Verða Indriði og Svavar settir til verka?

Hvernig dettur umboðslausri ríkisstjórninnni, sem rúin er öllu trausti, í hug að véla með einhverja mestu hagsmuni okkar, rétt áður en hún tekur sitt síðasta andvarp? Hvernig hvarflar það að ríkisstjórninni að hún hafi eitthvað traust til þess að ganga frá sölu bankanna, eða nauðsamningum  við þrotabú föllnu bankanna, sem lið í því að losa um snjóhengjuna svo kölluðu?

bigstock_Falling_Money_669153 Hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að nokkur maður treysti henni til þess að vinna að skuldauppgjöri gömlu bankanna, eða hefur hún eitthvað umboð til þess að fara að selja nýju bankana?

Þetta er auðvitað ekkert annað en reginhneyksli og ríkisstjórnin hefur ekki leyfi til þess að halda áfram með þetta mál.  Eignarhald bankanna, uppgjör við kröfuhafana,  skuldastaða þjóðarbúsins og afnám gjaldeyrishaftanna er  allt samtvinnað. Þetta heildarsamhengi verða menn að hafa í huga. Ákvarðanir að einu leyti í þessu máli, sem teknar eru í óðagoti, geta þess vegna stórskaðað heildarhagsmuni okkar og haft gríðarleg áhrif á stöðu okkar og möguleika á næstu mörgum árum.

Núverandi ríkisstjórn er minnihlutastjórn. Hún er í rauninni þegar grannt er skoðað nánast eins og starfsstjórn og við þessar aðstæður getur hún ekki leyft sér að vinna áfram að þessu máli. Hennar þætti í málinu er einfaldlega lokið.

Sporin hræða. Ríkisstjórninni er ekki treystandi til þess að standa vörð um hagsmuni okkar í máli af þessu tagi. Við munum öll Icesave og framgöngu ríkisstjórnarinnar  í því máli. Þá eins og nú var pukrast með málið. Miðvikudaginn 3. júní 2009  sagði fjármálaráðherra á Alþingi  að engar formlegar viðræður væru að eiga sér stað, ekki yrði gengið frá samningum næstu dagana og að Alþingi yrði haldið upplýstu með stöðuna. Föstudaginn 5. júní voru íslenskir samningamenn mættir til landsins með fullbúinn og undirritaðan samning.

Það liggur fyrir að ríkisstjórnin blekkti þjóðina og þingið. Þeir sem hafa hegðað sér þannig eru einfaldlega ekki traustsins verðir til þess að vinna að þessu máli núna.

Hverja á eiginlega að senda til þessara viðræðna núna? Kannski Svavar Gestsson eða Indriða H. Þorláksson?

Meginverkefnið er að í komandi nauðasamningum göngum við Íslendingar sameinaðir til verka undir traustri forystu. Trausti rúin ríkisstjórn, á síðustu starfsdögum sínum, er ekki í neinum færum til slíks við þannig aðstæður. Það  þarf öfluga pólitíska forystu og mikla samstöðu til þess að leiða svona vandasamt mál til lykta, svo bragur sé að fyrir okkur Íslendinga.

Kröfuhafarnir verða ekki nein lömb að leika sér að. Vogunarsjóðir og slíkir aðilar munu sækja sitt mál af miklu kappi. Í húfi geta verið hundruðir milljarðar, að mati þeirra sem vel þekkja til.

Ríkisstjórnarflokkar, sem eru innbyrðis klofnir þvers og kruss, geta ekki leitt slíkar viðræður af hálfu okkar Íslendinga.  Ríkisstjórnin verður að láta af tilburðum sínum. Hún hefur ekki traust þjóðarinnar til þess að halda þeim áfram.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband