22.3.2007 | 09:16
Jöfnuður mikill - fátækt lítil
"Fullyrðingar um ójafnari tekjudreifingu og meiri fátækt á Íslandi en í nágrannalöndunum, sem settar hafa verið fram á opinberum vettvangi undanfarin misseri, eru einfaldlega rangar. Raunar eru þær ekki einungis rangar heldur þveröfugar við hinar samræmdu mælingar Hagstofunnar og Eurostat. Gagnstætt við það sem fullyrt hefur verið virðist dreifing ráðstöfunartekna á Íslandi vera með því jafnasta sem gerist í Evrópu og fátækt með allra minnsta móti."
Þannig er komist að orði í ákaflega athyglisverðri grein eftir tvo hagfræðinga og fræðimenn, þá Ragnar Árnason prófessor við Háskóla Íslands og Axel Hall aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík í Morgunblaðinu sl. mánudag. ( 20. mars) Hér eru hagfræðingarnir að bregðast við þeirri umræðu sem haldið hefur verið á lofti um meintan ójöfnuð og fátækt í þjóðfélaginu. Vitna þeir til samevrópskrar athugunar sem leiðir í ljós að allar þær fullyrðingar sem haldið hefur verið á lofti um mikinn ójöfnuð í samfélaginu eru kolrangar og fullyrðingar um mikla fátækt hér á landi eru sömuleiðis staðlausar.
Ragnar og Axel rekja eftirfarandi meðal annars í þessu sambandi:
1. Drefing ráðstöfunartekna var með því jafnasta árið 2004 - gagnstætt því sem haldið hefur verið fram.
2. Hlutfall þeirra sem er undir lágtekjumörkum er með því lægsta sem þekkist í Evrópu - gagnstætt því sem hefur verið haldið fram.
3. Gini stuðullinn sem á að mæla efnahagslegan jöfnuð, er lægri hjá okkur en vel flestum öðrum þjóðum. Við erum á svipuðu róli og Norðurlandaþjóðirnar og einungis þrjár þjóðir í Evrópu eru með meiri jöfnuð mælt á þennan kvarða. - Allt er þetta í hróplegu ósamræmi við það sem haldið hefur verið fram.
4. Aðeins ein þjóð, Svíar, hafa lægra lágtekjuhlutfall en við. 29 þjóðir eru með hlutfallslega stærri lágtekjuhóp en við Íslendingar. Þetta bendir til að fátækt sé minni hér en nánast alls staðar annars staðar í Evrópu. - Einnig þetta stangast á við hinar röngu fullyrðingar sem reynt hefur verið að þyrla upp.
Grein þeirra hagfræðinganna og háskólakennaranna hrekur eftirminnilega allar þær röngu staðhæfingar sem lesa hefur mátt í fjölmiðlum upp á síðkastið. Stjórnmálamenn hafa þyrlað upp moldviðri með slíkum rangfærslum og illt er til þess að vita að jafnvel einstaka fræðimenn háskólanna hafi lagst í þá lágkúru. En nú liggja staðreyndirnar fyrir og vonandi hætta menn þá að berja höfði sínu við steininn.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook