Hvað ætli yrði gert við svona sveitarstjóra?

 

Hvað ætli myndi henda einn sveitarstjóra ef hann legði af stað með tillögu um að útsvarið yrði á næsta ári 10%, en útreikningar sýndu svo að um 20% útsvar yrði að ræða? Það væri gaman að velta því fyrir sér.

Flotinn í höfn í Bolungarvík

Fyrstu viðbrögðin yrðu örugglega undrun alls almennings og félaga viðkomandi í sveitarstjórninni. Svo yrði kannski dálítill kjánahlátur og síðan myndu menn örugglega velta því fyrir sér hvort hann væri örugglega rétti maðurinn í djobbið. Væri svo sveitarstjórinn kjörinn fulltrúi, er ekki líklegt að hann yrði talinn líklegur til árangurs í framtíðinni sem sveitarstjórnarmaður.

Setjum þetta svo í annað samhengi. Segjum að ekki væri um að ræða sveitarstjóra. Gefum okkur að þetta væri fjármálaráðherra, sem kynnti tekjufrumvarp á Alþingi og segði okkur að skattlagningarprósentan væri 40%, en svo kæmi í ljós að hún væri helmingi hærri. Svona um 80%. Ætli viðbrögðin yrðu ekki eitthvað svipuð og í tilviki sveitarstjórans.

Svo ekki sé nú talað um ef tölurnar væru ennþá glannalegri. Að við værum að tala um skatta sem væru svona 40% hærri, en gjaldstofninn sem skattaprósentan væri reiknuð af. Svona til dæmis 140%.

Það vita allir svarið.

En nú eru svona hlutir nákvæmlega að gerast. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp um veiðigjöld í sjávarútvegi. Veiðigjöld eru samt ekki réttnefni, þó frumvarpið beri þetta heiti. Þetta er skattur. Sértækur veiðiskattur.

Þessi veiðiskattur átti að nema um 70% af því sem menn kalla í skjalinu rentu. Nú er það að vísu svo að þeir sem gleggst þekkja til, svo sem hinn þekkti hagfræðingur á sviði auðlindahagfræði Ragnar Árnason, sem segja að þetta sé ekki réttnefni. Þetta komist hvergi nærri því að geta kallast skattur á rentu. Þetta sé nær því að vera veltuskattur.

Sjá HÉR á bls. 2

Og síðan koma til skjalanna tveir valinkunnir fræðimenn á þessu sviði, sem atvinnuveganefnd kallaði eftir sér til ráðgjafar, og segja að allir útreikningarnir séu á svo vitlausum forsendum reistir. Þeir þýði ekki skattlagningu upp á 70%, heldur 140% !  Afleiðingin sé síðan að stór hluti útgerðanna ráði ekki við þetta og fari í gjaldþrot.

Sjá skýrslu Daða Más Kristóferssonar og Stefáns Gunnlaugssonar, HÉR á bls 27

Og hvað segir þá ráðherrann? – Jú þetta voru tæknileg mistök!! Það er nefnilega það.

En látum í góðsemi okkar ráðherrann njóta vafans. Þetta voru tæknileg mistök; en bara mistök upp á svona 100%.

En þá er bara það eftir að leiðrétta mistökin. Ekki með einhverjum skilyrðum, eins og tveir þingmanna stjórnarflokkanna sögðu í Morgunblaðinu  í gær. Heldur skilyrðislaust. Og eftir það getum við svo farið að leiðrétta annað dellumakerí, sem er mýgrútur af í veiðiskattsfrumvarpinu og frumvarpinu um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband