Lifandi dauð

Niðurstaðan sem varð í ríkisstjórnarflokkunum eftir afsögn Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra var algjörlega fyrirsjáanleg.  Burtséð frá öllu öðru,  er það  einlægur ásetningur forystumanna ríkisstjórnarinnar að sitja áfram hvað sem það kostar.  Þess vegna er einfaldlega allt lagt í sölurnar til þess að það geti tekist. Horfinn er úr ríkisstjórninni einn öflugasti liðsmaðurinn, einn þeirra sterku og trúverðugu. Ríkisstjórnin hjöktir nú áfram illa löskuð og óárennileg.

Jóhanna Sigurðardóttir beitti því vopni sem henni er tamast; hótunum.  Og þó hún og ríkisstjórnarforystan hafi fengið sitt fram í þetta sinn, situr þetta í almennum þingmönnum VG, sem örugglega hugsa nú sitt.  Steingrímur J. Sigfússon réði í áhöfn sína í ríkisstjórninni, traustan bandamann og dugmikinn þingmann, Álfheiði Ingadóttur, sem hér með er óskað til hamingju með nýtt ábyrgðarstarf. Þetta lá ljóst fyrir frá fyrstu stundu, enda þaggar þetta líka niður í femínistunum í VG sem hafa gagnrýnt kallana í ríkisstjórninni.

Lifandi dauð

En öllum er ljóst að þessi ríkisstjórn er lifandi dauð. Hún skrimtir áfram, en án erindis. Hennar tilgangur verður hér eftir einn; og bara eingöngu einn. Það er að tóra.

Það er margsönnuð reynsla að þegar trúnaðartraust er búið í ríkisstjórnarsamstarfi  þá er það í rauninni búið. Menn viðurkenna það helst ekki og reyna sitt besta til að bæta úr því. Það er í sjálfu sér skiljanlegt því að auðvitað reyna menn að halda í vonina eins lengi og það er hægt.

En þegar trúnaðartraustið er horfið á milli manna þá verða samskiptin augljóslega án þess að þeir  segi alltaf hug sinn allan. Þau verða semsé ekki byggð á því trausti sem er svo mikilvæg í ríkisstjórnum. Þetta verður hlutskiptið í þessu ríkisstjórnarsamstarfi á næstunni; og er raunar þegar orðið.

Pólitísk óvissuferð

Það hefur blasað við öllum að smám saman hefur  fjarað undan ríkisstjórninni. Stutt ævi  hennar hefur einkennst af gríðarlegum átökum. Og það þarf enga sérstaka skarpskyggni til þess að gera sér grein fyrir að kveikiþráðurinn á milli flokkanna hefur styst mjög. Lítill neisti getur þess vegna auðveldlega kveikt í púðurtunnunni.

Eða dettur einhverjum í hug að átökin um ESB eða Ice-save skilji ekki eftir sig sár og ör? Þetta eru stór mál, prinsíppmál, sem enginn getur afgreitt léttilega. Upplifun VG liða er að þeir hafi verið beygðir í duftið í þessum málum. Það er líka raunin. Aðgöngumiðinn þeirra að ríkisstjórninni er orðinn gífurlega dýrseldur. Með þessa veislu í farángrinum  leggur flokkurinn nú á stað í "pólitísku óvissuferð" undir fararstjórn Samfylkingarinnar, svo vitnað sé í orðalag Morgunblaðsins á dögunum.

Ríkisstjórnin þolir ekki meiri átök

Ríkisstjórnin þolir ekki meiri átök. Þess vegna verða stjórnarliðar átakafælnir, af því að það er eina leiðin til þess að framlengja líf ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki gott vegarnesti á átakatímum, þegar takast þarf á við gífurlega erfið mál sem eru í eðli sínu átakamál.  

Augljóslegar munu þó stjórnarliðar forðast það að takast á við slík óhjákvæmileg verkefni. Það er ekki gott fyrir framtíð þjóðarinnar.

Framundan eru þóstórmál sem eru í eðli sínu átakamál, sem enginn fær undan vikist. Nefnum þrennt.

 

Fjárlögin

Í fyrsta lagi, fjárlögin auðvitað. Þar verða menn auðvitað að gera margt fleira en gott mun þykja. Þar munu líka kristallast átakapunktar og ólíkir hagmunir. Er þar nærtækt að nefna ólíka sýn til byggðamála, þar sem einstakir þingmenn hafa haft uppi um mikla svardaga. Í dag og á næstunni munu birtast okkur ákvarðanir og tillögur í fjárlagafrumvarpi sem eru algjörlega þvert á alla svardagana og kosningaloforðin sem voru gefin fyrir fáeinum mánuðum.  Við höfum þegar séð glitta í slíkt og það er þó bara byrjunin,

ESB málið er bara rétt að byrja

Í annan stað vita allir að ESB málið er bara rétt að byrja. Við erum rétt aðeins farin að sjá glitta í þau mál öll sömul.  Upp eiga eftir að koma ótal átakapunktar sem ríkisstjórninni mun reynast erfitt að leysa. Og lík mál hafa þegar dúkkað upp. Við þurfum ekki annað sjá „stóra þýðingarmálið“. Ríkisstjórnin er búin að velkjast með þá spurningu hvort þýða eigi spurninga - og svaralistann fræga til ESB. Og hefur ekki komist að samkomulagi þar um. þetta er þó auðvitað smáatriði í samanburði við það þegar ríkisstjórnin þarf að fara að taka afstöðu til mála sem einhverju skipta og upp koma í samningaviðræðunum úti í Brussel.

Slegið af í Icesave málinu

Og síðan er það Icesave. Þar er engin niðurstaða fengin. Málið virðist jafn óljóst og fyrr. Ríkisstjórnin hefur bara umboð til að halda áfram viðræðum. En þingmenn VG hafa ekki gefið nein fyrirheit um stuðning um málið. Það er þess vegna jafn  opið sem fyrr. Ríkisstjórnin býr sig nú undir það að slá af samþykktum Alþingis í Icesavemálinu. Þá mun reyna á og þá mun reyna á hvort þingmenn stjórnarflokkanna standi við sín stóru orð.

Brothætt skel utan um ekki neitt

Gagnvart öllu þessu stendur ríkisstjórnin sem brothætt skel; utan um ekki neitt.  Lífsneistinn hefur slokknað og hún veit að erindi hennar við þjóðina er á þrotum. Hún lifir og er örugglega ekki á förum. En hún er þarna í fullkominni erindisleysu, barin áfram  undir hótunum forsætisráðherrans, lífsgleðin horfin og hugsjónaneistinn slökknaður.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband