Meirihluti Alþingis hafnar niðurskurðinum á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni

Heilbrigðisstofnun VestfjarðaSíðasti sólarhringur eða svo hefur verið örlagaríkur í stjórnmálunum. Við lok gærdagsins lá það fyrir að ekki er þingmeirihluti fyrir umdeildasta þætti fjárlagafrumvarpsins. Niðurskurðinum til heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin á núna bara einn kost. Lýsa því yfir að fallið verði tafarlaust frá þessum fyrirætlunum og að við afgreiðslu fjárlaganefndar fyrir aðra umræðu fjárlaganna verði tillögurnar dregnar til baka.

Eigi færri en þrír þingmenn stjórnarliðsins lýstu í gær andstöðu sinni við þá ætlun að skera svona harkalega niður fjármuni til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Sigmundur Ernir Rúnarsson fjárlaganefndarmaður Samfylkignarinnar gerði það strax í gær, undir það tóku Ólína Þorvarðardóttir, Samfylkingu og Ásmundur Einar Daðason, einnig fjárlaganefndarmaður úr VG. En áður hafði Jórunn Einarsdóttir varaþingmaður Atla Gíslasonar VG, gert það í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra.

Á þúsund manna fundi á Ísafirði, þar sem íbúar á norðanverðum vestfjarða mættu til þess að láta í ljósi hug sinn til niðurskurðaáformanna, vakti ég athygli á þessu.

Það er ekki vika síðan að ríkisstjórnin lagði fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011, á borð þingmanna, þar sem ótíðindin var að finna. Það gerðist nákvæmlega kl. 16 sl. föstudag. Fyrir dagslok í gær, lá fyrir að þessi áform nutu ekki stuðnings þingmanna. Það tók sem sagt ekki nema 6 daga að hafna þessum vanhugsuðu og röngu tillögum.

En gáum samt að. Nú er ekki ólíklegt að reynt verði að þröngva í gegn minniháttar breytingum. Það væru hins vegar brigð. Það getum við heldur ekki látið yfir okkur ganga.

Það eitt er viðunandi að ekki verði gengið svo nærri heilbrigðisstofnunum okkar á landsbyggðinni, að þær standi eftir aðeins svipur hjá sjón. Þau niðurskurðaráform sem litu dagsins ljós öllum að óvörum í fjárlagafrumvarpinu var stefnuyfirlýsing um að leggja af eiginlega sjúkrahúsþjónustu út um allt land. Það er því sem við eigum að hrinda af okkar höndum.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband