Færsluflokkur: Pistlar

Lifandi dauð

"Gagnvart öllu þessu stendur ríkisstjórnin sem brothætt skel; utan um ekki neitt. Lífsneistinn hefur slokknað og hún veit að erindi hennar við þjóðina er á þrotum. Hún lifir og er örugglega ekki á förum. En hún er þarna í fullkominni erindisleysu, barin áfram undir hótunum forsætisráðherrans, lífsgleðin horfin og hugsjónaneistinn slökknaður." Þannig er komist að orði í pistlinum sem hér fer á eftir þar sem farið er yfir stöðu ríkisstjórnarinnar eftir að einn hennar öflugasti liðsmaður, Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra,  yfirgaf ríkisstjórnina....

Afstaða okkar til Icesavemálsins

Kjarni málsins er þá þessi. Ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi kolómögulegt mál sem langflestir þingmenn stjórnarliðsins voru þó tilbúnir að samþykkja umyrðalaust. Stjórnarandstaðan og uppreisnarmenn úr VG tóku hins vegar völdin og breyttu málinu til betri vegar; við afstýrðum í raun stórslysi. Eftir stendur hins vegar afleitur samningur sem ríkisstjórnin ein getur borið ábyrgð á. Vandamálið sem við var að glíma var ekki bara Icesavemálið sjálft, heldur ekki síður samningurinn sjálfur, sem er ljóst að var algjört klúður. Ábyrgðinni á því klúðri getur ríkisstjórnin ekki vísað á neina aðra. Ríkisstjórnin ber sjálf ábyrgð á því klúðri sínu, skuldlaust og án nokkurs vafa. Niðurstaða okkar sjáflstæðismanna að sitja hjá var því við þessar aðstæður rökrétt...

Sögulegar kosningar að baki

Hvernig sem á málin er litið voru nýliðnar kosningar sögulegar. Vinstri sveiflan er sú mesta sem við höfum séð. Sjálfstæðisflokkurinn beið sinn mesta kosningaósigur. Einn stjórnmálaflokkur þurrkaðist út og annar kom fjórum mönnum á þing. Þetta er kjarni þess máls sem fjallað verður um í þessum pistli. Farið verður yfir helstu drætti kosningaúrslitanna, annars vegar á landsvísu og síðan sérstaklega í Norðvesturkjördæmi. Loks er athyglinni beint að þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem standa nú yfir og það fyllyrt að þær leiði til stjórnarsamstarfs...

Við getum unnið okkur út úr vandanum

Efnahagsmál, hvalveiðimál og staðan í stjórnmálunum eru meðal þess sem farið er yfir í örstuttu máli, í þessari grein, sem byggir að all nokkru á umræðunum um stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram fór í gær, 4. febrúar. Lokaorð þessa pistils eru eftirfarandi: Við erum sannarlega í miklum vanda stödd. En við erum kraftmikil þjóð, með sterka innviði og höfum alla burði til að vinna okkur út úr þessum vanda. Þar munu þeir hins vegar valda, sem á halda. Þess vegna ríður á að vanda vel til verks. Ekki ganga fram með misvísandi skilaboð og kæruleysislegum útspilum sem rýra tekjumöguleika okkar og dýpka kreppuna. Við þurfum að hefja okkur upp yfir stundarríginn og sameinast um öfluga framfarasókn í þágu þjóðarinnar....

Við höfum tekið markvisst á málum

Núna kallar stjórnarandstaðan eftir því að þing verði rofið og efnt til kosninga sem fyrst á nýju ári. Þetta er fráleit krafa sem ekki mun þjóna hagsmunum þjóðarinnar. Öðru nær. Nú ríður þvert á móti á að við höldum áfram þeirri markvissu vinnu sem komin er áleiðis við að róa þjóðarskútunni úr brimskaflinum og á kyrrari sjó. Sú markvissa vinna sem ríkisstjórnin hefur haft frumkvæði að og stjórnarandstaðan hefur í mörgum tilvikum komið að hér á vettvangi þingsins, sýnir að við erum á réttri leið, þó að við vitum öll að mikið verkefni er eftir. Það er einmitt þess vegna sem það er óskynsamlegt að bæta pólitískri óvissu ofan á efnahagsleg vandræði. Þegar búið er að setja strikið og við vitum hvert við viljum stefna, er ekki mikil glóra í því að stökkva frá stýrinu og láta kylfu ráða kasti, eins og tillaga stjórnarandstöðunnar felur í sér. Þannig komst ég að orði í ræðu sem ég flutti í gær, mánudaginn 24. nóvember í umræðum um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar. Hér á eftir fylgir ræða mín og nokkur viðbót, þar sem ég geri öllu nánar fyrir aðdraganda fjármálakreppunnar og þeim tækifærum sem við höfum til uppbyggingar í atvinnulífinu og lúta sérstaklega að sprota og nýsköpunarstarfsemi....

Rétturinn til að nýta eigin fiskistofna

„Í þorskastríðunum börðumst við Íslendingar fyrir þeim rétti að nýta okkar eigin fiskistofna. 200 mílna efnahagslögsaga okkar er mikil gullkista og með yfirráðum yfir henni tókumst við mikla ábyrgð á herðar. Auðlindinni verðum við að skila til komandi kynslóða ekki lakari og helst betri en hún er í dag. Það viðfangsefni er ef til vill þorskastríð dagsins í dag, enda þó við eigum að fara mjög sparlega með orðið, svo ekki falli skuggi á dáðir þeirra manna sem unnu svo mikil afrek á sínum tíma. Vissulega hefur okkur gengið misjafnlega að byggja fiskistofnana okkar upp – stundum miður en í öðrum tilvikum prýðilega og þar má nefna ýmis dæmi, svo sem síld eða ýsu. Sá árangur sem við höfum þó náð hefði aldrei fengist ef við hefðum deilt miðunum við landið með öðrum þjóðum. Þannig sjáum við í raun best hversu miklu máli útfærsla landhelginnar skipti og hefur átt mikinn þátt í velsæld þjóðarinnar síðustu áratugi.“ Þannig kemst ég að orði í viðtali sem Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður tók við mig og birtist í blaði sem helgað var 12 mílna útfærslunni. Blaðinu var dreift með Morgunblaðinu....

Í því hefur happ okkar falist

Sjómannadagurinn er dagur þar sem við lítum bæði um öxl og horfum framávið. Sannarlega höfum við glímt við erfiðleika en sjávarútvegurinn hefur sýnt það nú frekar en nokkru sinni áður hve mikil aðlögunarhæfni hans er og hve fært fólk stýrir atvinnugreininni. Í því hefur happ okkar verið fólgið. Framundan eru sem fyrr mikil tækifæri í sjávarútveginum. Þau felast í aukinni þekkingu og aukinni sjálfvirkni í framleiðslu, veiðum og markaðssetningu. Þetta eru hlutir sem leggja okkur nýjar skyldur á herðar og viðfangsefni er lúta að byggðamálum. Þannig er sjávarútvegurinn sem fyrr síkvik, öflug atvinnugrein sem er gaman að vera þátttakandi í og verður sem fyrr burðarásinn í atvinnulífi okkar til lengri og skemmri tíma. Þannig er komist að orði í meðfylgjandi pistli í sjómannadagsblaði Vesturlands sem sjálfstæðismenn á Vestfjörðum gefa út. Fjallað eru um fiskveiðiráðgjöfina og afleiðingar hennar, þorskeldi og stöðu íslensks sjávarútvegs á alþjóðavettvangi og það góða álit sem hann nýtur....

Mótsagnakenndar tillögur

Það er augljós mótsögn í því að leggja til lægri vexti , en hvetja síðan til skattalegra aðgerða af ríkisins hálfu til þess að stuðla að sparnaði. Kröfur og tillögur af þessu tagi hafa þó komið upp, nú síðustu daga og vikur. Það sem blasir hins vegar við er að vextir hljóta að fara lækkandi. Framundan er minni framleiðsluspenna. Við sjáum fyrir endann á stórum fjárfestingarverkefnum. Menn telja einsýnt að draga muni úr íbúðafjárfestingum. Fjármagnsskortur á erlendum mörkuðum hefur þegar haft áhrif hér á landi og þau áhrif eiga eftir að koma betur fram. Niðurskurður aflaheimilda dregur einnig úr eftirspurn hér á landi. Þetta og fleira bendir allt á lækkandi vexti á þessu ári. Þá mun lækkandi gengi krónunnar augljóslega hækka innflutningsverð og hlýtur því að stuðla að meiri viðskiptajöfnuði og minni innflutningi. Þannig er efnahagslífið að leita jafnvægis....

Notum nú rök Seðlabankans

Megin réttlæting hárra stýrivaxta Seðlabankans er hátt verðbólgustig, sem einkum hefur stafað af eignabólu á húsnæðismarkaði. Nú heyrast fréttir af minni umsvifum á þessum sviðum, sem og þeirri eignarýrnun sem við höfum orðið vitni að. Það er þekkt - og Seðlabankinn hefur á það minnt - að eignaverðshækkanir, sama hvaða nafni sem þær nefnast, feli í sér fóður fyrir verðbólgu framtíðarinnar. Þess vegna beri að hafa eignaverð og þróun þess inni í vísitöluviðmiðun þegar Seðlabankinn skoðar verðbólgumarkmiðin sín. Það hefur verið helsta réttlæting þess að menn hafa skoðað okkar eigin verðbólguviðmiðun, en ekki þær verðbólgutölur okkar sem mælast á kvarðana sem til að mynda Evrópusambandið notar. Með nákvæmlega sama hætti má því ætla að nú þegar eignir rýrna í stað þess að bólgna út þá hafi það þau áhrif að verðbólga framtíðarinnar minnki. Ef við notum því þau rök Seðlabankans sem hefur verið helsta réttlæting hárra stýrivaxta ætti það að leiða til lækkunar þeirra núna. Annað væri algjörlega órökrétt....

Ár áfalla og átaka

Árið 2008 verður tímabil breytinga og tækifæra. Á starfsvettvangi mínum blasir við mikil uppstokkun vegna skipulagsbreytinga sem þar eru að verða. Það er spennandi viðfangsefni. Við munum glíma við margvíslega örðugleika vegna minni þorskafla, en einnig sjá ný tækifæri verða til. Sjálfur er ég sannfærður um að við vinnum okkur út úr erfiðleiknum. Við höfum aldrei verið í betri færum til þess og eigum að hafa það umfram allt í huga að í breytingum felast tækifæri sem við eigum að vinna úr. Þess vegna eigum við horfa bjartsýn til framtíðar. Þetta eru hluti af lokaorðum á pistli sem ég skrifaði í BB á Ísafirði að beiðni blaðsins. Var ég þar beðinn um að rifja upp minnisstæðustu atburði ársins 2007, bæði sem snertu mig persónulega, atburði innanlands og utan og hverjar væru væntingar til nýs árs. Svarið, sem birtist í nýjasta tölublaði BB getur hér að líta. Aðrir sem rituðu í blaðið af sama tilefni voru Finnbogi Hermannsson sem nýverið hefur látið af störfum sem yfirmaður Svæðisútvarps Vestfjarða, Gunnar Þórðarson verkefnastjóri Þróunarsamvinnustofnunar í Sri Lanka og fyrrverandi útibússtjóri Fiskistofu á Ísafirði og kunnur bloggari, Bergljót Halldórsdóttir kennari á Ísafirði, Guðjón A. Kristjánsson alþingismaður og formaður Frjálslynda flokksins og Anna G. Edvardsdóttir í Bolungarvík formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga....

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband