Tilskipanaríkisstjórnin kynnir verklagið sitt

StjórnarráðiðEinu sinni var stjórnmálaflokkur sem sagði að árangursríkast væri að stjórnmál byggðust á samræðum en ekki átökum. Þess vegna ætti að leita lausna á grundvelli pólitískra umræðna, en ekki tilskipana. Þessi flokkur hét Samfylking.

Svo var það annar flokkur sem lagði líka í umræðum, áherslu á mikilvægi þess að menn ættu þess kost að ræða málin, undirbúa þau vel og gefa sem flestum kost á aðkomu við undirbúning mála. Þessi flokkur hélt upp á tíu ára afmæli sitt nú um helgina og heitir Vinstrihreyfingin grænt framboð.

Nú vitum við að það var ekki orð að marka þetta. Þessir flokkar eru í ríkisstjórn - í minnihlutaríkisstjórn - og hafa ekkert gert með fyrirheit sín, en stjórna þess í stað í tilskipana og "vér-einir-ráðum" stíl.

Tökum tvö dæmi.

Þegar lögum um Seðlabanka hefur verið breytt, að minnsta kosti í veigamiklum atriðum, þá hefur jafnan verið leitast við að skapa um það góða sátt. Þannig var það síðast til dæmis og þau lög sem þá voru sett, byggðust á starfi þverpólitískrar nefndar. Það var tvímælalaust til góðs.

Nú er hins vegar öldin önnur. Nú er illa unnið frumvarp lagt fram, án nokkurs samráðs, enda er tilgangur þess fyrst og fremst pólitískt sjónarspil. Og það sem verra er. Forsætisráðherrann hefur í hótunum um að þetta þingmál eigi að afgreiðast hratt, svo að samráðið verði sem minnst á vettvangi þingsins.

Hitt er þó jafnvel ennþá verra að nú á sýnilega að hafa sömu háttu varðandi mögulegar breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum. Slíkar breytingar hafa ævinlega haft góðan fyrirvara, þær hafa ævinlega verið undirbúnar af þverpólitískri nefnd, með tilstyrk sérfræðinga og þær hafa ævinlega byggst á pólitískri niðurstöðu í bærilegri sátt.

En ekki núna.

Nú skal hafa sama háttinn á og er orðið aðalsmerki þessarar nýju tilskipana-ríkisstjórnar. Engin tilraun til þverpólitískrar sáttar, engin aðkoma stjórnmálaflokkanna. Undirbúningurinn á að fara fram í hópi þriggja sérfræðinga, algjörlega án aðkomu annarra en þeirra sem ríkisstjórninni stýra.

Þetta er ótrúleg óskammfeilni, en sem er þó að verða daglegt brauð í minnihlutastjórninni.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband