Framkvæmdir komnar af stað í Vestfjarðavegi

Framkvæmdir eru nú hafnar við nýbyggingu vegarins frá Eiðinu við Vattarfjörð að Þverá í Kjálkafirði. Þetta er gríðarlega mikil framkvæmd, sem mun breyta miklu um samgöngur á Vestfjarðavegi 60. Framkvæmdunum á að ljúka á árinu 2015.

Aðstða vegagerðarmanna vegna framkvæmda við Vestfjarðaveg

Þessar framkvæmdir fela í sér þverun Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar og uppbygginu nýs vegar með bundnu slitlagi. Það er fyrirtækið Suðurverk sem annast verkið.

Þetta er margbrotið og flókið verkefni, en verktakinn er vel tækjum búinn og býr yfir gríðarlega mikilli verkþekkingu og reynslu. Til þess að þvera firðina tvo verður notast við stór pramma sem sigla með efni út í fjörðinn. Þar er efnið látið síga og þjappast áður en hægt verður að ganga frá veginum sjálfum með brúargerð.


Nú er unnið að vegagerð í sunnanverðum Kjálkafirði. Verið er að auka efni ofan í fjöruna. Þar verður svo rekið niður stálþil, sem pramminn sem notaður verðir í verkinu getur lagst upp að. Á næstunni mun starfsmönnum fjölga og enginn vafi á því að við vegfarendur munum sjá miklar breytingar á næstu vikum og mánuðum

Vegagerð þessi felur í sér talsverða styttingu, eða um 8 km styttingu á vegalengd. Og það sem meira er um vert. Með hinum nýja vegi losnum við undan leiðinda snjóakafla inni í fjörðunum tveimur sem þveraðir verða.

Þegar þessum verkum lýkur er „aðeins“ eftir hin mikla og umdeilda framkvæmda í Gufudalssveitinni, frá Þorskafirði að Melanesi. Enn er því allsendis óvíst um þær framkvæmdir.

Vegagerðin auglýsti drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Vestfjarðavegi (60) milli Bjarkalundar og Melaness í Reykhólahreppi þann 4. júlí sl. Því miður er ekki gert ráð fyrir að inn í þessa matsáætlun sé sett vegagerð um svo kallaða B leið. Hefði það þó verið eðlilegt að skoða þann kost þó umdeildur sé. Þar með hefði fengist skynsalegur samanburður og menn getað síðan borið saman kostina.

Þetta er augljóslega pólitísk ákvörðun, en fagleg er hún ekki.

Það veldur svo miklum vonbrigðum að við afgreiðslu samgönguáætlana nú í vor á Alþingi var Vestfjarðavegur gerður að hornreku. Á sama tíma og ákvörðun var tekin um að stórauka fjármagn til vegaframkvæmda á næstu árum, var engu fé bætt við þessa framkvæmd. Er gert ráð fyrir að henni verði ekki lokið fyrr en á síðasta tímabili samgönguáætlunar sem lýkur árið 2022, eða eftir heilan áratug.

Þetta er  ekki síst undarlegt í ljósi þess að Vestfirðingar hafa hvað eftir annað sammælst um að þessi framkvæmd ætti að vera í algjörum forgangi. Afgreiðsla samgönguáætlunar nú er ekki samræmi við það. Það ber að harma og er mjög gagnrýnisvert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband