Þeir eiga þakkir skildar

  

 

Þeir Óðinn Sigþórsson, Skafti Harðarson og Þorgrímur S. Þorgrímsson sem kærðu stjórnlagaþingskosninguna eiga þakkir skildar. Hefði atbeini þeirra ekki komið til, sætum við uppi með Stjórnlagaþing sem hefði verið kjörið í bága við lög og reglur. Það hefði verið ömurleg fyrsta ganga fyrir stofnun sem ætlað er að setja lýðveldinu Íslandi nýja stjórnarskrá.

Fyrirfram hefði ég ekki ætlað nokkrum stjórnlagaþingmanni það að vilja sitja Stjórnlagaþing og hafa verið til þess kosinn í blóra við lög og reglur. Svo fáránlegt virðist sú tilhugsun ein.

En lengi má manninn reyna. Einn stjórnlagaþingmaður, Illugi Jökulsson, kýs að skattyrðast út í þremenningana og gerir þá að blórabögglum fyrir kosningaklúðrið. Þetta getur ekki hafa verið raunveruleg meining hans. Þetta hljóta bara að hafa verið fyrstu viðbrögð, sem hann sér nú eftir. Hann getur örugglega ekki hugsað sér, frekar en nokkur annar, að sitja á Stjórnlagaþingi í krafti kosninga sem voru ógildar.  Þess er því að vænta að hann muni draga þessi ummæli sín til baka og biðja þá Óðinn, Skafta og Þorgrím velvirðingar.

Það þarf ekki að nefna Hallgrím Helgason, sem hefur með rætni sótt að þeim þremur einstaklingum sem kærðu. Hver tekur mark á honum núorðið?

Fyrir þá þrjá einstaklinga sem kærðu hefði það vitaskuld verið þægilegast að hafast ekki að. Þó þeim hefði þótt sitthvað athugavert við kosninguna, hefðu þeir einfaldlega getað látið gott heita og ekki gert neitt í málinu. En það gerðu þeir ekki og mega nú sitja undir skömmum fyrir vikið. Er það allt í einu orðið aðfinnsluvert að menn vilji að framkvæmd kosninga standist lög og reglur?

En Pawel Bartoszek, einn þeirra sem kjörinn var á Stjórnlagaþingið orðar vel kjarna þessa máls í Morgunblaðinu í dag. Hann segir:

„Við búum í réttarríki og mér sýnist að allir dómarar séu sammála um þessa niðurstöðu og að það má segja að það hlýtur að vera betra að búa í ríki þar sem dómarar fá þó að komast að þeirri niðurstöðu að kosningar séu ógildar, heldur en að búa í ríki þar sem það gerist aldrei.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband