Ríkisstjórnin kýs átök

 

Við þekkjum það að mál ríkisstjórnar hafa forgang á Alþingi hverju sinni. Í þeim á að endurspeglast hinn pólitíski meirihluti sem á Alþingi er hverju sinni. Stjórnarandstaðan á hverjum tíma hefur viðurkennt þetta og svo er enn, þó hún kunni að vera efnislega andvígmálunum sem frá ríkisstjórninni koma.

Vinnubrögð á Alþingi?

En til þess að lýðræðið sé virkt, þurfa mál að koma fram í björgulegum búningi og á skaplegum tíma. Þá er  ekki verið að vitna til hinnar pólitísku stefnumótunar sem birtist í þeim.  Á þetta hefur mjög skort.

Glöggt og nýlegt dæmi er málatilbúnaðurinn í kring um stjórnlagaþingstillögurnar. Þar sáum við slík fúsk vinnubrögð, að hrollvekjandi hlýtur að teljast, í ljósi þess að við erum þar að fást við sjálfa stjórnarskrána okkar. Stjórnarmeirihlutinn hugðist leggja spurningar um stjórnarlagaráðstillögurnar fyrir þjóðina. Þær voru svo illa úr garði gerðar að allt kunnáttufólk taldi þær gjörsamlega óbrúklegar. Fyrsta árs nemi í aðferðarfræði í menntaskóla hefði verið felldur fyrir svona bögutexta, hefði hann litið dagsins ljós í prófúrlausnum.

Og ekki nóg með þetta. Heilu þingnefndirnar voru hálf verklausar ( svo sem atvinnumálanefndin)  lungann af vetrinum. Svo daginn fyrir lokafrest var málum hrúgað inn í belg og biðu, þannig að  allar hirslur yfirfylltust !

Kemur svo ekki blessaður forsætisráðherrann og segir að allt þetta og meira til ætti að klára og afgreiða eins og við ynnum við lagasetningu í uppmælingu. Það er eins og breyta eigi Alþingi úr lýðræðislegum vettvangi í einhvers konar hraðsuðuketil, eða færibandavinnu og að þingmenn verði nýtt afbrigði af uppmælingaraðli.

Þetta minnir helst á hina ágætu og sígildu mynd Chaplins Modern times, eða Nútímann, sem var ógleymanleg lýsing á færibandavinnu samtímans.

Það eru þessi vinnubrögð sem kalla fram átökin, sem nú setja svo mjög mark sitt á þingstörfin og hafa verið gagnrýnd. Frá þessum vinnubrögðum verðum við að hverfa.

Það er hins vegar ekki ætlun stjórnarflokkanna. Átökin eru orðin sjálfstætt markmið ríkisstjórnarinnar. Hún virðist kjósa átakastjórnmálin og jafnvel átök um mál sem hægt er að vinna í skaplegri sátt. Þetta sjáum við á því að ríkisstjórnin lagði fram 54 þingmál á síðasta degi sem slíkt er heimild án afbrigða. Það sama gerðist í fyrra og einnig í hitteðfyrra.

Þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru þess vegna dæmigerð; stefna hennar. Hún kýs átökin og reynir allt sem hún getur til þess að kalla þau fram. Ríkisstjórnin er þess vegna vandamálið, alveg bókstaflega talið og holdgervingur þess.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband