Rétturinn til að nýta eigin fiskistofna

Nálægð í tíma við sjálfstæðisbaráttuna og hugsjónir hennar átti mikinn þátt í því hversu víðtæks stuðnings almennings naut sú ákvörðun ráðamanna árið 1958 að færa fiskiveiðilögsögu Íslendinga út í tólf mílur. „Í mínum huga er enginn vafi á því að fullnaðarsigur Íslendinga í landhelgismálinu er eitthvert mesta afrek okkar á lýðveldistímanum. Útfærsla lögsögunnar gaf okkur nýja möguleika til auðlindanýtingar og var grundvöllur að mestu lífskjarasókn þjóðarinnar,“ segir Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Rétt og slétt fimmtíu ár eru liðin frá því Íslendingar færðu efnahagslögsögu sína úr fjórum mílum í tólf. Landhelgin var síðan færð út  í fimmtíu mílur 1. september 1972 og síðar 200 mílur, sem segja má að innsigluð hafi verið með Oslóarsamkomulaginu 1. júní 1976.

„Ef landhelgismálin eru skoðuð í sögulegu ljósi eru tveir þættir mjög afgerandi. Annars vegar nefni ég nálægðina við sjálfstæðisbaráttuna sem stælti okkur í baráttunni og hins vegar að við bárumst á öldufaldinum þannig að þróun hafréttarmála var okkur hagstæð. Það breytir ekki því að við vorum mjög leiðandi um þessa þróun og sú framsýni sem íslensk stjórnvöld sýndu á árunum eftir heimsstyrjöld er stórmerkileg, að mínum dómi. Það er oft nú á tímum talað um áhrif og áhrifaleysi lítilla þjóða á þróun á alþjóðavettvangi. Afskipti okkar af þróun hafréttarmála er glæsilegt dæmi um mikil áhrif lítillar þjóðar. Sú þróun sem ég er að vísa til, hófst á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina og ég tel að íslenskir stjórnmálamenn hafi jafnan tekið þau skref í landhelgismálum sem voru möguleg í hvert og eitt sinn,“ segir Einar sem á æskuárum sínum í Bolungarvík skynjaði glögglega hve útfærsla landhelginnar skipti útgerð þar miklu. Bátaútgerð og fiskvinnsla vestra hafi fengið svigrúm til vaxtar og viðgangs.

Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokksins var við völd 1944 til 1947. Efling atvinnuveganna meðal annars með skuttogaraútgerð og hraðfrystiiðnaði var meðal helstu stefnumála ríkisstjórnarinnar sem óefað náði miklu árangri. Einar Kristinn Guðfinnsson segir að þegar litið sé til þess sem ríkisstjórn þessi fékk áorkað þá hafi góð og sterk persónuleg milli forystumanna ríkisstjórnarflokkanna, þeirra Ólafs Thors og Einars Olgeirssonar, skipt miklu. 

„Þegar frjáls þjóð, sem nýlega hafði stofnað lýðveldi, fór að byggja upp sína atvinnuvegi var auðvitað nærtækast að beina sjónum að því sem við kunnum best; sjávarútveginum. Því var farið í mikla uppbyggingu togara- og bátaflotans á árunum eftir stríð. Það þarf ekki að útskýra áhuga sjálfstæðismanna á þessari atvinnuvegauppbyggingu, hún leiðir af eðli málsins. En síðan má ekki gleyma því að þrátt fyrir að sósíalistar vildu á þessum tíma – eins og öðrum – mikil pólitísk afskipti í atvinnulífinu, voru í þeirra hópi menn sem höfðu sterk tengsl við atvinnulífið og sömuleiðis þjóðernissinnar. Uppbygging í atvinnumálum var í huga þannig þenkjandi manna einfaldlega liður í því styrkja forsendur Íslands sem sjálfstæðrar þjóðar,” segir Einar.

Sá árangur sem Íslendingar náðu í landhelgismálum segir sjávarútvegsráðherra að hafi verið í samræmi við þróun alþjóðlegra hafréttarmála og auðvitað fyrir tilstilli mikillar baráttu okkar sjálfra. 

„Ég var við nám í Bretlandi um 1980 og heimsótti þá tvisvar sinnum útgerðarbæina við Humberfljótið og raunar kom ég þangað síðar sem útgerðarmaður í Bolungarvík. Í heimsóknum mínum til Hull, Grimsby og fleiri bæja á þessu svæði hitti ég fyrir menn sem höfðu haft lífskomu sína af því að sækja Íslandsmið. Vissulega voru þeir ókátir með lyktir þorskastríðanna. Hins vegar var það svo – eins og ég upplifði málið – að neikvæðar raddir manna á þessum svæðum beindust frekar gegn breskum stjórnvöldum en íslenskum. Bretarnir sögðu skilja vel stöðu Íslendinga sem hefðu verið að berjast fyrir lífsafkomu sinni og hagsmunum. Þeim gramdist hins vegar skilningsleysi sinna eigin forystumanna í landhelgismálum og eins í því sem snéri að starfsumhverfi bresks sjávarútvegs sem veikti stöðu greinarinnar.“

Stundum hefur verið sagt að þorskastríðin þrjú og árangur Íslendinga í landhelgismálum sé gleymdur. Fljótt hafi fennt í sporin. En er það svo? „Almennt sagt finnst mér aldrei nóg að gert, við að vekja athygli á afrekum þeirra sem undan okkur hafa gengið í sjávarútvegsmálum,“ segir Einar sem telur yfirráð Íslendinga yfir hinni víðfeðmu fiskveiðilögsögu hafa skapað þjóðinni mikla möguleika. 

„Ef við hefðum ekki haft 200 mílna lögsögu værum við Íslendingar ekki að stunda þann sjávarútveg sem við gerum í dag og lífskjör okkar væru allt önnur. Það er ekki síst með skírskotun til þessa sem ég og margir aðrir eru mjög á varðbergi þegar menn fara að ræða um sameiginlega nýtingu auðlindarinnar innan vébanda stórra ríkjasambanda eins og ESB. Ég er líka gríðarlega íhaldssamur þegar kemur að umræðu um að breyta lögum og reglum viðvíkjandi því að opna fyrir aðgengi útlendinga til fjárfestinga í íslenskum sjávarútvegi. Mér finnst að okkur sem þekkjum til fortíðarinnar og erum nú starfandi í sjávarútveginum, með einhverjum hætti, beri skylda til að halda á lofti þeim sjónarmiðum sem forverar börðust fyrir – og góð reynsla hefur fengist af. Þar eru yfirráðin yfir lögsögunni auðvitað algjört úrslitamál“

Ætíð hafa þjóðir þurft að berjast fyrir hagsmunum sínum hvað sem svo hangir á spýtunni. Að tryggja rétt, stöðu og búa í haginn fyrir framtíðina er eilífðarverkefni, bæði af hálfu Íslendinga og annara. Einar Kristinn segir þó erfitt að líkja viðfangsefnum dagsins í dag við þorskastríðin eða nota það orð um viðfangsefni dagsins.

„Í þorskastríðunum börðumst við Íslendingar fyrir þeim rétti að nýta okkar eigin fiskistofna.  200 mílna efnahagslögsaga okkar er mikil gullkista og með yfirráðum yfir henni tókumst við mikla ábyrgð á herðar. Auðlindinni verðum við að skila til komandi kynslóða ekki lakari og helst betri en hún er í dag. Það viðfangsefni er ef til vill þorskastríð dagsins í dag, enda þó við eigum að fara mjög sparlega með orðið, svo ekki falli skuggi á dáðir þeirra manna sem unnu svo mikil afrek á sínum tíma. Vissulega hefur okkur gengið misjafnlega að byggja fiskistofnana okkar upp – stundum miður en í öðrum tilvikum prýðilega og þar má nefna ýmis dæmi, svo sem síld eða ýsu. Sá árangur sem við höfum þó náð hefði aldrei fengist ef við hefðum deilt miðunum við landið með öðrum þjóðum. Þannig sjáum við í raun best hversu miklu máli útfærsla landhelginnar skipti og hefur átt mikinn þátt í velsæld þjóðarinnar síðustu áratugi.“

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband