7.8.2009 | 09:05
Alltaf eru þau verst, sjálfskaparvítin
Það er ríkisstjórnin sem ein, óstudd og hjálparlaust ber ábyrgð á því ótrúlega klúðri sem Icesavemálið er í. Ríkisstjórnin ákvað verklagið á samningaviðræðunum. Ríkisstjórnin markaði samninganefndinni umboð. Ríkisstjórnin samþykkti þá niðurstöðu sem fyrir Alþingi var lögð. Ríkisstjórnin hafði ekki umboð þeirra þingmanna sem hún sækir umboð sitt til, til þess að undirrita hinn illræmda samning við Hollendinga og Breta.
Hún kom sér þess vegna í þessi vandræði sjálf, - sem þó er ekki alvarlegast. Hitt er miklu verra að hún hefur flækt þjóðina inn í samningsniðurstöðu sem við getum ekki, megum ekki, eigum ekki og munum ekki samþykkja.
Gleymum ekki hvernig ríkisstjórnin vann að málinu. Hún leysti frá störfum nefnd sem fyrri ríkisstjórn hafði skipað. Þess í stað var sett á laggirnar ný nefnd. Yfirbragð hennar var þannig að greinilegt var að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vildi undirstrika skilin við fyrri ríkisstjórn og hin beinu tengsl nýju samninganefndarinnar við sig prívat og pólitískt. Það er út af fyrir sig sjónarmið sem vel má virða.
Það felur í sér kosti, sé maður sannfærður um að niðurstaðan verði góð. Og enginn vafi er á því að leikurinn var gerður í fullvissu þess. Sbr. yfirlýsingu ráðherrans að glæsileg niðurstaða væri í nánd, löngu áður en fyrsti og eini formlegi samningafundurinn var einu sinni haldinn !
Gallinn við þetta verklag er að það felur líka í sér yfirlýsingu um að málin verði ekki unnin á grundvelli víðtæks samkomulags; þverpólitískrar sáttar. Ástæðan var auðvitað sú að ríkisstjórnin ætlaði ein að uppskera af hinni "glæsilegu niðurstöðu" sem ráðherrararnir sem ábyrgðina báru, voru sannfærðir um að næðist.
Nú er sannleikurinn kominn í ljós. Enginn vill óbreytt Icesave samkomulag. Í raun beinist öll vinnan að því að hafna samkomulaginu með penum hætti. Stjórnarliðar hafa vikum saman sent út hreint neyðarkall og ákall um hjálp úr þeim háska sem þeir komu sér sjálfir í.
Hernaðarlistin mikla sem lagt var af stað með er alveg runnin út í sandinn. Málið er í algjöru klúðri. Klúðrið er í fanginu á ríkisstjórninni, sem þó er þverklofin í málinu sjálfu.
Enn sannast það. Alltaf eru þau verst sjálfskaparvítin.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook