Það þarf samstöðu um verkefnin framundan


Nú er flestum orðið ljóst að ríkisstjórninni mistókst í meginatriðum ætlunarverk sitt. Í stað þess að glíma viðaðsteðjandi vanda og reyna að skapa breiða sátt um verkefni sín, var  áhersla lögð á átök, sem báru stjórnvöld af leið. Þetta var ekki  óafvitandi. Þvert á móti. Ríkisstjórnin leit á það sem verkefni sitt,að jafna um pólitíska andstæðinga, hefna, gera grundvallarbreytingar á mikilvægum sviðum og vinna hugmyndafræðilegra sigra.

samstada Það þarf samstöðu um mikilvæg mál. Kallað er eftir því í þjóðfélaginu. En eru stjórnmálaflokkarnir tilbúnir til slíks?

Flest þau mál, sem ríkisstjórnin flutti af þessum toga voru illa undirbúin og vanhugsuð. Stjórnarskráin var auðvitað stærsta málið.. En sama átti við um sjávarútvegsmálin, vernd og nýtingu  náttúruauðlinda og skattabreytingar. Þá má nefna stanslausarr breytingar á skipan stjórnarráðsins, sem stóðu yfir allt kjörtímabilið. Enn má nefna til sögunnar aðildarumsóknina að ESB. Og síðast en ekki síst samskiptin við stjórnarandstöðu og aðila úti í samfélaginu.  Framansagt eru bara nokkur – en vissulega stór – dæmi um vinnubrögðin.

Liðið kjörtímabil einkenndist fyrir vikið af miklum átökum.  Þau átök voru alls ekki óumflýjanleg. En þau  urðu vegna þeirra vinnubragða sem voru innleidd í meiri mæli á þessu kjörtímabili, en nokkur dæmi eru um.

Það blasti til dæmis við öllum að þegar mál af framangreindum toga, voru keyrð inn í þingið án samráðs og án minnstu tilraunar til þess að skapa um þau skilning eða samstöðu, þá var ekki von á öðru en að átök hlytust af.

Þetta voru ekki bara hefðbundin átök stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta voru bókstaflega átök við allt og alla. Þetta voru átök við alla þá sem við áttu að búa í sjávarútvegsmálunum. Þetta urðu átök við launþegahreyfinguna og atvinnurekendur. Þetta urðu átök við fræðasamfélagið á ótrúlegustu sviðum. Þetta urðu síðan að lokum átök við þjóðina.

Á nýju kjörtímabili þurfum við að kveðja svona vinnubrögð. Verkefnin framundan eru risavaxin og kalla á samstöðu. Mál þarf að undirbúa vel og vandlega. Leita þarf samstöðu eftir því sem framast er unnt. Það þarf að efla skilning á viðfangsefnunum, jafnt á stjórnmálasviðinu, hjá hagsmunaaðilum og þjóðinni allri; og undirbúa mál með vandlegum hætti.

Þetta þarf ekki bara að gera til þess að byggja upp traust á Alþingi og stjórnvöldum. Þetta er nauðsynlegt til þess að árangur náist. Við erum þjóðfélag í miklum vanda. Ríkisfjármálin eru öll í skötulíki. Dulinn vandi, sem hefur verið falinn með margvíslegum hætti, mun koma upp á yfirborðið. Stórskuldug heimili eru í gríðarlegum vanda. Þjóðfélagið er í fullkominni kyrrstöðu og ef fram heldur sem horfir verður hér enginn lífskjarabati, ríkissjóður mun ekki ráða við verkefnin sín, atvinnusköpun svo bágborin að fólk mun flýja úr landi og flykkjast inn á atvinnuleysisskrárnar. Þarna blasa við gríðarleg verkefni, óumflýjanleg verkefni, sem við verðum að taka á.

Við vinnum ekki á þessu nema með samstöðu. Fyrir liggur ákall um slíkt víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Munu vinstri flokkarnir, sem að hluta til koma særðir, bláir og marðir út úr kosningunum, treysta sér til slíkra verka?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband