Komandi kynslóðum verði menningararfurinn ljós

Kæra kollega Stortingpresident Olemic Thommessen, fyrrverandi forseti frú Vigdís Finnbogadóttir, Ambassadör Dag Wernö Holter og aðrir góðir gestir.

Ég vil byrja á að fagna því frumkvæði sem skipuleggjendur þessa viðburðar höfðu að Sturluhátið í minningu 800 ára fæðingarafmælis sagnaritarans Sturlu Þórðarsonar hins merka lögsögumanns og rithöfundar.

Þá ber að fagna sérstaklega að Vigdís Finnbogadóttir er með okkur í dag, sem og að norskur starfsbróðir minn, Olemic Thommessen forseti Stórþingsins gat sótt þennan viðburð en tenging Sturlu við Noreg var mikil; hann var höfundur Hákonar sögu Noregskonungs og sonar hans Magnúsar lagabætis.

Enn er sagan lifandi í samtíð okkar. Og þó nær átta aldir séu liðnar frá vígi Snorra Sturlusonar  og við séum hér komin saman til þess að minnast þess að 800 ár eru liðin frá fæðingu sagnarritarans mikla Sturlu Þórðarsonar, er öld Sturlungu lifandi fyrir hugskotssjónum margra Íslendinga og ýmsa þekki ég, bæði leika og lærða sem án nokkurs hiks skipa sér í fylkingar Sturlunga, Ásbirninga, Oddaverja, Vatnsfirðinga eða Haukdæla.

Góður vinur minn sagði gömlum frænda sínum fyrir margt löngu af vináttu okkar og  sá gamli svaraði alvörugefinn en ánægður: Já, hann Einar er Vestfirðingur. Vestfirðingar eru góðir menn. Þeir studdu Þórð kakala í Flóabardaga. – Þar með hafði ég fengið heilbrigðisvottorðið.

Upp  í hugann kemur morgun fyrir fáeinum árum uppi á Silfrastaðaafrétt í Skagafirði. Ég var þangað kominn í göngur, að undirlagi míns góða vinar Agnars H. Gunnarssonar bónda á Miklabæ og oddvita Akrahrepps. Við þurftum að hefja göngurnar árla morguns og gangnaforinginn Þórarinn á Frostastöðum hafði skipað okkur til verka. Eftir hafragrautinn, batt ég á mig gönguskóna og bjó mig til átaka dagsins. Með mér í för var Þorkell bóndi á Víðivöllum, frændi minn í föðurætt,  ættaður frá Vöglum.  Sem við strituðum upp bratta fjallshlíðina bar margt á góma. Eins og gengur varð einhver uppstytta í samtali okkar, en þá rauf Keli þögnina og sagði. – Ég hef alltaf átt erfitt með að skilja hversu Gissur  Þorvaldsson var svona gjörsamlega grandalaus og lét koma sér að óvörum, þegar fjandmenn hans fóru að honum og brenndu Flugumýri, með öllum þeim afleiðingum, sem það hafði.

Mér varð hálf orða vant. Nema ég skildi, að til undirbúnings fjárleita og gangna að hausti í Blönduhlíðinni í Skagafirði dygði ekki líkamlegt atgervi eða karlmennska í viðureign við brattar hlíðar og óþekkar kindur. Í göngur þar um slóðir væru menn óbrúklegir nema að kunna einhver skil á 800 ára atburðum og vera lesnir í Sturlungu. 

Þegar ég kom heim settist ég niður með bækur Einars Kárasonar og dró fram Sturlungu til þess að kunna skil á atburðum sem voru á hraðbergi hjá bændum í Skagafirði og greinilega forsenda þess að vera viðræðuhæfur í hversdagslegu spjalli við fjárleitir á fjöllum uppi.

Sturlungaöldin er mesti ófriðartími Íslandssögunnar. Í raun má segja að á þeim rífu 40 árum sem hún er talin hafa staðið hafi í raun verið nokkur konar borgarastyrjöld á Íslandi. Eins konar ættbálkahernaður, svo orðfæri nútímans sé notuð, með skammti af hæfilegri einföldun.  Þetta er auðvitað alveg óskapleg saga. Fólk var brennt inni, eins og í Flugumýrarbardaga, jafnt karlar, konur og börn. Eða Haugsnesbardaginn, þar sem börðust um 1100 manns og um eitt hundrað féllu. Mannskæðasti bardaginn í sögu lands og þjóðar. Og svo má nefna Flóabardagann, einu alvöru sjóorustuna sem fram hefur farið á Íslandi þar sem um átta hundruð manns á 35 skipum börðust á Húnaflóa.

En þó sagan sé blóði drifin og mörkuð óheilindum og grimmd, má finna hljóðlát, falleg dæmi um hið gagnstæða, um manngæsku, sem rís sem tindur upp úr blóðbaðinu og þau dæmi verða manni minnisstæð.

Minn góði vinur Sigurður Hansen á  Kringlumýri í Skagafirði,  er einlægur stuðningsmaður Þórðar kakala, þó sjálfur búi hann í hinu forna ríki Ásbirninga miðju. Hann hefur af einstökum myndarskap gert það í senn að reisa skála til heiðurs Kakala og stillt upp í túnfæti sínum af ótrúlegri elju og hugkvæmni Haugsnesbardaganum nákvæmlega þar sem hann fór fram fyrir átta öldum. Oft hefur minn góði vinur vakið máls á kunnri frásögn úr Flugumýrarbrennunni, sem hrærir við hverjum þeim sem rifjar hana upp.  Bakgrunnur þessar miklu atburða á Flugumýri var pólitískur að því leiti að ætlunin var að leita sátta stríðandi afla. Gissur Þorvaldsson, sem þá bjó á Flugumýri vildi sættast við Sturlunga og hluti af þeirri sáttagerð var gifting Halls, elsta sonar Gissurar og konu hans, Gróu Álfsdóttur, og Ingibjargar, 13 ára dóttur  Sturlu Þórðarsonar af ætt Sturlunga. Var brúðkaup þeirra haldið á Flugumýri um haustið með mikilli viðhöfn. Ekki voru þó allir Sturlungar sáttir við þetta og  Eyjólfur ofsi tengdasonur Sturlu Sighvatssonar  safnaði liði í  Eyjafirði, fór með á fimmta tug vel vopnaðra manna yfir Öxnadalsheiði  og var kominn að Flugumýri seint að kvöldi 21. október, þegar flestir voru gengnir til náða. Réðust þeir til inngöngu en varð lítið ágengt og þegar Eyjólfur ofsi sá um nóttina að hætt var við að menn úr héraðinu kæmu til liðs við Gissur og menn hans brá hann á það ráð að kveikja í húsunum. 25 manns fórust í eldinum, þar á meðal Gróa kona Gissurar og synir hans þrír, en Gissur sjálfur bjargaðist með því að leynast í sýrukeri í búrinu, eins og frægt er.

En það er sagan af henni Ingibjörgu litlu Sturludóttur, sem hrærir  hjarta manns. Þessi 13 ára brúður,  var bjargarlaus á heimili tengdaforeldranna í miðjum eldsvoðanum og dauðinn henni vís.  Í hópi brennumanna var frændi hennar, Kolbeinn grön Dufgusson. Og skyndilega kom upp hugsun í höfuð hans. - Inni í brennunni var saklaus frænka hans, dóttir vinar hans Sturlu Þórðarsonar. Og þá vék vígamaðurinn fyrir manngæskunni. Kolbeinn grön, braust inn í eldinn, stofnaði lífi sínu í voða og bjargaði Ingibjörgu út úr eldinum.

Þetta er einstaklega falleg saga um manngæsku innan um alla vonskuna, sígild saga sem á sér ábyggilega hliðstæður við háskalegar aðstæður, jafnt þá sem nú. En svo skulum við aðeins íhuga aðra hlið þessarar sögu. Hvað hefði gerst ef Ingibjörg litla Sturludóttir hefði ekki bjargast úr brennunni? Hverjar hefðu orðið hinar pólitísku afleiðingar, áhrifin á gang sögunnar, ef Dufgussonurinn Kolbeinn grön hefði ekki lagt sig í lífshættu, brennumaðurinn sjálfur og bjargað hinni ungu höfðingsdóttur frá bráðum bana? Dóttur sjálfs Sturlu Þórðarsonar.

Sturlungaöldin var sannlega öld mikilla átaka. En hún var einnig mótsagnakennd í þeim skilningi að hún var enn fremur öld glæstrar menningar og öld sagnaritunar sem vart á sér líka. Þetta er tíminn sem þeir voru á dögum uppi, frændurnir Sturla Þórðarson og Snorri Sturluson, Heimskringla var fest á blað og Íslendingasaga einnig, svo fátt eitt sé nefnt af bókmenntalegum og sagnfræðilegum afrekum þessa umbrotatíma. Þessara margslungnu tíma minnumst við þess vegna jafnt með skírskotun til þeirra vofveiflegu atburða einkenndu þá og hinna menningarlegu afreka sem þá voru unnin og óbrotgjörn hafa verið.

Af sögunni má læra margt. Og þó  átökum Sturlungaaldar megi fráleitt  jafna við hérlenda atburði  í samtímanum eru þeir engu að síður áminning.  Innanlandsófriðurinn veikti stoðir samfélagsins og minnir okkur því á hættuna sem skapast í þjóðfélagi þar sem lögin og friðurinn eru slitin í sundur.

Fullveldi þjóðarinnar er helgur réttur en útilokar alls ekki samskipti við aðrar þjóðir. Öðru nær. Samskipti fullvalda ríkis á jafnréttisgrundvelli við aðrar þjóðir er forsenda sjálfstæðisins. Við höfum borið gæfu til að eiga mikil samskipti og viðskipti við aðrar þjóðir og það hefur dugað okkur vel.

Kæru  hátíðargestir.

Það er mér mikill heiður að standa í þessum sporum, nú þegar við minnumst 800 ára fæðingarafmælis Dalamannsins Sturlu Þórðarsonar. Allir þeir sem að þessu máli hafa komið eiga miklar þakkir skildar. Fyrir okkur nútímamenn er það brýnt að minnast svo merkra tímamóta. Og umfram allt er það mikilvægt að komandi kynslóðum verði þessi mikli menningararfur ljós, þannig að þegar gangnamenn framtíðarinnar, vitja fjár á afréttum, ræði þeir álitamál Sturlungaaldarinnar  um leið og þeir skyggnast eftir fé á heiðum uppi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband