Aðgöngumiðinn að ríkisstjórnarborðinu

ESBÞingskjal 38, og 38. mál, er ekki einasta hefðbundið þingmál, í þeim skilningi, heldur ekki síður aðgöngumiði; aðgöngumiði að ríkisstjórnarsamstarfinu. Þetta þingskjal er gjaldið sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs reiddu fram til þess að fá sæti við ríkisstjórnarboðrið. Án þessa gjalds hefði núverandi ríkisstjórn einfaldlega ekki verið mynduð og einhver önnur ríkisstjórn verið mynduð.

Ég vakti athygli á þessu í umræðum um tillöguna sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flytur og enginn veit hvort nýtur fylgis í samstarfsflokknum, VG. Það er eitt best varðveitta leyndarmál Alþingis um þessar mundir. Leyndarhyggja í sinni tærustu mynd.

Tvennt skal hér rifjað upp.

Hið fyrra er þetta. Rétt undir lok kosningabaráttunnar herti Samfylkingin róðurinn mjög í átt að ESB aðild. Þingmenn, frambjóðendur og ýmsir þungaviktarmenn settu hreinlega fram úrslitakosti. Annað hvort sækjum við um aðild að ESB eða við verðum ekki með. Svo einfalt er það.

VG lét undan. Vegna þess að þá langaði svo heitt að ríkisstjórnarborðinu með Samfylkingunni var allt annað lagt í sölurnar.

Þetta eru auðvitað mikil tíðindi. VG menn hafa hingað til verið eindrægnir andstæðingar aðildar að ESB. Þegar við sátum fulltrúar allra stjórnmálaflokka í nefnd um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og skiluðum áliti rétt fyrir kosningar 2007, þá gengu fulltrúar VG lengst. Þeir voru ekki bara gagnrýnir á ESB, heldur vildu þróa sjálfan EES samninginn frá því sem hann er í átt að tvíhliða viðskiptasamningi. Undir þetta rituðu Ragnar Arnalds fyrrv. ráðherra og þingmaður og Katrín Jakobsdóttir varaformaður flokksins.

Nú hefur flokkurinn kúvent gjörsamlega og siglir núna tveimur árum síðar í þveröfuga átt.

Nú skilur maður hvað Steingrímur J. meinti þegar hann sagði fyrir kosningar að um allt mætti semja í ESB málum. Þegar við vöktum athygli á þessu í kosningabaráttunni varð hann alveg vitlaus. Það var auðvitað vegna þess að hann var búinn að ákveða að varpa sinni gömlu stefnu fyrir róða og ganga í félag Samfylkingunni. Það er núna komið í ljós.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband