Stjórnarstefnan var að hafna öllu samstarfi á Alþingi

Ekkert samstarfNú segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að stjórnmálaflokkarnir þurfi að taka höndum saman. Það er gott að hún hefur skipt um skoðun og skilur að ríkisstjórnin er bæði máttvana og hefur þrotið örendið. En sorglegt er að það þurfi 8 þúsund manna mótmæli við Alþingishúsið til þess að skilja það sem hefur blasað við öllum landsmönnum um langa hríð.

En gleymum þá ekki einu. Það var meðvituð og markviss stefna ríkisstjórnarflokkanna, VG og Samfylkingar að eiga EKKI slíkt samstarf. Þetta var eitt af kosningaloforðunum sem voru gefin. Sagt er að það sé eina kosningaloforðið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki svikið; ennþá að minnsta kosti.

Því eins og við munum lýstu báðir flokkarnir því yfir að markmið þeirra væri að tryggja að Sjálfstæðisflokknum - og eftir atvikum Framsóknarflokknum - yrði haldið frá öllum áhrifum við landstjórnina. Nú þyrfti nýja stefnu og nýjar áherslur. Stefnu og áherslur VG og Samfylkingar. Þessu hefur samviskusamlega verið fylgt eftir. Það verður nefnilega aldrei samstarf á milli flokka á Alþingi, þegar þeir sem landinu stýra vilja ekki slíkt samstarf.

Nú hafa ríkisstjórnarflokkarnir haft 900 daga til þess að hrinda þessum áherslum í framkvæmd. Reisa skjaldborgina umræddu og breyta þjóðfélaginu eftir höfði þessara tveggja flokka. Þeir hafa haft til þess nægjanlegan þingstyrk. Og árangurinn blasir við.

Á meðan forystumenn ríkisstjórnarinnar tala um að "landið sé að rísa" eins og Steingrímur segir - og "árangurinn sé öfundarefni annarra þjóða", eins og Jóhanna segir, blasir hinn bitri sannleikur við öllum almenningi.

Ríkisstjórnin er núna úti á berangri, hefur engum árangri náð þar sem brýnast er og veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga. Þess vegna sendir hún út neyðarkall.

Við Sjálfstæðismenn höfum hvað eftir annað kallað eftir samstöðu allra flokka um nauðsynlegar aðgerðir, í atvinnumálum, í málefnum heimilanna og efnahagsmálum. Á það hefur ekki verið hlustað. Okkar hugmyndum hefur verið sópað út af borðinu, af þeim háum herrum og frúm í Stjórnarráðinu. Það er gott að vita að þetta fólk er að vitkast. En það er illt að til þess þurfi 8 þúsund manns að þyrpast út á göturnar og krefjast nýrra vinnubragða.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband