Gleðilegan kjördag

AtkvæðagreiðslaSkoðanakannanir kvöldsins voru hagstæðar Sjálfstæðisflokknum. En þær benda samt til að hættan á hreinræktaðri vinstri stjórn sé til staðar. Það er slæm tilhugsun. Einfaldlega vegna þess að reynsla okkar af slíku stjórnarsamstarfi er vond. Skelfilega vond, satt að segja. Margflokka vinstri stjórnir hafa aldrei tórt út eitt kjörtímabil. Þær hafa einkennst af sundurlyndi og togstreitu. Orkan hefur farið í innbyrðis deilum og alltaf hafa þær endað með ósköpum.

Við munum það hvernig ástandið var undir síðustu vinstri stjórn. Efnahagsleg óáran, deilur, verðbólga, lífskjaraskerðingar, halli á ríkissjóði, skuldasöfnun hins opinbera í útlöndum sem innanlands. Stöðnun í efnahags og atvinnulífi og vanmáttur til þess að takast á við verkefni á vegum hins opinbera sem í dag þykja sjálfsögð og eðlileg.

Í ljósi þessarar sögu er það ill tilhugsun að vita að enn koma foringjar stjórnarandstöðunnar fram og hóta okkur vinstri stjórn. Menn hafa vitaskuld sjálfsagðan rétt til þessara sjónarmiða, en nauðsynlegt er að minna enn og aftur á að þau njóta lítils stuðnings landsmnanna. Íslendingar vilja einfaldlega ekki vinstri stjórn, sporin hræða nefnilega.

Öflugur Sjálfstæðisflokkur getur einn afstýrt vinstra samstarfi. Þjóðin vill að flokkurinn verði kjölfesta stjórnarsamstarfs á næsta kjörtímabili. Við vitum auðvitað að foringjar stjórnarandstöðunnar eru þessu ósammála; þeir eru ósammála þjóðinni.

Við Sjálfstæðismenn göngum til kosninga með skírskotun til verka okkar og árangurs á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Við vísum einnig til stefnu okkar sem einkennist af trú á landið og þjóðina og einörðum vilja til þess að ná árangri; nýta sóknarfærin, eins og það er nefnt í kosningabaráttu okkar hér í Norðvesturkjördæmi.

---------------

Nú þegar kjördagur rennur brátt upp, vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem ég hef hitt að máli og átt samstarf við í kosningabaráttunni. Ég þakka góðar viðtökur fólks um allt kjördæmið. Í hvert sinn sem maður heyr kosningabaráttu kemur það á óvart og vekur þakklæti að hitta fólk sem er tilbúið að leggja á sig ómælda vinnu í þágu málstaðarins og vinna ótrúlega mikið og óeigingjarnt starf. Það er ekki síst á slíkum stundum sem maður finnur hver forréttindi það eru að eiga samstarf við allt þetta góða fólk og njóta þess að eiga vináttu þess. Fyrir það allt verður aldrei fullþakkað.

Kosningar eru lýðræðislegur réttur. Við skulum nýta hann til þess að hafa áhrif á þjóðfélag okkar.

Gleðilegan kjördag !




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband