Jón Bjarnason þvældist fyrir tangó - dansparinu

 

Hreinsunardeild Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs beið með sínar pólitísku jólahreingerningar fram yfir áramót að þessu sinni. Jóni Bjarnasyni var varpað út úr ríkisstjórninni á gamlársdag 2011. Nú var beðið nýs árs og því heilsað með því að setja hann út úr nefndum Alþingis. Það var gert í gær.

Hrannar B. Arnarsson aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur  lýsir hinni pólitísku stöðu ágætlega út frá hagsmunum Samfylkingarinnar og  kjaftar svo  frá því hvaða augum VG er litið í ranni samstarfsflokksins. Hann segir: „En það þarf tvo í tangó því miður hafa ekki aðrir gefið sig fram í ESB dansinn við SF en núverandi samstarfsflokkur. Með honum höfum við komist þessa leið og með honum erum við enn að.“

1155010_tango_2_silhouette Jón Bjarnason var greinilega ekki fimur á þessu dansgólfi og truflaði hið glæsilega danspar Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur. Honum var því varpað út fyrir dyrnar.

Þarna er stöðunni lýst ágætlega. Samfylkingin átti engra kosta völ við stjórnarmyndun varðandi ESB. Það vildi enginn semja við hana um ESB aðild; nema VG, sem seldi frá sér öll sín helgustu loforð. VG hefur verið þægur taglhnýtingur Samfylkingarinnar í ESB  málinu og er enn að.

Skýrara getur það ekki verið.  Og til þess að allt gengi gengið vel og verklega áfram, þarf að ryðja þeim úr vegi sem þvælast fyrir á dansgólfinu og trufla tangóinn.  Jón Bjarnason var greinilega ekki fimur á þessu dansgólfi og truflaði hið glæsilega danspar Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur.  Honum var því varpað út fyrir dyrnar.

Það er táknrænt að þetta gerist sama dag og sett er á svið leikrit í ESB farsanum. Nú er sagt að hægja eigi á ESB viðræðunum. VG hrósar stórsigri, en Samfylking segir þetta engu breyta. Allir sjá hins vegar að þetta hefur þann eina tilgang að bjarga ríkisstjórnarflokkunum og lífi ríkisstjórnarinnar. Þjóðarhagsmunir koma þar hvergi við sögu.

Með því að reka Jón Bjarnason úr nefndum Alþingis , m.a utanríkismálanefnd, telur stjórnarmeirihlutinn sig geta komið í veg fyrir að meirihluti utanríkismálanefndar  standi að tillögu sem Jón Bjarnason hugðist flytja með fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um stöðvun  aðildarviðræðna. Það gátu stjórnarflokkarnir ekki hugsað sér og gildir það sama um þá báða.

Þetta  var nægjanlegt tilefni til þess að ýta Jóni Bjarnasyni út úr nefndum Alþingis. Eða er einhver önnur ástæða fyrir því að honum er varpað á dyr í nefndarstarfi á vegum  VG?

Forystu VG og þingflokki eru ótrúlega mislagðar hendur þessi dægrin. Það gengur þeim eiginlega allt í mót. Smám saman er að flysjast af flokknum fylgið enda flokkurinn stöðugt að þrengjast og verða æ óðaðgengilegri þeim sem kusu hann fyrir fjórum árum.

Áfram heldur þessi vegferð. Í hugum samstarfsflokksins er hann fyrir löngu orðinn ofurseldur.

 


Í þágu flokkshagsmuna en ekki þjóðarhagsmuna

 

Nú berast þær fréttir að ríkisstjórnin ætli að hægja á viðræðum við Evrópusambandið fram yfir kosningar. Það er ekki gert með hliðsjón af þjóðarhagsmunum. Þetta er eingöngu gert til þess að létta af spennu í samskiptum stjórnarflokkanna  og vegna þeirrar örvæntingar sem hefur gripið um sig innan VG og við höfum séð síðustu vikur og mánuði. Það eru með öðrum orðum ekki hagsmunir þjóðarinnar sem ráða hér för. Hér ráða þrengstu flokkshagsmunir stjórnarflokkanna.  Þetta er gert í ljósi alþingiskosninganna sem fram fara eftir rúmlega 100 daga.

Umsóknin verður könnunarleiðangur! Vegna þröngra flokkshagsmuna er ætlunin að hægja á ESB viðræðunum. Þetta breytir hins vegar engu um heildarmyndina. Viðræðurnar halda áfram. Eini munurinn er sá að í stað þess að haldið verði áfram í fimmta gír, verður ekið áleiðis í þriðja gírnum. Það er munurinn.

Öllum er löngu ljóst að þessar viðræður eru komnar í tómar ógöngur.  Þrátt fyrir að viðræðurnar hafi staðið meira og minna allt kjörtímabilið og verið eitt af helstu forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og þar með beggja stjórnarflokkanna, er einungis búið að ljúka þeim á 11 málasviðum, sem seint verða talin hin mikilvægustu. Þar er niðurstaðan fundin og segir okkur alla söguna um framhaldið. Niðurstaðan er sú að okkur er ætlað að fallast á lagaumhverfi Evrópusambandsinis.

Mjög var geipað um það í upphafi að strax yrði ráðist í erfiðustu kaflana, svo sem um landbúnaðar og sjávarútvegsmál. Nú við lok kjörtímabilsins eru engar viðræður hafnar um þau mál. Sameiginleg niðurstaða beggja samningsaðila, íslenskra stjórnvalda og ESB, er hins vegar sú sem hefur ráðið för í viðræðunum fram að þessu.

Nú er ætlunin að skipta um grír; gíra sig niður og fara á  hægferð fram yfir kosningar. ESB flokkarnir á Alþingi telja það henta sínum pólitísku hagsmunum og þess vegna verður það gert. Þetta er ekki gert vegna efnis málsins, ekki vegna efasemda um aðildina að ESB.

Þetta breytir hins vegar engu um heildarmyndina. Viðræðurnar halda áfram. Eini munurinn er sá að í stað þess að haldið verði áfram í fimmta gír, verður ekið áleiðis í þriðja gírnum. Það er munurinn.

Samfylkingin vill inn í ESB. Hin opinbera stefna VG er að ljúka viðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðina. Pólitísk taktík kallar á það við þessar aðstæður að viðræðurnar gangi eitthvað hægar fyrir sig. En hefur eitthvað breyst? Vill ekki Samfylkingin enn að við verðum hluti af ESB? Vill VG ekki lengur ljúka samningum við sambandið? Svar við báðum spurningunum er hið sama. Jú. Það verður haldið áfram.

Og síðan auðvitað hitt. Hvernig mun það birtast okkur að lestin til Brussel hafi hægt á sér? Fækkar ferðunum til Brussel? Verður okkur kynnt áætlun um breytt fyrirkomulag viðræðnanna? Verður viðsemjendunum greint frá þessari breytingu?

Það sjá allir í gegnum þetta sýningahald. VG er komið að fótum fram og Samfylkingin hefur stundarhagsmuni af því að rugga ekki sínum pólitíska báti. En það er eins með þetta eins og það sem ég lærði í kristnifræðinni á sínum tíma í Bolungarvík; það er of seint að iðrast eftir dauðann.

Þessi pólitíski leikur nú í þágu stjórnarflokkanna breytir engu fyrir þá, né um framgang viðræðnanna.


Til varnar Steingrími J. Sigfússyni


Ég var á fundi fyrir nokkrum árum og þá sagði einn fundarmanna að svo virtumst við Íslendingar stundum vera heillum horfnir að þó við dyttum niður á olíulind í lögsögunni okkar, þá væri allt eins víst að upp myndu rísa raddir sem myndu harma þann hlut alveg óskaplega. Þá var hlegið dátt.

OilRig Olíuborpallur. Þingmenn Norðausturkjördæmis sammæltust um að flytja tillögu um uppbyggingu á Norðausturlandi, til þess að geta stundað olíuvinnslu á Drekasvæðinu

Fundarmenn tóku þetta augljóslega sem eins konar fjarstæðu, sem gaman væri þó að skemmta sér við. Hver ætti svo sem að fúlsa við því að finna olíulind í bakgarðinum hjá sér?

En svona er nú heimurinn skrýtinn. Þegar fréttir berast af því að okkur að kostnaðarlausu séu erlendir og íslenskir aðilar tilbúnir að leggja marga milljarða í olíuleit í lögsögu okkar, þá eru háværustu viðbrögðin, mótmæli og hörð gagnrýni á stjórnvöld fyrir að heimila slíkt.

Þetta er auðvitað stór furðulegt, en svo sem í ætt við svo margt annað sem veður uppi í samfélaginu þessi misserin.

Ætli þetta tíðkist í öðrum löndum? Varla. Eða standa harðar og víðtækar deilur um það í Noregi, að nýta olíulindirnar í lögsögu landsins? Hafa Bretar harmað þann hlut sinn að eiga aðgang að olíu í Norðursjónum? Vitaskuld ekki.

En þessu er sem sagt öfugt farið hér á landi. Brandarinn sem sagður var í hálfkæringi fyrir nokkrum árum og öllum fannst þá hlægileg fjarstæða, er orðinn að einhvers konar þjóðfélagslegum spádómi; sem engan óraði þó fyrir.

Auðvitað blasir við öllum að olíuleitin hefur það markmið að hægt verði að hefja olíuvinnslu, ef vel tekst til.

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG liggur nú undir miklu ámæli fyrir að hafa staðið að olíuleitinni fyrir hönd íslenska ríkisins. Það er sagt að hann sé að svíkja hugsjónir sínar, með því háttalagi sínu. Þetta er ósanngjarnt. Steingrímur liggur að vísu vel við höggi í slíkum áróðri, eftir að hafa svikið mörg baráttumál flokks síns á kjörtímabilinu líkt og allir þekkja. En í þessu máli er hann ekki að svíkja neitt. Hann hefur þvert á móti verið stuðningsmaður olíuleitar um árabil og því tilefnislaust að bregða honum um svik, þó hann standi fyrir því að auðvelda innlendum og erlendum fjárfestum að halda til olíuleitar í íslenskri lögsögu.

Steingrímur J. Sigfússon var meðflutningsmaður að þingsálylktunartillögu sem Kristján Þór Júlíusson var fyrsti flutningsmaður að. Tillagan var lögð fram  á Alþingi  14. desember árið 2007 og mælt fyrir henni 29. janúar árið 2008. Tillögugreinin var svo hljóðandi:

 " Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að aðstoða sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp við að undirbúa og kanna þörf á starfrækslu þjónustumiðstöðvar sem gæti annast alla helstu þjónustu hérlendis við skip sem leita olíu á Drekasvæði."

Það er í anda þessa sem Steingrímur J. Sigfússon er núna að vinna. Hann er ekki að svíkja sínar yfirlýsingar. Ekki í þetta sinn amk.

Hins vegar er það eftirtektarvert að þessi stefna sem formaður VG hefur fylgt að minnsta kosti í 5 ár, fær nú daglega einn gúmoren frá hverjum pótentátinum á fætur öðrum í sjálfu málgagni VG, Smugunni og jafnvel umhverfsráðherrann, Svandís Svavarsdóttir gagnrýnir formanninn sinn, undir rós,í VG málgagninu.


Vegið að kirkjunni með blekkingartali

 

Fúl og önug viðbrögð stjórnarþingmannanna Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Björns Vals Gíslasonar  við fyrirætlan Agnesar M. Sigurðardóttur biskups að boða til landssöfnunar til tækjakaupa fyrir Landsspítalans, hafa vakið verðskuldaða og skiljanlega reiði landsmanna.

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir Sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Viðbrögð tveggja stjórnarþingmanna við fyrirætlun biskups um að hefja landssöfnun í þágu Landsspítalans, hafa vakið hneykslan. En viðbrögð þingmannanna eru í ætt við viðhorf stjórnarmeirihlutans í garð kirkjunnar.

En þurfa þessi makalausu viðbrögð þingmannanna að koma á óvart? Ekki er það svo. Þetta er í ætt við annað, varðandi viðmót og viðhorf stjórnarmeirihlutans á Alþingi í garð kirkjunnar og sem hefur lýst sér í því að mjög hart hefur verið gengið fram gagnvart henni og vegið að fjárhagslegri stöðu hennar.

Nú er látið í veðri vaka að kirkjan sé á framfæri ríkissjóðs og hver króna sem fari í gegn um fjárlögin til kirkjunnar skerði möguleikann á því að standa vel að velferðarmálum. Þetta var í rauninni kjarnininn í máli Björns Vals og Sigríðar Ingibjargar. Þetta er þó alveg fráleitt og í raun fásinna.

Kirkjan fær að sönnu fjármuni í gegn um fjárlögin. En það byggir á tvennu sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir.

Í fyrsta lagi var árið 1997 gerður samningur á milli ríkis og kirkju um að kirkjujarðir rynnu til ríkisins. Það voru gríðarlega mikil verðmæti, sem kirkjan afsalaði sér til ríkisins. Í staðinn varð það að samkomulagi að ríkissjóður greiddi laun starfsmanna kirkjunnar.  Það er því ljóst að þessir fjármunir voru gagngjald fyrir jarðir sem kirkjan átti.

Í annan stað eru greidd sóknargjöld. Það eru félagsgjöld okkar sem eru í þjóðkirkjunni og er ætlað að renna til kirkjunnar. Þessi gjöld hafa verið skertnú síðustu árin

 Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson skipaði nefnd til þess að fara ofan í þessi mál. Hún skilaði áliti á þessu ári. Niðurstaða hennar er að kirkjan hafi mátt þola miklu meiri niðurskurð en aðrar stofnanir sem heyra undir innanríkisráðuneytið. Ef kirkjan hefði fengið sams konar niðurskurð og  stofnanir innanríkisráðuneytisins að jafnaði, hefði hún átt að fá 2 milljörðum meiri framlög en hún hefur notið á kjörtímabilinu.

Og enn skal minnt á að þessi framlög eru annars vegar gagngjöld fyrir jarðirnar sem kirkjan afsalaði sér til ríkisins og hins vegar félagsgjöld af okkur þjóðkirkjufólki, sem ríkið innheimtir en hefur með einhliða hætti ákveðið að skila ekki til kirkjunnar.

Það er auðvitað fráleitt að ganga svo hart gegn kirkjunni eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Á erfiðleika og háskatímum gegnir kirkjan sérstöku hlutverki sem bakhjarl þjóðarinnar. Það hefur því verið lítmótlegt að vega að henni og fjárhagslegri stöðu hennar líkt og gert hefur verið.

Og það er síðan til háborinnar skammar að áhrifamiklir stjórnarþingmenn tali gegn kirkjunni, með blekkingum og grafa um leið undan trúverðugleika hennar og getu til að láta gott af sér leiða á sviði þar sem þörfin er himinhrópandi.


Núna er komið að okkur

 

Eftir reynsluna af óveðrinu sem hefur gengið yfir norð vestanvert landið undanfarna daga og nú þegar yfir stendur sala á flugeldum hjá björgunarsveitunum, er hollt að við minnumst mikilvægis björgunvarsveitanna um allt land. Við skulum núna beina viðskiptum okkar til þessa óeigingjarna fólks, sem hefur síðustu daga sem endranær staðið vaktina og lagt sinn ómetanlega skerf af mörkunum til þess að tryggja öryggi okkar.

download Við getum alltaf reitt okkur á björgunarsveitirnar

Hversu oft höfum við ekki heyrt af útköllum björgunarsveitanna við erfiðar aðstæður, til þess að aðstoða fólk? En þá skulum við líka minnast þess að miklu oftar eru björgunarsveitirnar ræstar út án þess að við höfum um það hugmynd. Þetta dugmikla fólk vinnur sitt ómetanlega samfélagslega verkefni af trúmennsku og án þess að það veki endilega athygli í umfjöllun fjölmiðlanna.

Jafnt til sjós og lands, á nóttu sem degi, á hátíðardögum sem á virkum vinnudögum, er stór hópur fólks reiðubúinn til þess að leggja á sig ómælda sjálfboðaliðsvinnu í þágu okkar allra.

Nú er hins vegar komið að okkur. Stærsti hluti fjármögnunar björgunarsveitanna fer fram í gegn um flugeldasöluna fáeina daga fyrir áramótin. Það er því gríðarlega mikið í húfi fyrir björgunarsveitirnar og þar með fyrir okkur sem samfélag, fyrir öryggi okkar allra að við leggjum okkar af mörkunum. Það getum við gert með því að kaupa flugelda af björgunarsveitunum út um allt land.

Við skulum ekki gleyma einu. Það er fjarri því sjálfgefið að eiga svona úrvalslið fólks um allt land, sem er til þess albúið að leggja samborgurum sínum svona gott lið, eins og björgunarsveitirnar gera. Ég gæti best trúað að þetta sé nánast einsdæmi í heiminum. Víða um land og álfur eru ræstar út hersveitir þegar mikið bjátar á til þess að aðstoða fólk í nauðum. Við reiðum okkur hins vegará net sjálfboðaliða.

Við getum alltaf treyst á þá. Þeir þurfa núna að treysta á okkur. Stöndum undir því trausti.

 


Ríkisstjórnin kýs átök þó friður sé í boði

 

Ég hlustaði rétt gær á ákaflega áhugavert viðtal við þá Þorstein Pálsson fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins og Svavar Gestsson fyrrverandi formann Alþýðubandalagsins. Þar lögðu þeir meðal annars mat á þau miklu átök sem eru nú uppi í íslenskum stjórnmálum og báru saman við hinar pólitísku aðstæður sem eru í norrænum ríkjum svo sem Danmörku og Svíþjóð.

thorsteinnp Þorsteinn Pálsson lýsti því hve vinnubrögð stjórnvalda hér á landi eru gjörólík því sem við sjáum á Norðurlöndunum.

Þetta var fróðlegur samanburður, enda þekkja báðir vel til norrænna stjórnmála, eftir áralanga stjórnmálareynslu og sendiherrastörf í framangreindum ríkjum.

En hver er munurinn á stjórnmálum í þessum frændríkjum og hér á landi? Þar eru að sönnu minni átök. Og hvernig skýrðu þeir þá staðreynd? Jú með því að ríkjandi stjórnvöld á Norðurlöndunum hverju sinni, reyni að ná samkomulagi fyrirfram um stjórnarmálefnin og að minnsta kosti málsmeðferðina. Þannig verði til það sem á útlendum tungum er nefnt „consensus“; pólitísk samstaða.

Þetta er auðvitað víðs fjarri því sem við þekkjum hér á landi. Núverandi ríkisstjórn er eins fjarri þessari hugsun og mögulegt er. Það er ekki að undra. Hún er bókstaflega búin til á grundvelli átaka. Átökin eru þess vegna hennar fylgikona. Hún kýs ætíð átök; og það jafnvel þó friður sé í boði.

Forystumenn hennar litu á það sem sitt sögulega hlutverk að breyta í mjög mörgum atriðum ýmsum megingildum sem hér hafa verið við lýði. Gleymum því ekki að til þess var sérstaklega skírskotað að nú hefði sest að völdum fyrsta hreinræktaða, tæra vinstri stjórnin, sem gegndi þar með tilteknum sögulegu hlutverki og sem beinlínis kallaði á átök. Það var síðan boðað og efnt til átaka við allt og alla í kjölfarið.

Dæmi um hvernig ríkisstjórnin kýs alltaf átök

svavar Vinubrögð núverandi ríkisstjórnar eru svo gjörsamlega á skjön við þá lýsingu sem Svavar Gestsson gaf okkur af verklagi stjórnvalda á Norðurlöndunum. Annað er uppskrift að átökum, en hitt að samstöðu.

Rifjum upp nokkur af helstu málum ríkisstjórnarinnar og hvernig staðið var að undirbúningi þeirra.

  1. Var gerð tilraun til þess að mynda pólitíska sátt um hvernig staðið yrði að uppbyggingu og viðreisn efnahagslífsins? Nei svo var ekki
  2. Var reynt að skapa samstöðu um uppbyggingu atvinnulífsins? Nei alls ekki.
  3. Var ráðist í endurskoðun fiskveiðistefnunnar með víðtæku samráði? Nei. Þvert á móti var efnt til átaka og sú sátt sem hafði myndast var rofin og svikin af stjórnvöldum.
  4. Var farin sáttaleið varðandi rammaáætlun um nýtingu og vernd orkuauðlinda? Nei. Þar var horfið frá því sátta-  og samráðsferli sem hófst árið 1999.
  5. Var leitað samkomulags um endurskoðun stjórnarskrárinnar? Nei. Ríkisstjórnin kýs átök um stjórnarskrána og gerir lítið úr öllum athugasemdum sem komið hafa fram við frumvarp hennar að nýrri stjórnarskrá.
  6. Er reynt að skapa samstöðu um aðildarumsóknina að ESB? Nei. Allir vita að þar er farið fram með hnefann á lofti og haft í hótunum við þá sem voga sér að æmta eða skræmta.
  7. Fylgir ríkisstjórnin samráðs eða samningaleið við verkalýðshreyfinguna eða atvinnulífið? Nei það er skollið á hreint stríð, sem ríkisstjórnin hóf á hendur þessum aðilum.
  8. Hefur verið leitað samkomulags eða samstarfs við stórar útflutninsgreinar á borð við ferðaþjónustu eða stóriðju? Nei. Þvert á móti þá hafa allir samningar verið sviknir sem hafa verið gerðir og rekstrarumhverfi þessara greina gjörbreytt undirbúningslaust og án samstarfs.

Þetta er ekki í anda hins norræna þjóðfélagsmódels, sem þeir Þorsteinn Pálsson og Svavar Gestsson  útlistuðu svo ágætlega í gær í útvarpinu. Samt kallar ríkisstjórnin sig norræna velferðarstjórn. Sá pólitíski merkimiði er fyrir löngu orðin hreint skrípa-hugtak og væri fyrir vikið ekkert annað en aðhlátursefni, ef tilefnið væri ekki jafn alvarlegt og raun ber vitni um.

 

 


Okkur bíða risavaxin verkefni

Framundan er risavaxið verkefni, sem við erum þess albúin að takast á við. En hvert er okkar svar? Í sem skemmstu máli að  skapa aukin verðmæti. Efla atvinnulífið. Gefa því svigrúm og tækifæri. Nýta auðlindirnar okkar til verðmætasköpunar og þar með til starfa. Ljúka skuldauppgjöri heimila og fyritækja. Auka fjárfestingar með því að bæta rekstrarskilyrði atvinnulífsins. Ljúka óvissu sem umlykur okkar helstu atvinnugreinar. Ná raunverulegum tökum á ríkisrekstrinum. Þannig sköpum við ný tækifæri, fleiri störf og bætum lífskjör almennings. Við höfum til þess allar forsendur. Við búum vel að sterkum innviðum og þurfum að nýta þá til þess að efla þjóðfélagið, en drepa það ekki í dróma.

Flotinn í höfn í Bolungarvík Við þurfum að nýta auðlindirnar okkar til verðmætasköpunar og þar með til að fjölga störfum í landinu

Við verðum að byggja upp traust

En til þess að allt þetta gangi eftir verðum við að byggja upp nýtt traust á milli stjórnvalda, stjórnmálamanna og almennings. Það hefur beðið mikinn hnekki. Athygli vakti á dögunum þegar forseti ASÍ sagði ríkisstjórnina hafa slegið  heimsmet í því að svíkja gefin loforð! Það er ekki sagt af tilefnislausu. Það er eins og stjórnvöld áliti það sjálfsagðan hlut að svíkja fyrirheit sín og gildir þá einu hvort þau eru munnleg eða skrifleg, eða af hvaða tagi sem þau eru. Á sama tíma er ráðist að grunnstoðum samfélags okkar með ósanngjörnum og ótrúlegum hætti. Sú meðferð sem stjórnarskráin er að fá þessa daga er örugglega versta dæmið um það og er þó af mýmörgu að taka. Það er því ekki að undra að traust skorti á stjórnmálum dagsins.

Virðum þau grunngildi sem okkur hafa dugað best

Stjórnmálamanna allra býður það erfiða en óhjákvæmilega verkefni að byggja upp að nýju almennt traust í landinu. Þar varðar mestu að virða þau grunngildi sem hafa alltaf dugað best  í mannlegum samskiptum. Heiðarleika og virðingu fyrir náunganum. Sá er líka boðskapur kristinnar trúar sem hefur verið okkur sem þjóð, mikilvægasta leiðarljósið í gegn um aldirnar. Og núna þegar friður og ró jólanna færist yfir, gefst okkur öllum, innan sem utan stjórnmálanna, næði til þess að hugleiða þessi gildi.

Megi helgi jólanna færa okkur öllum frið og fögnuð og nýtt ár blessun og farsæld.


„Smokkaskatturinn“ var sérstakt baráttumál ríkisstjórnarinnar

 

Smokkaskatturinn, sem nú er orðinn að almennu aðhlátursefni í samfélaginu var sérstakt baráttumál og forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar. Við þingfrestun nú um jólin lagði þannig ríkisstjórnin ofur áherslu á að þessu máli yrði lokið fyrir áramót. Við sjálfstæðismenn vöruðum við þessu, sögðum slíkt óþarft, til bóta væri að málið yrði skoðað betur, með það að markmiði að falla frá þessari vitleysu.

c_users_rj_sbs_pictures_taknmyndir_smokkur_s Smokkaskatturinn var forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Hún lagði ofuráherslu á að afgreiða þetta mikla baráttumál sitt nú á aðventunni

Á það mátti ekki heyrast minnst. Það var eins og himinn og jörð myndu farast ef þetta mál yrði ekki afgreitt ásamt fjárlögum, fjárlagatengdum málum og öðrum þeim sem sérstakar aðstæður kölluðu á að yrði lokið nú á aðventunni.

En svo forklúðraðist málið gjörsamlega.

Þegar smokkaskatts-málið var komið í óefni, þegar málið var orðið að efni í grín hjá Spaugstofunni, eða Áramótaskaupi, sáu hinir vösku baráttumenn málsins hins vegar að sér. Það var orðin óþægileg tilhugsun að fá skammt af gríni á sinn kostnað í fjölmiðlum. Þess vegna hrukku þeir undan.

En staðreyndirnar eru hins vegar alveg klárar. Ríkisstjórnin ætlaði fram með málið. Hún gerði það að sérstöku baráttumáli sínu í samningaviðræðum við stjórnarandstöðuna nú á haustþinginu. Það leit út fyrir að hún næði fram markmiðum sínum. En það tókst ekki. Ríkisstjórnin var hlegin út af borðinu. Hún varð aðhlátursefni, eins og hún átti skilið.

Eigi veldur sá er varar, segir máltækið og ætli þetta eigi ekki við. En um hvað snýst mál þetta?

Frumvarpið, sem nú er kennt við smokka, felur í sér nýja skattlagningu í dulargervi, eða felulitum, eins og ég komst að orði í þingræðu í gærkvöldi. Markmiðið er að setja á laggirnar talsvert eftirlitskerfi, með fjórum starfsmönnum, við Lyfjastofnun, sem að sjálfsögðu er staðsett í Reykjavík. Öðrum þræði var þetta því liður í eins konar byggðastefnu; með öfugum formerkjum þó.

Það var reynt að halda því fram að þessi nýja gjaldtaka ætti að standa undir skilgreindum kostnaði. Það er þó ekki þannig þegar betur er að gáð. Heimildir til slíkrar gjaldtöku eru í gildandi lögum. Enginn gat sýnt fram á að nýji skatturinn rímaði við kostnaðinn við þau verkefni sem honum var í orði ætlaður að standa undir. Þetta er þess vegna enn ein birtingarmynd skattastefnu ríkisstjórnarinnar.

Laughter-the-best-medicine Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um smokkaskattinn voru orðnar að efni í Áramótaskup og Spaugstofuna

Við bentum á það að skatturinn yrði innheimtur af tilteknum tollflokkum án þess að við vissum hvað að baki byggi. Hvort tollflokkarnir hefðu bara að geyma það sem í frumvarpinu voru kallaðir lækningatæki. Fyrir vikið var það skoðað af ráðuneytinu hvort eitthvað finndist sem ekki mætti kalla lækningatæki.

Við fengum svar. Í því kom fram að gera þyrfti eina breytingartillögu. Þá tillögu flutti svo meirihluti velferðarnefndar Alþingis, sem skipaður var þingmönnum stjórnarflokkanna.  Það var líka alltaf ætlunin að skattleggja dömubindin, smokkana, hjólastólana, bleyjurnar og það allt saman. Út á það gekk beinlínis frumvarpið. Það þýðir því ekki fyrir ábyrgðarmenn málsins að víkja sér undan því.

 

Ps.

Ég man eftir öðru álíka klúðri hjá ríkisstjórninni. Munið þið þegar það átti að setja á sérstakan sykurskatt. Þar var líka vísað í tollflokka. Svo kom það í ljós að þessir tollflokkar náðu líka til bíldekkja. Þá gerðist það, sem frægt var orðið að menn settu sykurskatt á bíldekkin.

Þetta eru algjörir snillingar…

 


Veiðileyfið gefið út

 

Stríð stjórnarflokkanna á hendur verkalýðshreyfingunni heldur áfram. Nú er svo komið að gefið hefur verið út  veiðileyfi jafnt á hreyfinguna sjálfa og talsmenn hennar. Þetta magnaðist um allan helming eftir að Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ vann sér það til óhelgis að hafa sagt sig úr Samfylkingunni.

609788 Stjórnarflokkarnir hafa nú lagt út í opið stríð við verkalýsðhreyfinguna og gefið út veiðileyfi á hana og forystumenn hennar

Þetta sjáum við í bloggum, fésbókarfærslum, atgangi í þingnefndum og hvar raunar sem því verður við komið. Augljóst er að sú ákvörðun hefur verið tekin á stjórnarheimilinu að vaða af hörku gegn verkalýðshreyfingunni, í stað þess að freista þess að skapa nýjan frið og laga  samstarfið, sem ætti þó að vera sjálfsagt viðfangsefni á háskalegum tímum.

Óli Björn Kárason vekur athygli á þessu máli á hinum geysi góða vef sínum http://www.t24.is/

Í hugum stjórnarliða er verkalýðshreyfingin greinilega orðinn óvinur, sem vinna þarf bug á með öllum tiltækum ráðum. Það er eins og stjórnarliðar telji það verkalýðsbaráttu að berjast gegn verkalýðshreyfingunni!

Þetta er einsdæmi á síðari árum amk. Og það vekur athygli á því á hvaða leið þeir stjórnmálaflokkar eru, sem eiga sér forsögu í gegn um forvera sína með sterkum tengslum við verkalýðshreyfinguna.

Ekki að þetta eigi að koma okkur alveg á óvart. Stjórnarflokkarnir hafa lítt skeytt um samráð. Það sem kom þó hvað mest á óvart var þetta fullkomna skeytingarleysi sem birtist gagnvart launþegum og samtökum þeirra. Þetta birtist okkur til dæmis á breytingum á fiskveiðilöggjöfinni, þegar samtök sjómanna voru skipulega hunsuð. Þetta sáum við líka í margvíslegum ákvörðunum á skattamálum, til dæmis gagnvart lífeyrissjóðunum.

En nú er skrefið stigið ennþá lengra. Nú er skollið á hreint stríð við verkalýðshreyfinguna og í þessu stríði er ljóst að engu skal eirt.

crop_500x Forystufólk stjórnarflokkanna hefur skilgreint verkalýðshreyfinguna sem óvin og hegða sér í samræmi við það. Fyrri forystumenn vinstri flokka hefðu aldrei látið sér slíkt til hugar koma.

Þetta hefði aldrei gerst í tíð forystumanna vinstri flokka fyrri tíma. Þeim var ljós hin sögulega þýðing samstarfsins við verkalýðshreyfinguna; verk‘lýðshreyfing og verk‘lýðsflokkar sögðu þeir með svona framburði – með úrfellingarmerki.

En nú er öldin önnur. Nú eru aðrir tímar og annað forystufólk, sem fer sínar eigin leiðir eins og kötturinn. Þau skilja ekki þýðingu samstarfsins, né mikilvægi þess að skapa frið í samfélaginu eða fylkja fólki saman.

Þau lifa í sínum litla einangraða hugarheimi, inni í fílabeinsturninum. Þau tala hvert upp í annað og skilja ekkert hvað gerist utan sinna eigin víggirtu borgarmúra. Þau  hafa nú komist að því að verkalýðshreyfingin er óvinurinn, af því að hún situr ekki og stendur eins og gert er ráð fyrir í bókum flokksforystunnar. Þess vegna er skollið á stríð við verkalýðshreyfinguna og þess vegna er búið að gefa út veiðileyfi á forystu hennar.


Það er skollið á stríð

 

 

Hefði það einhvern tímann getað gerst að forystumenn Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins – forvera Samfylkingar og VG – hefðu farið í opið stríð við verkalýðshreyfinguna?  Auðvitað ekki. Aldrei. Samskiptin voru auðvitað ekki alltaf snurðulaus. En forystumenn þessara flokka litu á þá svo nátengda verkalýðshreyfingunni, að þeir hefðu aldrei komið svo málum fyrir, sem við erum nú að sjá í samskiptum stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar.

ASI Það sýnir hve stjórnvöld eru heillum horfin að þau hafa hrundið af stríði við verkalýðshreyfinguna

Flokksmenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags töluðu um verkalýðsflokkana, þegar þeir ræddu um flokka sína. Á milli þeirra og verkalýðshreyfingarinnar var þráður, sem forystumenn þessara flokka gættu alltaf að slitnaði aldrei. Það má segja að þessi þráður hafi verið eins konar líflína þessara flokka.

En nú eru aðrir tímar og aðrir forystumenn.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa lýst yfir formlegu stríði við verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur öllum verið ljóst að fáleikar voru orðnir með stjórnvöldum og verkalýðshreyfingunni. Í gær gekk þetta lengra. Það er hreinlega skollið á stríð.

Samskipti stjórnvalda við hagsmunasamtök, svo ekki sé nú talað um heildarsamtök launþega, byggja auðvitað á trausti. Það er fyrir bí; löngu fyrir bí. Langlundargeð verkalýðshreyfingarinnar er brostið. Svo lengi má nefnilega manninn reyna. Stanslaus svik og ómerkilegheit af hálfu stjórnvalda hafa búið til  slíka gjá  á milli þeirra og verkalýðshreyfingarinnar, að óhugsandi er að hún verði brúuð.  Þess vegna hafa heildarsamtök launafólks einfaldlega gefið ríkisstjórnina upp á bátinn.

Jóhanna Sigurðardóttir Jóihanna Sigurðardóttir hefur engan skilning á því að hún hafi það hlutverk sem forsætisráðherra að fylkja fólki saman. Hún kýs alltaf leið átaka, alls staðar, við alla.

Verkalýðshreyfingin lítur á næstu mánuði sem eins konar biðtíma. Hún horfir til alþingiskosninganna í vor sem uppgjör við kolómögulega ríkisstjórn og tækifæri til nýs upphafs.

Heiftin í garð verkalýðshreyfingarinnar af háflu ríkisstjórnarinnar er látin persónugerast í Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ. Skætingur formanns VG í garð hans í fjölmiðlum í gær gekk fram af flestum.  Þetta var  tilraun ríkisstjórnarforystunnar til þess að láta svo líta út, að átökin standi á milli persónunnar Gylfa Arnbjörnssonar  og ríkisstjórnarinnar. Þó var forseti ASÍ einvörðungu að flytja samdóma skilaboð hundrað manna fundar formanns verkalýðsfélaga um allt land.

 En spuni ráðherranna segir okkur bara hve ríkisstjórnin er heillum horfin, sambandslaus við allan almenning í landinu, en situr skilningsvana í fílabeinsturni sínum í stjórnarráðinu. Í fílabeinsturninum stara ráðherrarnir ofan á nafla sína, líta svo upp og segja fullir aðdáunar; hér er miðja alheimsins.

Nú er hrokinn, yfirlætið og sjálfsblekkingin farin að hefna sín. Í stað þess að fylkja fólki saman á erfiðum tíma, er efnt til stríðs um allt og við allt og alla.

svavarg Svavar Gestsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins. Hvenær hefði honum dottið í hug að leggja út opið í stríð við verkalðyðshreyfinguna? Aldrei auðvitað

 

En hvað sem segja má um forvera Samfylkingar og VG – Alþýðuflokk og Alþýðubandalag – þá urðu þeir aldrei svona heillum horfnir, bjuggu aldrei við svona forystumenn sem ekki skynja umhverfi sitt og fóru aldrei í stríð við samtök launafólks í landinu. Þeir skildu nefnilega hvar rætur þeirra lágu.

Núverandi stjórnarflokkar eru hins vegar rótlausir eins og þangið, svo vitnað sé í sjálfan Jóhann Sigurjónsson.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband