30.3.2008 | 23:20
Talað í kross
Það getur stundum verið erfitt að vera sjálfum sér samkvæmur. Sérstaklega ef það felur í sér að menn verða að halda á lofti óvinsælum skoðunum í bland við þær sem til vinsælda geta fallist. Tökum dæmi.
Tveir þingmenn úr sama stjórnmálaflokknum hafa rætt við mig á Alþingi um tvö aðskilin mál sem snerta stefnumótun og hagsmuni landbúnaðarins. Kröfur þeirra beggja höfðu það yfirbragð að vera settar fram í þágu íslensks landbúnaðar. Báðir þessir ágætu og vel meinandi þingmenn settu mál sitt fram undir ljósi velvildar í garð bænda. Hins vegar er alveg ljóst að kröfur þessara ágætu þingmanna eru í hróplegri innbyrðis mótsögn, eins og nú skal rakið.
Nú ríður yfir mikil hækkun á áburðarverði. 80% hækkun á skömmum tíma. Þetta veldur miklum búsifjum. Talið er að kostnaðarauki íslensks landbúnaðar sé 1 til 1,2 milljarðar. Hvað er þá til ráða? Undir hverju rifi míns ágæta félaga úr Norð Vesturkjödæmi Jóns Bjarnasonar, mátti sjá glitta í ráðin. Ríkið á að koma til skjalanna, - mátti lesa úr ummælum hans í ræðustóli Alþingis - og létta þessar byrðar. Sannarlega efnislegt sjónarmið sem þó er umdeilt, en skýrt sjónarmið engu að síður.
Líða nú og bíða fáeinir dagar. Mætir þá ekki í hinn sama ræðustól Alþingis, félagi Jóns úr flokki Vinstri grænna, Þuríður Bachmann. Hennar erindi var að finna að því að ekki væri nægjanlega gert af ríkisins hálfu til þess að hvetja til lífrænnar ræktunar. En samkvæmt prinsippum slíkrar ræktunar má ekki nota tilbúinn áburð af þeirri sort sem Jón Bjarnason vill auðvelda mönnum kaupin á.
Blasa mótsagnirnar ekki við öllu hugsandi fólki? Er ekki öllum ljóst að það, að stuðla að lækkun áburðarverðs, dregur úr hvatanum til lífrænnar ræktunar? Er ekki alveg augljóst mál að slakna mun á áhuga manna á lífrænum landbúnaði ef aðgengi að tilbúnum áburði er betra en núna?
Látum vera að sinni að taka afstöðu til sjónarmiða þeirra flokkssystkina. En augljóst hlýtur það að vera þau tala algjörlega í kross. Nema að niðurstaðan eigi að vera að gera hvort tveggja og gleðja þannig alla. Lækka verð á áburði, sem dregur úr hvata til lífrænnar ræktunar og leggja síðan einnig aukið fé til lífrænnar ræktunar, sem fælir menn frá því að nota tilbúinn áburð. Þannig er hægt að leggja aukið fé til tvenns konar verkefna og toga með þeim aurum í tvær gagnstæðar áttir.
Það er nefnilega ekki alltaf hægt að gera svo öllum líki vel.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook