Sjómannadagurinn í skugga hótana ríkisstjórnarinnar - enn og aftur

 

Sjómannadagurinn er nú haldinn í skugga hótana ríkisstjórnarinnar, sem birtast í fiskveiðifrumvörpunum sem liggja fyrir Alþingi. Verði þau frumvörp að lögum, munu laun sjómanna og fiskverkafólks skerðast, atvinnuöryggi minnka og hagur sjávarbyggðanna versna. Það er því í hæsta máta ósvífið að ræða þessi mál um það leyti sem sjómannadagshelgin er að ganga í garð.

Merki sjómannadagsins

Þetta er endurtekið efni frá því í fyrra. Þá lá fyrir Alþingi frumvarp ríkisstjórnarinnar, sem hefði haft sömu afleiðingar. Eini munurinn er að þá flutti Jón Bjarnason frumvarpið í nafni ríkisstjórnarinnar. Nú var flutningsmaðurinn Steingrímur J. Sigfússon. Báðir raunar í þingflokki VG, en að vísu í sitt hvorum arminum.

Og smekkleysi ríkisstjórnarinnar ríður ekki við einteyming. Þessi frumvörp,  jafnt í fyrra og nú, eru til meðferðar í þinginu, rétt ofan í Sjómannadaginn.

Í fyrra var ætlun ríkisstjórnarinnar að ræða þessi mál inn í sjómannadagshelgina.  Ásamt félögum mínum mótmælti ég því þá og með þessum orðum:

„Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um lengd fundartímans í dag. Nú hefur hæstv. forseti upplýst að ekki er komin niðurstaða í það hversu lengi þingfundur muni standa í dag. Við þekkjum það að þótt sjómannadagurinn hinn formlegi sá ávallt fyrsti sunnudagur í júní hafa málin þróast þannig að æ stærri hluti af hátíðahöldum sjómanna hefur færst líka yfir á laugardaginn. Eins og við vitum er þetta kannski stærsti hátíðisdagur ársins í sjávarbyggðunum. Við sem komum úr sjávarbyggðunum höfum alltaf tekið þátt í þessum hátíðahöldum og teljum það meðal annars mikilvægan hlut af þingmannsstarfinu að geta gert það og því er mikilvægt fyrir okkur að hafa tækifæri til þess. Þar fyrir utan finnst mér ekki gott yfirbragð á því að við ræðum þetta umdeilda mál hérna um það leyti sem fólk er að tygja sig til þessara hátíðahalda og undirbúa þau. Það færi betur á því að við reyndum að haga skipulagi fundanna betur svo við gætum með eðlilegum hætti lokið þessum umræðum í dag á skikkanlegum tíma.“

 Nú er ríkisstjórnin enn að. Í gær var því aftur hótað að við ræddum þessi mál inn í sjómannadagshelgina. Við stjórnarandstæðingar mótmætlum þessu harðlega. En óskammfeilni stjórnarliða er ótakmörkuð. Eftir að hafa haft í gegn vilja sinn til kvöldfundar, hurfu þeir hér um bil allir úr salnum, fóru út í sólina og að grillum sínum. Jafnvel meirihlutafólkið úr atvinnuveganefndinni, sumt hvert, lét lítt sjá sig, þó það ætti ekki við um formann nefndarinnar og talsmann málsins.

Sem betur fer tók forseti þingsins af skarið og lét slíta fundi upp úr miðnætti. Þingforseti sýndi að hún hefur skilning á stöðu Sjómannadagsins og sjómannadagshelgarinnar, þó það eigi ekki við um ríkisstjórnarforystuna og þeirra taglhnýtinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband