Það er nýtt leikrit á fjölunum

LeikritNýtt leikrit er nú á fjölunum og við getum fylgst með því í fjölmiðlum í ýmsum útfærslum. Nokkuð langt er síðan að handritið var skrifað. Höfundar þess eru stjórnmálamenn, sem kunna ýmislegt fyrir sér í spunalistinni og hafa því reynt að láta leikverkið líkjast mest raunveruleikasjói. Hlutverkaskipan er hefðbundin og leikararnir kunnir og gamalreyndir á sínu sviði. Endir sýningarinnar er fyrirsjáanlegur. Aðalleikararnir munu fallast í faðma, eftir að hafa gert sér upp fálæti, einstaka reiðiköst og svo ólíkindalæti.

Hér er vitanlega verið að ræða um sýninguna sem okkur er boðið upp á varðandi viðræður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingarinnar. Þetta er allt fyrirsjáanlegt. Fyrir löngu hafa allir vitað að þessir flokkar ætla saman í ríkisstjórn. Það var fyrir löng umrætt og ákveðið þeirra á milli. Leikaraskapurinn núna er bara hluti af því handriti.

Menn velta fyrir sér ágreiningi á milli flokkanna. Þau mál eru endalaus. Evrópa, stóriðja, landbúnaðarmál, skattamál, byggðamál og svo framvegis og svo framvegis. Þessum ágreiningi verður einhvern veginn landað. Viljinn til stjórnarsamstarfs er svo auðsær, að það þarf ekki einu sinni að velta fyrir sér spurningu um hvort stjórnarsamstarfið verður að veruleika. Spurningin er bara hve lengi flokksforingjarnir nenna þeim látalátum sem fylgja leikritinu.

Og svo eitt í lokin. Evrópumálin verða leyst þannig að VG ætlar að gefa eftir. Samfylkingin hefur talað þannig að hún á engrar undankomu auðið. Foringjar flokksins hefðu aldrei talað eins og þeir gerðu, nema vegna þess að þeir vita að VG muni gleypa oní sig fyrri yfirlýsingar. Leiðin verður sú sem Samfylkingin fór í vandræðum sinum í Hafnarfirði út af stækkun álversins hjá Ísal. Málinu var vísað í almenna atkvæðagreiðslu og foringjarnir komust hjá því að taka afstöðu. Þannig verður ESB málinu vísað hráu í atkvæðagreiðslu, þar sem ekkert kjöt verður á beinunum og átökunum þannig vísað frá ríkisstjórninni.

Þetta hafa þeir VG menn marg sagt, en kannski ekki alveg svona afdráttarlaust. Til dæmis á fundum í Norðvesturkjördæmi en endanlega mun þetta koma fram í síðasta þætti sjónleiksins sem nú er á fjölunum og fjallar um stjórnarmyndun sem löngu er búið að ákveða. 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband