Evrópumenn geta lært af íslenskri fiskveiðistjórnun

HafiðEvrópumenn geta lært mikið af íslenskri fiskveiðistjórnun. Fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem grundvöllurinn er einstaklingsbundinn framseljanlegur fiskveiðiréttur, er aðalatriðið.

Þetta er niðurstaða hins virta breska tímarits The Economist í ítarlegri úttekt á málefnum hafsins, í nýjasta tölublaðinu. Tímritið tekur til gaumgæfilegrar athugunar marga þætti fiskveiðimála og annarra mála sem snerta umgengni um hafið. Í sérstakri umfjöllun blaðsins er talað um íslensku velgengnina (Icelandic success) þegar rætt er um fiskveiðistjórnun. Þar eru rakin helstu atriðin í íslenskri sjávarútvegsstefnu og hún síðan borin saman við sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Vakin er athygli á því að þrátt fyrir góðan vilja framkvæmdastjóra ESB í sjávarútvegsmálum sé stefna sambandsins þjökuð af grundvallarvanda sem ekki hafi orðið samkomulag hinna 27 aðildarþjóða að ná utan um.

Leiðin út úr vandanum er að líta til Íslands, segir blaðið. Í umfjölluninni er rifjuð upp ítarleg úttekt þriggja fræðimanna, hagfræðinga og fiskifræðinga, í hinu þekkta vísindariti Science (19. september á síðasta ári) þar sem úttekt er gerð á veiðum út um allan heim. Eindregin niðurstaða þeirrar úttektar er að hrun fiskistofna sé nær óþekkt þar sem beitt er fiskveiðistjórnun á grundvelli einstaklingsbundinna fiskveiðiréttinda, líkt og þekkjast hér við land, í Noregi, Nýja Sjálandi og víðar.

Athyglisvert er að þessi athugun var mjög umrædd í alþjóðlegum fjölmiðlum. Hér á landi hlaut hún enga athygli og enginn fjölmiðill gerði henni skil. Er það þeim mun furðulegra sem verið var að fjalla um fiskveiðistjórnun sem er viðhöfð hér á landi.

Er það til marks um að lítill áhugi sé á alþjóðlegum fræðilegum úttektum á fiskveiðistjórnarmálum í íslenskum fjölmiðlum? Eða telst það ekki fréttnæmt þegar fræðileg rannsókn leiðir í ljós að kerfi framseljanlegra fiskikvóta stuðli að fiskvernd? Hvert sem svarið er þá vekur það óneitanlega furðu að umfjöllun af þessu tagi veki ekki athygli hér á landi, þar sem sjávarútvegur er grundvallaratvinnuvegur og hann byggir á fyrirkomulagi sem er grundvallarumfjöllunarefni viðkomandi rannsóknar.

PS

Frá því að þetta blogg var skrifað hefur umrædd grein í Economist birst í íslenskri þýðingu á heimasíðu LÍÚ. Þýðinguna má nálgast með því að smella á þessi orð

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband