Stórkostlegur áfangi

Mjóafjarðarbrúin - mynd bb.isÍsafjarðardjúpið var lengi farartálmi. Baráttan við að klára vegagerð um Djúpið hefur verið hvað efst á forgangslista þeirra verkefna í samgöngumálum sem við Vestfirðingar höfum rætt um. Það er því ekki neinn smá áfangi í höfn, nú þegar við ökum Ísafjarðardjúpið allt á malbikuðum, beinum og breiðum vegi. Við getum auðvitað öll sagt með sanni að nú sé stór draumur loks að rætast.

Brúin yfir Mjóafjörð er glæsilegt og mikið mannvirki. Þverun Reykjafjarðar er hrein bylting. Við erum laus við farartálmann Hestakleif og heilsársleiðin um Djúpið styttist umtalsvert.

Gleymum því ekki að það er í rauninni ótrúlega stutt síðan að Ísafjörður og norðanverðir Vestfirðir komust í raunverulegt akvegasamband við aðal þjóðvegakerfi landsins. Það eru ekki nema 50 ár síðan vegurinn um Dynjandisheiði var tekin í notkun. Þá loks komst á akvegasamband; en aðeins hluta ársins og um afleitan veg á nútímamælikvarða.

Vegurinn um Ísafjarðardjúp var tekinn í notkun fyrir 34 árum, haustið 1975. Fyrir þann tíma fóru menn um Djúpið með gamla Fagranesinu, bílarnir hífðir um borð með klöfum, siglt inn að Arngerðareyri og ekið upp Langadalinn og um Þorskafjarðarheiði. Steingrímsfjarðarheiðin var ekki einu sinni komin á teikniborðið.

En líkt og ég sagði við vígslu Mjóafjarðarbrúar inni í Reykjanesi í gær, þá eru vegir einu sinni þannig að þeir verða strax barn síns tíma. Um leið og einn áfangi næst, förum við að hyggja að næsta skrefi. Eftir að búið var að leggja veg um Djúpið, hófst baráttan fyrir því að bæta hann, breikka, leggja bundið slitlag, færa hann frá snjóaköflum og svo framvegis. Allt kunnuglegt og þannig mun það verða áfram.

Nýi vegurinn um Djúpið er stórkostlegur, en samt þarf að bæta á honum kafla. Yst í Hestfirði er hættulegur og mjór kafli, í Seyðisfirðinum er vegurinn alltof mjór og veikburða. og einnig að hluta í Álftafirði. Þannig höldum við áfram að þoka áfram framfaramálunum.

En í dag gleðjumst við yfir nýjum áfanga og hlökkum til þess að Armkötludalurinn verði tekinn í notkun í lok mánaðarins. Þá sjáum við stórkostlega hluti gerast með því að lokið verði tengingu norðanverðra Vestfjarða og Stranda með alvöru nútímavegi við þjóðvegakerfi landsins. 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband