Ásakanir um nasískt hugarfar og hatur

Þráinn BertelssonÉg heimsótti fyrir skemmstu útrýmingarbúðirnar í Sachsenhausen skammt frá Berlín. Heimsókn á þennan vettvang grimmdarverka nasista lætur engan ósnortin. Þarna skynjaði maður svo vel grimmdina og las frásagnir af því hvernig lífið var murkað með skipulögðum hætti úr fórnarlömbum nasista. Það tekur á allt fólk með ærlega taug að skynja þessi voðaverk í því umhverfi sem þau voru unnin. Eitt er vitaskuld að lesa og heyra af hryllingnum sjálfum, pyntingunum, slátruninni á saklausum borgurum og öllu því sem við höfum vitneskju frá þessum voðalegu tímum. En hitt er ekki síður hrollvekjandi að skynja hugarfarið sem leiddi til helfararinnar og hinna skipulegu þjóðarmorða.

Fyrir okkur stendur frásögn Leifs Muller lifandi fyrir hugskotssjónum. Saga unga Íslendingsins sem fangelsaður var í Noregi sendur til Sachsenhausen, var skráð á ógleymanlega bók Garðars Sverrissonar, Býr Íslendingur hér. Gamall maður gaf sig á tal við mig þar sem ég stóð við innganginn í Sachsenhausen og þekkti sögu Mullers. Það var merkileg upplifun.

Þarna, eins og fyrr og síðar, gerði maður sér grein fyrir óþverra Nasismans. Þessi helstefna var skipuleg aðferð við að útrýma tilteknum þjóðfélagshópum, þjóðum og þjóðarbrotum. Það var sjálf hugmyndafræðin; þessi skipulega, úthugsaða og fyrirfram útreiknaða stefna sem er grundvöllur alls óhugnaðarins. Útrýmingarherferðin gegn gyðingum stendur mann næst hugskotssjónum þegar þessir tímar eru rifjaðir upp.

Því er maður sleginn óhug að lesa grein Þráins Bertelssonar rithöfundar í Fréttablaðinu, útbreiddasta dagblaði landsins í gær, sunnudag. Þar segir hann að óskilgreindur hópur samsærismanna sem hann kallar svo og ristjóri Morgunblaðsins hafi haft það að ætlunarverki að klekkja á andstæðingum Sjálfstæðisflokksins, "en þó með snyrtilegri aðferðum en nasistar notuðu við gyðinga þótt hatrið og hugarfarið væri það sama".

Hér fer ekkert á milli mála. Hinn gamli ritstjóri Þjóðviljans líkir starfsaðferðum tiltekinna manna hér á landi við þann hugsunarhátt sem bjó að baki helfararinnar. Sá hugsunarháttur bjó til hugmyndafræði hatursins þar sem  útrýma átti þjóðum og þjóðarbrotum, fólki með tilteknar skoðanir, af tilteknum uppruna, með stjórnmálaskoðanir sem ekki voru þóknanlegar og með kynhneigð sem ekki féll í kramið. Er þá ekki allt upptalið. Það er þessi hugmyndafræði hatursins sem lagði grunn að öllum skelfingunum.

Þessi skrif Þráins Bertelssonar eru þess vegna með því óhugnanlegra sem ratað hefur inn á síður dagblaðanna síðari árin. Kannski hefur mátt lesa viðlíka í skrifum augljósra kverúlenta og erkifífla. En þegar þessi orð hrjóta úr penna virts listamanns, sem við alþingismenn höfum sett á bekk með helstu andans jöfrum okkar og sæmt listamannalaunum, þá setur að manni ansi illan hroll.

Það er þó bót í máli að þótt liðnir séu nær tveir sólarhringar frá því að þessi skrif birtust i Fréttablaðinu hafa þau enga athygli vakið. Orð skáldmæringsins hafa sennilega ekkert vægi. Það virðast engir taka mark á Þráni Bertelssyni. Það hlýtur að vera aumt hlutskipti rithöfundar.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband