Virðulegt dagblað verður aðhlátursefni

MÞað er afskaplega freistandi - og auðvelt - að ímynda sér aðstæðurnar. Í höfuðstöðvum Baugs group úti í Lundúnum sitja menn þennan morgun og skellihlæja. Tilefni hlátursins er augljóst. Yfirlýsing fyrirtækisins um andstöðu við hvalveiðar hefur leitt inn í snöru þeirra sjálft Morgunblaðið; gamla erkióvininn. Þess vegna er hlegið dátt yfir ensku morgunverðarteinu. Úti í Bretlandi er þetta kallað side- benefits; einhvers konar aukageta sem fyrirtækið hafði upp úr yfirlýsingu sinni frá því í gær!

Baugur sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem lýst var yfir andstöðu fyrirtækisins við hvalveiðar Íslendinga. Fyrir fyrirtækinu vakir bersýnilega einvörðungu eitt. Það hefur fjárfest mikið í smásöluverslun í Bretlandi og fengið athugasemdir vegna hvalveiða okkar frá fólki þar ytra, en eins og menn vita eru slíkar fjöldapóstsendingar tíðkaðar víða um heim þegar upp koma ágreiningsefni. Til þess að losa sig frá slíku ónæði er hentugt að senda út yfirlýsingu sem dregur skýr skil á milli verka fyrirtækisins og pólitískra ákvarðana hér heima. Um það má að vísu hafa ýmis orð, en fyrir fyrirtækið er þetta þénug og fyrirhafnarlítil leið og í ljósi þrengstu hagsmuna þess kannski skiljanleg.

Á hinn bóginn kom skýrt fram af hálfu talsmanns fyrirtækisins í gær að Baugur hefði ekkert skaðast af hvalveiðunum, sem hlýtur að skipta mestu í þessu sambandi.

En Morgunblaðið blessað, gein við flugunni. Blaðið hefur farið miklum hamförum í baráttu sinni gegn hvalveiðum og farið miklar kollsteypur. Þetta er eitt dæmið um þegar blaðið fær einhver mál á heilann; en slík dæmi eru nokkur úr nýliðinni fortíð þess.

Kostulegt er hins vegar að hugsa til þess að blaðið, sem hefur á undanförnum árum hvað eftir annað mátt þola hnútusvipur Baugsmanna og svarað fyrir sig með mikilli hörku, kyssir nú hinn gamla vönd og það með sýnilegri gleði. Svo mikilli að það getur ekki hamið sig. Athygli vekur að blaðið slær fréttum af yfirlýsingu Baugs upp i fimmdálka baksíðuuppslátt, vísar í aðra frétt í blaðinu og fjallar um málið í ritstjórnargrein ! Fréttablaðið getur þessarar tilkynningar í lítilli frétt og Blaðið sömuleiðis. Og umfjöllun ljósvakamiðlanna var einnig með öðrum hætti; voru þeir þó að segja fréttina hálfum sólarhring á undan Morgunblaðinu.

Þess vegna kætast menn í höfuðstöðvum Baugs og víðar er hlegið að þessari skrýtnu stöðu sem Morgunblaðið er búið að koma sér í. En fyrir hið virðulega og góða dagblað hlýtur að vera  einkar sárt að verða aðhlátursefni og leiksoppur í senn !

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband