13.2.2012 | 10:09
Ríkisstjórnin sem þorir ekki að deyja
Ríkisstjórnina hefur fyrir löngu þrotið örendið. Það sjá allir auðvitað. Trú fólks á þessa hreinu vinstri stjórn er gjörsamlega búin. En áfram skröltir hún þó - En af hverju?
Ríkisstjórnina hefur þrotið örendið
Fyrir því eru nokkrar ástæður.
Það er þessi hefðbundna sem allir vita. Löngunin í völdin og þráin eftir því að sitja slímusetur á valdastólunum. Þetta er svo sem ekki nýtt heilkenni í stjórnmálum, en á óvenju háu stigi að þessu sinni.
Þá er það viljinn til þess að koma í veg fyrir að núverandi stjórnarandstöðuflokkar komist til valda. Þetta sjáum við í heiftinni sem birtist stundum í skrifum og málflutningi einstakra ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna. Þetta verður stöðugt aumkunarverðara.
En veigamesta ástæðan núna um stundir er samt önnur. Ríkisstjórnin þorir ekki að deyja. Þess vegna er hún þarna á sínum pólitíska grafarbakka og vonast til að tolla þar eitthvað áfram.
Það sjáum við í skoðanakönnunum að stjórnarflokkarnir eru í vondum málum. Fylgið komið ofan í það lægsta sem sést hefur á kjörtímabilinu og engar vísbendingar um að Eyjólfur sé að hressast. Og hinar óljósu vísbendingar sem við höfum fengið úr skoðanakönnun Fréttablaðsins segja okkur að nýju framboðin muni enn tæta úr fylgisstabba stjórnarflokkanna.
En verst fyrir flokkana tvo eru síðan innanmeinin.
Vinstri græn eru einfaldlega klofin ofan í rót. Þar eru í raun starfandi tveir þingflokkar. Annars vegar þingflokkur formannsins, Steingríms J. Sigfússonar. Hann telur 9 þingmenn. Hins vegar þingflokkur Ögmundar Jónassonar. Hann telur 3 þingmenn. Aðrir þrír þingmenn hafa síðan yfirgefið skútuna. Þannig að það er af sem áður var, þegar flokkurinn státaði af 15 þingmönnum undir kommandói Steingríms.
Samfylkingin er í alvarlegri forystukreppu, eins og allir vita. Jóhanna Sigurðardóttir mun ekki leiða flokkinn í gegn um næstu kosningar. Ummæli Össurar Skarphéðinssonar og Sighvatar Björgvinssonar í fjölmiðlum þar að lútandi eru til marks um það sem flestir aðrir láta sér nægja að hvísla um. Þau mál eru hins vegar svo óuppgerð að flokkurinn telur sér farsælast að fresta því að taka á málinu.
Vandinn við svo veika ríkisstjórn er auðvitað margþættur. En mesta hættan er örvæntingin sem getur gripið flokkana við svona aðstæður. Og við sjáum ýmis merki um að slíkar örvæntingaraðgerðir kunni að líta dagsins ljós.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook