Út og suður þrumustuð

Ósamstæð stjórnarandstaða á AlþingiÞað er sennilega til þess að æra óstöðugan að fara einhverjum orðum um afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna til einstakra mála. Frá því var greint í gær að þeir ætluðu að stilla saman strengi sína og koma samstæðir til þings, sem sett var í dag. Ósanngjarnt væri hins vegar að segja að upphaf þess samstarfs lofi góðu. Samstaðan virðist engin vera og sundurtættir mæta flokkarnir til leiks nú í þingbyrjun.

Tökum mótvægisaðgerðirnar. Þar syngur hver með sínu nefi. Einn talar um að ekkert hefði átt að hlusta á vísindamennina og gera í rauninni þveröfugt við það sem þeir lögðu til. Þetta er vitaskuld Frjálslyndi flokkurinn. Framsóknarflokkurinn vill sitja klofvega á girðingunni og fara svona bil beggja. Vinstri grænir lögðu til að fylgt yrði ráðum fiskifræðinga.

Athygli hefur hins vegar vakið að fulltrúi þeirra síðast nefndu, Jón Bjarnason alþm. vill að auknar verði enn veiðar á öðrum tegundum, en þar var aflaákvörðunin í flestum tilvikum umfram ráðleggingar Hafró. Er þetta einnig í hróplegri mótsögn við það sem margir hafa sagt, að erfitt kunni að vera við óbreyttar aðstæður að ná tilsettu aflamarki í sumum öðrum tegundum, td ýsu. Þetta stangast líka á við málflutning flokksbræðra hans og margra annarra úr stjórnarandstöðunni.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar í sambandi við fjárlögin er sama marki brennd. Téður Jón taldi upp ótal málaflokka þar sem hann taldi að meira fjármagn þyrftu. Framsóknarmaðurinn Bjarni Harðarson var allt annarrar skoðunar. Hann taldi að í fjárlagafrumvarpið skorti aðhald. Það verður því fróðlegt að fylgjast með átökum þeirra félaga um þessi mál á Alþingi á næstunni.

Alla vega er það ljóst að þegar til stykkisins kemur varðandi þessi stóru mál eru stjórnarandstæðingar algjörlega út og suður. Einn talar í austur en annar í vestur. Það er því ljóst að allt þeirra tal um samstöðu stjórnarandstöðunnar er gjörsamlega innistæðulaust.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband