vitum að í þeim kosningum mun landsbyggðin fara mjög halloka. Þeir sem þar bjóða sig fram munu auðvitað skírskota til sjónarmiða sem eiga fremur upp á pallborðið á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni.
Við sáum þetta í stjórnlagaþingkosningunum
Við sáum líka í stjórnlagaþingsskosningunum hvernig svona fyrirkomulag virkar. Þar voru kjörnir 25 einstaklingar. Tveir komu af landsbyggðinni, eða um 8%, en 23 af höfuðborgarsvæðinu. Þessir tveir komu úr Þingeyjarsýslu og frá Akureyri. Þannig var enginn, alls enginn, kjörinn frá Vesturlandi, enginn af Vestfjörðum, enginn frá Norðurlandi vestra, enginn af Austurlandi, enginn af Suðurlandi og enginn af Suðurnesjunum.
Stjórnlagaráðskosningarnar sýndu okkur hvernig þetta fyrirkomulag virkar. 2 komu af landsbyggðinni 23 af höfuðborgarsvæðinu
Er það þetta sem koma skal? Er þetta það sem menn kalla jafnt vægi atkvæða?
Það er mjög brýnt að menn geri sér grein fyrir þessu. Í spurningunum sem þjóðin á kost á að svara á morgun laugardag, er spurt mjög villandi hvort fólk sé hlynt jöfnu vægi atkvæða. Í raun er engin innistæða fyrir þessari spurningu. Hér er nefnilega verið að vísa í tillögu Stjórnarráðs, sem felur ekki í sér jafnt vægi atkvæða. þvert á móti. Tillögur Stjórnlagaráðs fela í sér ójöfnuð og óréttlæti gagnvart landsbyggðinni, eins og Þóroddur Bjarnason bendir á. Hann segir í grein sinni:
Íþessari tillögu stjórnlagaráðs felst mikil breyting á samsetningu Alþingis umfram jöfnun atkvæðavægis. Horfið yrði frá kerfi þar sem landsbyggðakjördæmin hafa sex þingmenn umfram mannfjölda yfir í kerfi þar sem þingmenn sem sækja umboð sitt til landsbyggðanna yrðu tólf færri en jafnt atkvæðavægi segir til um. Í stað núverandi misvægis á kostnað höfuðborgarsvæðisins kæmi því meira misvægi á kostnað landsbyggðanna.
Þetta ættu menn að hafa í huga, alls staðar að af landinu. Það getur ekki verið vilji íslensku þjóðarinnar að innleiða hér óréttlætiskerfi. Þess vegna verðum við að hafna því að tillögur stjórnlagaráðs séu grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook