13.10.2007 | 10:35
Rýtingsstunga í bak Halldórs Ásgrímssonar
Segja má að koss Alfreðs Þorsteinssonar á tárvota hvarma Björns Inga Hrafnssonar og sem þjóðin varð vitni að í sjónvarpinu - hafi verið innsigli hins nýja meirihluta í Reykjavík. Þetta var viðeigandi. Alfreð er sjálfur guðfaðirinn( skrifað hér með litlum staf) og slæmir kossi á sitt pólitíska sköpunarverk.
Upphafið markar svo framhaldið. Það var ofið svikum af hálfu Björns Inga Hrafnssonar og snúið utan um hagsmuni en ekki hugmyndir, né málefni. Það hefur komið vel í ljós undanfarna daga og er nú alveg óumdeilt.
Björn Ingi Hrafnsson lýsir svo eftirfarandi yfir á vakningafundi Framsóknarflokksins í Reykjavík í gær: "Mér hefur fundist á undanförnum árum og kannski einhverjum fleirum að oftar hefði mátt standa í lappirnar í erfiðum málum og segja hingað og ekki lengra." Þess ber að geta þessum orðum var fagnað með lófataki í hópi trúnaðarmanna Björns Inga í Reykjavík í gær.
Hverjum eru nú þessi skeyti ætluð?
Það er augljóst. Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra verður fyrir þessum örvum Björns Inga Hrafnssonar fyrrum aðstoðarmanns síns. Það var Halldór Ásgrímsson sem stofnaði til hins farsæla stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Síðustu árin sín í stjórnmálum var hann forsætisráðherra. Björn Ingi Hrafnsson er að segja núna að allt hafi þetta verið of dýru verði keypt. Forsætisráðherrastóllinn þá væntanlega líka. Engum manni öðrum geta því verið ætluð þessi eitruðu skot.
Svona er ekki sagt í hita leiksins, heldur meðvitað. Það er verið að kynda undir tiltekinni skoðun.
Þetta er líka drengilega mælt af hinum gamla aðstoðarmanni eða hitt þó heldur. Úti í Kaupmannahöfn situr Halldór Ásgrímsson á friðarstóli og er ekki gerandi í stjórnmálum dagsins í dag. Nú má hann sæta þessum lymskulegum árásum frá Birni Inga Hrafnssyni; í atburðarrás þar sem Halldór er víðsfjarri.
Hvað gengur honum eiginlega til, meintum framtíðarfoingjanum í Framsókn? Hvers vegna þarf hann að vega svona úr launsátri sínu í garð síns gamla læriföður? Er svarið kannski það að honum megi bara fórna á sigurstundinni, þegar að baki er tvöfeldnin í garð Sjálfstæðisflokksins, einleikirnir í hinni pólitísku skák; á sigurstundinni sé því í lagi að niðurlægja sómamanninn Halldór Ásgrímsson.
Staða Björns Inga Hrafnssonar sem aðstoðarmanns formanns Framsóknarflokksins, lyfti honum í upphafi til þeirra metorða sem hann nýtur svo sæll og glaður í dag. Nú launar kálfurinn ofeldið.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook