Fjórar nýjar greinar um ólík málefni

Nú hef ég sett inn á heimasíðuna mína fjórar greinar sem ég skrifað og fengið birtar í ýmsum fjölmiðlum. Þetta eru greinar um ólík efni.

writing

Í fyrsta lagi er að finna grein um skuldamál heimilanna. Þar er bent á þá staðreynd að skjaldborg heimilanna, varð aldrei að veruleika. Sú skuldalækkun sem heimilin hafa sannarlega notið, stafar að 75% af því að svo kölluð erlend lán voru dæmd ólögleg. Það hafði ekkert með aðgerðir ríkisstjórnarinnar að gera. Aðrar aðgerðir voru ýmist gerðar að frumkvæði lánastofnana, eða með samstarfi þeirra og ríkisvaldsins. Þessi grein heitir Stolnar fjaðrir ríkisstjórnarinar.

Í annan stað skrifaði ég grein um þá ótrúlegu framkomu forystumanna ríkisstjórnarinnar gagnvart sveitarstjórnarmönnum og íbúum á Norðurlandi vestra, sem birtist í því að beiðnum þeirra var ekki ansað. Þeir voru sviknir um fundi og það sem kom frá stjórnvöldum, var eitt stórt núll. Þessir sveitarstjórnarmenn voru að vinna að hagsmunamálum síns landsvæðis, en ríkisstjórnin vildi ekkert við þá tala. Þessi grein heitir Hávær þögn úr stjórnarráðinu.

Þriðja greinin fjallar um fæðingarorlofið og þá forgangsröðun sem þar hefur verið boðuð. Staðreyndirnar eru þessar: Á kjörtímabilinu hafa framlög vegna fæðingarorlofs verið skorin niður um 6 milljarða, sem hefur einkanlega haft þau áhrif að feður hafa ekki farið í fæðingarorlof. Var þó einn tilgangurinn sá að tryggja samvistir barns og beggja foreldra. Núna kortéri fyrir kosningar, er síðan sagt að þessa skerðingu eigi að  afmá og bæta um betur. Lengja fæðingarorlofið um 3 mánuði, sem kostar þrjá milljarða. Nú á sem sagt að bæta í um 130% við fjárveitingar síðasta árs! Og það úr galtómum ríkiskassanum Vandinn er bara sá að þetta á að koma til framkvæmda á næsta kjörtímabili, þegar ríkisstjórnin verður farin frá. Þetta er ávísun inn í framtíðina, á herðar annarra.

Loks skrifa ég grein um það að Alþingi samþykkti - loksins - þingsályktunartillögu frá mér, sem er hugsuð sem valkostur við ESB aðildina. Byggði ég þar á niðurstöðu þverpólitískrar nefndar, sem skilaði áliti 2007 og fól í sér tillögur um aukin áhrif okkar í evrópusamstarfi án þess að ganga í ESB. Því miður hefur lítt verið gert með þessar tillögur, enda stjórnvöld upptekin við að undirbúa ESB umsókn. Sú leið er komin í miklar ógöngur, eins og allir sjá. Þess vegna er brýnt að tefla fram öðrum valkosti, sem tryggir okkur aukin áhrif á grundvelli EES samningsins. Þessi grein heititr einfaldlega Aukin áhrif í evrópusamstarfi.

Þessar greinar má lesa á síðunni minni undir heitinu Greinar/ræður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband