Vígfimur með orðsins brand að vopni

Þóra Þórðardóttir systir Ólafs við minnisvarðann. Mynd bb.is.Í gær minntumst við gamals og góðs vinar Ólafs Þ. Þórðarsonar alþingismanns sem lést árið 1998. Afhjúpaður var minnisvarði um hann, sem Árni Johnsen alþingismaður hafði gert. Minnisvarðinn er fallegur og vel við hæfi. Stuðlaberg, með áfestri glerplötu svo líkist ræðustóli. Á glerplötuna er letruð ívitnun í eina af ræðu Ólafs. Staðsetningin er líka við hæfi á bæjarhlaðinu á Stað í Súgandafirði, fæðingarstað Ólafs, þar sem útsýnið er vítt og vestfirsku fjöllinn ramma inn myndina.

Ólafur var mikill kappi. Hann var afburða ræðumaður og orðsins brandur var því hans öfluga vopn. Fyrir honum var ræðumennskan íþrótt og list og þar var hann í hvoru tveggja meðal hinna fremstu.

Ég tók fyrst eftir Ólafi þegar hann varð áberandi fyrirsvarsmaður í hópi vestfirskra sveitarstjórnarmanna. Hann talaði máli vestfirskra byggða og kunni vel að sækja og verjast. Á pólítískum fundum minnist ég hans fyrst í Félagsheimilinu í Bolungarvík og þar var hann í essinu sínu í bardaga við þá kappasveit sem var í framboði í Vestfjarðakjördæmi.

Ólafur var þingmaður sem virti vel og skildi, það sem ég hef stundum nefnt málstofuhlutverk Alþingis. Því það er þannig að þó oft finnist manni orðaflaumurinn keyra úr hófi, þá má aldrei gleyma því að Alþingi er einmitt til vegna þess að þar á að fara fram lýðræðisleg umræða. Þetta skildi Ólafur og þessi mál ræddum við því oft og sameiginlegri vegferð okkar. Að þessu vék ég raunar í minningargrein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 18. september árið 1998, að honum látnum og þar sagði meðal annars:

"Ólafi var ljóst mikilvægi orðræðunnar í stjórnmálum. Þau mál ræddum við stundum. Sumir líta svo á að stjórnmál séu eitthvert tæknilegt verkefni, sem menn eigi að nálgast með því hugarfari. Því fer þó víðs fjarri að svo sé. Stjórnmálin og hin pólitíska umræða eru afsprengi lýðræðislegrar hugsunar, sem byggir á orðræðu og umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. Stjórnmálin eiga ekki og mega ekki verða njörvuð niður svo að menn gleymi þessum þætti þeirra. Það getur að vísu haft í för með sér langa og á köflum ómarkvissa umræðu. En það er nú einu sinni afleiðing lýðræðislegra stjórnarhátta. Við vitum að oft fer þetta út í öfgar; skrumskælir stjórnmálabaráttuna. Það er hlutverk þeirra sem gegna stjórnmálastörfum að skilja hinn gullna meðalveg sem þarna þarf að feta."

Ólafur fór ekki alltaf troðnar slóðir. Þóra systir hans minntist þess einmitt þegar hún flutti frábært erindi um bróður sinn er hún minntist bernskuára þeirra úti á Stað. Þau ólust upp við ljóð og bókmenntir og einmitt þau minni og skírskotun til fornra sagna var Ólafi Þórðarsyni tamt.

Það var ekki alltaf auðvelt að hafa Ólaf Þórðarson að pólitískum andstæðingi. Svo eitursnjall var hann í rökræðunum. En það var engu að síður gott. Því það skiptir svo miklu máli að eiga við pólitískan mótstöðumann sem er í stjórnmálum af alvöru - þó glettnin hafi aldrei verið fjarri honum - og var svo snjall að maður leitaði í honum fyrirmyndar. Þannig er gott að minnast hans.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband