Við höfum tekið markvisst á málum

Hér á Íslandi, annars staðar í Evrópu, í Bandaríkjunum og raunar út um öll lönd og álfur spyrja menn sömu spurninganna. Hvernig gat þetta gerst? Hvers vegna gátu menn ekki séð lausafjárkreppuna, bankakrepppuna og fjármálakreppuna fyrir? Núna mitt í björgunarleiðangrinum sjálfum spyrja menn sig að þessu, af því að við þurfum að vita svörin til þess að finna réttu leiðirnar út úr vandanum.

Við vitum að við erum ekki þau einu sem höfum ratað í vandræðin. Okkar vandi er þó sannarlega meiri nú um stundir af því að fjármálakerfið okkar var svo stórt. En við sjáum á fréttum dagsins að kreppan erlendis dýpkar enn. Vandinn sem við er að glíma verður verri við að eiga.

Þess vegna spyrja menn út um allan heim, spurningarinnar sem enginn getur svarað með afdráttarlausum hætti. Af hverju?

Sumt verður örugglega ekki ljóst fyrr en síðar. En það breytir því ekki að við þurfum að reyna að skilja sem best hvað úrskeiðis fór til þess að geta stýrt okkur rétta leið.

Þetta er viðfangsefni okkar og þetta eru viðfangsefnin sem ríkisstjórnir úti um allan heim, glíma við.

Algildir mælikvarðar stikuðu út aðra siglingaleið

Samhliða miklum vexti fjármálalífs á Vesturlöndum og þar með talið hér, komu menn sér upp eftirlitskerfi með sannanlegum mælikvörðum sem áttu að varða okkur leið. Þrjú alþjóðleg matsfyrirtæki lögðu fram reglulegt mat sitt á fjármálalegri stöðu fjármálafyrirtækja og ríkissjóða. Nú liggur fyrir að fáir hafa trú á gildi þessara mælinga. Þetta voru þó kvarðarnir sem menn litu til þegar trúverðugleiki fyrirtækja og hagkerfa var metinn. Mat þessara fyrirtækja endurspeglaði lánamöguleika fyrirtækja og samfélaga. Þeim mun betra mat, þeim mun betri aðgangur að lánsfé á þeim mun betri kjörum.

Gleymum því ekki að við gengum undir þessi jarðarmen. Og útkoman var góð. Við vorum lengst af í úrvalsflokknum og áttum þess vegna góða og greiða leið að miklu lánsfé.

En það þarf einnig að rifja upp að ein ástæða þess að svo vel var látið af bankastofnunum okkar var sú staðreynd að ríkissjóðurinn okkar var skuldlaus og vel rekinn. Þetta er í rauninni undarleg þverstæða. Við höfðum einkavætt bankana og varpað ríkisaábyrgðinni á þeim af okkur. Engu að síður var litið til efnahagsstöðu íslenska ríkisins þegar mat var lagt á bankana.

Sama má segja um annan mælikvarða sem við notuðum, eins og aðrar þjóðir. Hér var ekki um að ræða eitthvað heimasmíðað málband heldur alþjóðlega viðurkenndan kvarða sem aðrir notuðu einnig. Við brugðum máli á fjármálastofnanir okkar með alþjóðlega viðurkenndri mælieiningu; hér á ég við álagsprófið sem bankarnir og fjármálalíf okkar gengust undir með reglubundnum hætti. Og stóðust - alveg fram undir það síðasta.

Er furða þótt menn hafi átt erfitt með að ímynda sér það sem síðar gerðist hér á landi? Það kviknuðu viðvörunarljós, menn brugðust við þeim en hinir algildu mælikvarðar sem notaðir voru – ekki bara hér – heldur út um allan heim – voru að stika út aðra siglingaleið.

Við höfum brugðist við með markvissum hætti

En hvernig höfum við höndlað þessi mál? Hvernig hefur ríkisstjórnin brugðist við vandanum sem við erum nú stödd í?

Í fyrsta lagi með því að koma á laggirnar nýjum bönkum á dagparti sem tóku við almennri bankaþjónustu með lágmarksröskun fyrir almenning. Það er í sjálfu sér afrek, sem ég efast um að aðrir hefðu leikið eftir okkur.

Í annan stað: Það hefur verið unnið hörðum höndum að því að bregðast við með skipulegum hætti, þeim vanda sem heimilin í landinu standa frammi fyrir. Við samþykktum ný lög fyrir viku síðan til þess að létta greiðslubyrði einstaklinga með verðtryggð lán. Hér munar mjög miklu, ekki síst fyrir skuldugri heimilin og hjá ungu fólki sem er að hefja lífsbaráttuna. Þetta getur líka skipt máli fyrir ýnmiss konar atvinnurekstur, þá ekki síst í landbúnaði. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til skuldbreytinga lána. Afborganir erlendra lána hafa verið frystar. Stimpilgjöld hafa verið felld niður á skuldbreytingarlánum, skattalegum úrræðum beitt, innheimtuaðgerðir hins opinbera mildaðar, dráttarvextir verða lækkaðir og þannig má áfram lengi telja. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur haft forystu um að koma mjög ákveðið til móts við það fólk sem á í vanda vegna þess gríðarlega höggs sem verður vegna bankahrunsins.

Í þriðja lagi hefur verið með einbeittum hætti unnið að því að koma gjaldeyrisviðskiptum okkar í samt lag. Það hefur verið snúið verkefni sem þó hefur komist í viðunandi lag núna. Hið endanlega markmið er að gengisskráning geti orðið á markaðsforsendum eins og gilti fyrir bankahrunið. Þannig verður aðgangur fólks að gjaldeyri eðlilegur og þau milliríkjaviðskipti sem þurfa að eiga sér stað verða snurðulaus.

Forsendur til að gengið styrkist

Það er alveg ljóst mál að allar forsendur eru til þess að gengi krónunnar geti styrkst. Flestir þeir sem tjá sig um þessi mál álíta að gengi krónunnar eigi að vera amk. fjórðungi sterkara en það er núna. Það myndi þýða að gengisvísitalan verði um 170 en hún er núna 230 til 240.

Við þessar aðstæður er líka alveg ljóst að þrálátur vöruskipta og viðskiptahalli mun hverfa. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn metur það raunar svo að strax á þessu ári verði kominn afangur á vöruskiptajöfnuði okkar. Það þýðir að þegar þetta ár verður gert upp mun útflutningur verða meiri en innflutningur. Og það þrátt fyrir að mikill halli hafi verið á þessum efnahagsstærðum fyrri hluta ársins. Það segir okkur hve umskiptin eru snögg. Og  með því að miklar erlendar skuldir hreinsast burtu  vegna hruns bankanna  verður viðskiptajöfnuðurinn jákvæður á næsta ári og þjóðarbúið margfalt skuldminna.

Og hvað merkir þetta? Jú þetta þýðir einfaldlega að útflutningstekjur verða meiri en þau útgjöld sem við verðum fyrir vegna innflutningsins. Enda er mikil verðmætasköpun í útlflutningi okkar. Sjávarútvegsfyrirtækin keyra á fullum dampi og njóta í vaxandi tekjum hins lága gengis. Sama er að segja um aðrar útflutningsgreinar. Nú njótum við ávaxtanna af stóriðjuuppbyggunni sem færir okkur gríðarlegar gjaldeyristekjur. Og dag hvern fáum við fréttir af miklum vexti í ferðaþjónustunni. Á sama tíma minnkar innflutningurinn, sem áður hafði meðal annars verið drifinn af aukinni skuldsetningu fyrirtækja og fjármálastofnana við útlönd. Við þessar aðstæður getur bara eitt gerst. Útflytjendur skipta gjaldeyristekjum sínum í innlendar krónur, sem skapar framboð á gjaldeyri og eftirspurn eftir krónum. Slíkt mun styrkja krónuna þegar fram í sækir. Það eru því allar forsendur til þess að gengi  krónunnar styrkist.

Verðbólga minnkar og hagur heimila og fyrirtækja batnar

Gengisstyrking krónunnar er líka forsenda þess við getum styrkt stoðir atvinnulífsins, lækkað skuldir þess, sem eru að svo miklu leyti í erlendri mynt og lækkað þar með einnig erlendar og innlendar skuldir heimilanna. Styrking krónunnar mun nefnilega stuðla mjög hratt að lækkun verðbólgunnar, hins forna fjanda almennings og atvinnulífs.

Gleymum því heldur ekki að aðstæður til verðlagslækkana eru okkur á margan hátt hagstæðar. Innflutningsverðlag, mælt í erlendri mynt hefur lækkað mikið. Olíuverð hefur lækkað um 60%, ýmsar matvörur einnig og þannig mætti áfram telja. Með gengisstyrkingu skapast því forsendur til snar minnkandi verðbólgu.

Okkar stærsta viðfangsefni núna er þess vegna að stuðla að eðlilegri verðmyndun gjaldmiðilsins okkar sem mun leiða til þess að allur innfluttur kostnaður lækkar. Þetta er brýnasta hagstjórnarverkefnið, þetta er brýnast fyrir fyrirtækin í landinu og þetta er brýnast fyrir heimilin. Þetta er í rauninni forsendan fyrir öllu því sem við erum að reyna að gera. Þetta er þar með líka forsendan fyrir því að berjast gegn atvinnuleysi sem við höfum aðeins þekkt af afspurn í einn og hálfan áratug, guði sé lof.

Traustsyfirlýsing frá alþjóðasamfélaginu

Það hefur réttilega verið sagt að við þurfum að byggja upp traust. Traust hér innanlands og traust á erlendum vettvangi. Þetta er mikið rétt. Sú efnahagsáætlun sem við höfum lagt fram í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er einmitt til marks um að við erum að nýju að ávinna okkur þetta traust. Þessi áætlun byggir á starfi sérfræðinga sem gleggst þekkja til. Á grundvelli hennar hafa fjölmargar þjóðir sýnt traust sitt í verki, með þeirri lánafyrirgreiðslu sem þær, og ekki síst vinir okkar og frændur á Norðurlöndunum hafa veitt okkur. Þessi fjárhagslega fyrirgreiðsla byggir einmitt á því að þessar þjóðir hafa sömu skoðun og við. Þær sýna traust sitt á okkur í verki. Þetta er í raun traustsyfirlýsing þeirra um að með þeirri efnahagsáætlun sem við leggjum til grundvallar megi stuðla að nýrri viðreisn efnahagslífsins. Að við getum bætt stöðu okkar að nýju.

Enda segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í mati sínu og sem aðildarþjóðir sjóðsins taka undir með aðild sinni; að horfurnar um hagvöxt til lengri tíma hér á landi séu góðar, sakir sterkra innviða  þjóðfélagsins, góðrar menntunar landsmanna, aðlaðandi fjárfestingaumhverfis og mikilla náttúruauðlinda. Þessi traustsyfirlýsing alþjóðasamfélagsins er þannig skilaboð til okkar um  þá tiltrú sem við njótum, stjórnvöld og íslenskt þjóðfélag í heild sinni. Þetta er þess vegna einnig liður í því að skapa það nauðsynlega traust sem þarf að ríkja hér innanlands á gildi þeirra fjölmörgu efnahagsráðstafana sem við erum núna að grípa til og höfum þegar hrint í framkvæmd mörgum hverjum.

En hver ber ábyrgð á ástandinu?

Menn spyrja um ábyrgð á því ástandi sem hér hefur skapast. Þetta er eðlileg spurning, sem við eigum að svara undanbragðalaust. Það verður hins vegar ekki gert í lýðræðislegu réttarríki nema með vönduðum hætti. Við vitum að ýmislegt sem hér hefur um valdið var ekki á okkar valdi. En við þurfum einnig að skoða það sem sérstaklega snýr að okkur sjálfum og hvar mistök hafi legið og á ábyrgð hvers. Frumvarp dómsmálaráðherra og aðkoma Alþingis á þann veg sem rætt hefur verið um á milli stjórnar og stjórnarandstöðu eru hvoru tveggja aðferðir við að skilja ástæður þess vanda sem við glímum núna við og kalla til ábyrgðar þá sem ábyrgð bera. Það skiptir því miklu máli fyrir framgang mála og trúverðugleika að vel takist hér til.

Það er skylda okkar sem stjórnvalda og það er skylda þeirra eftirlitsstofnana sem við höfum á að skipa, að fylgjast afar vel með þeim ákvörðunum sem teknar verða á næstunni. Allar ákvarðanir sem teknar eru og teknar verða  og varða fjárhagslegt uppgjör, eiga  að vera hafnar yfir allan vafa. Almenningur á heimtingu á því að þar verði unnið faglega og án mismununar. Í þeim efnum verða engir Jónar og séra Jónar. Hér eiga einfaldlega allir Jónar að vera jafnir. Hér gildir að ferlið sé gagnsætt og leikreglurnar almennar.

Þingrof og kosningar núna - fráleitt

Núna kallar stjórnarandstaðan eftir því að þing verði rofið og efnt til kosninga sem fyrst á nýju ári. Þetta er fráleit krafa sem ekki mun þjóna hagsmunum þjóðarinnar. Öðru nær. Nú ríður þvert á móti á að við höldum áfram þeirri markvissu vinnu sem komin er áleiðis við að róa þjóðarskútunni úr brimskaflinum og  á kyrrari sjó.  Sú markvissa vinna sem ríkisstjórnin hefur haft frumkvæði að og stjórnarandstaðan hefur í mörgum tilvikum komið að hér á vettvangi þingsins, sýnir að við erum á réttri leið, þó að við vitum öll að mikið verkefni er eftir. Það er einmitt þess vegna sem það er óskynsamlegt að bæta pólitískri óvissu ofan á efnahagsleg vandræði. Þegar búið er að setja strikið og við vitum hvert við viljum stefna, er ekki mikil glóra í því að stökkva frá stýrinu og láta kylfu ráða kasti, eins og tillaga stjórnarandstöðunnar felur í sér.

Er ríkisstjórnin traustsins verð ?

Það hefur verið spurt hvort þeim sem nú halda um stjórnvölinn sé treystandi fyrir þeirri siglingu sem framundan er. Svarið er augljóst. Hin markvissa stefnumótun sem fylgt er og ég hef hér gert grein fyrir sem og einbeittur vilji okkar til þess að hrökklast ekki undan ábyrgðinni sem á okkur er lögð, segir okkur einmitt að ríkisstjórninni er til þess treystandi að vinna að þessum verkefnum sínum. Enda hverfa þau ekki frá okkur með óskhyggju og óskynsamlegri tillögu um kosningar í miðjum verkum.

Nú blásum við til sóknar

Það þarf auðvitað ekki að orðlengja neitt um þann gríðarlega vanda sem við er að glíma á efnahagssviðinu og sem ég hef hér gert að umræðuefni. Hrun bankakerfis, samdráttur landsframleiðslu, mikil verðbólga, snarlækkun gengis, vandkvæði í gjaldeyrisviðskiptum og háir vextir eru ástand sem við getum ekki búið við. Verkefnið framundan – og það er risaverkefni – er að breyta þessu ástandi; snúa vörn í sókn. Undanfarnar vikur hefur verið brugðist við hinum gríðarlega vanda sem að okkur hefur steðjað. En nú þarf að horfa til framtíðar. Hyggja að því hvernig byggja má upp.

Við blásum núna til sóknar, mitt í þeim erfiðleikum sem við er að glíma. Mótlætið má nefnilega ekki buga okkur, heldur stæla til enn frekari átaka. Einfaldlega vegna þess að nú ríður á að okkur takist að rífa okkur upp, nýta þá sprota sem hægt er að örva til frekari vaxtar, undir formerkjum þekkingar og framtaks sem við, íslensk þjóð eigum kappnóg af.

Við erfiðleikaaðstæður kvikna einmitt oft góðar hugmyndir. Ísland hefur verið dýrt land, hér hefur hátt gengi hamlað vexti nýrra sprota. Nú er þetta að breytast og ljóst að möguleikar til nýsköpunar geta orðið margvíslegri  en áður - og kannski óvæntari.

Þegar svo háttar til skiptir miklu máli að við höfum styrkt grunngerð samfélags okkar á síðustu árum. Menntunarstigi þjóðarinnar hefur fleygt fram. Tæknibylting samtímans, sem við höfum verið fljót að tileinka okkur og aðgangur að þekkingu um allan heim telst okkur til tekna og ber að nýta samfélaginu til heilla.  Í þessu felast tækifæri, sem við þurfum að nýta okkur sem best. Við skulum þess vegna halda áfram því viðreisnarstarfi sem við höfum þegar hafið og reiða okkur á alla þá möguleika sem við okkur blasa þrátt fyrir allt.

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband