Ofríkisstjórnin

Þegar núverandi ríkisstjórn fór af stað, nefndi ég hana tilskipanaríkisstjórn, með skírskotun til þess hvernig vinnubrögðum hún beitti. Nú hefur hún haft tvo mánuði til að sýna sitt rétta andlit og það hefur hún gert svo um munar og eftir er tekið. Það er of vægt til orða tekið að kalla ríkisstjórnina tilskipanaríkisstjórn. Nær er sanni er að hún sé fullkomin ofríkis-ríkisstjórn. Í einu orði: Ofríkisstjórn. Þannig eru vinnubrögðin.

Svo lengi sem ég hef setið á Alþingi hafa menn kvartað undan skorti á samstarfi ríkistjórnar og stjórnarandstöðu. Vönustu menn í stjórnarandstöðu, Steingrímur J og Jóhanna Sigurðardóttir hafa hvatt til góðs samstarfs og þannig hafa menn þrátt fyrir ágreining jafnan unnið þegar til stykkisins hefur komið.

Alltaf hafa stjórnmálamenn verið sammála um að eðlilegt svigrúm þurfi að gefa til stjórnmálaumræðna og samskipti við almenning í aðdraganda kosninga. Nú blása hinir þingreyndu þingmenn Steingrímur og Jóhanna á allt slíkt. Gefa fólkinu í landinu langt nef. Kjósendur eiga að vera þiggjendur í kosningabaráttunni. Láta sér duga að meðtaka málflutning þingmanna í gegn um útsendingar frá Alþingi og með því að hlusta á málflutning í gegn um fjölmiðla. Viðræður við almenning í aðdraganda kosninga eiga helst ekki að fá nokkurt rými. Þannig er ekki einasta vaðið yfir þingmenn heldur líka fólkið í landinu.

Stjórnarskrármál, grundvöll stjórnskipunar okkar, er ætlunin að afgreiða á handahlaupum, kortéri fyrir kosningar, án eðlilegs aðdraganda, í fullkomnu ósætti og í ofríkisstíl sem er ekki fáheyrður, heldur einstæður. Allir þeir sem Alþingi kallar til, vara við þessu og mótmæla. Ofríkisstjórnin segir hér ráðum við og lætur viðvörunarorðin öll sem vind um eyru blása.

Ofríkisstjórnin neitar að upplýsa almenning og Alþingi um hvað sé á döfinni í efnahagsmálum. Ráðherrarnir eiga leynifundi með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og leggja sín plön fyrir mennina í Washington. Alþingi er neitað um þær upplýsingar. Það er líka látið eins og þjóðinni komi það ekki við. Þetta er ofríki.

Íslenska löggjafarsamkoman fær ekkert að vita, vestur í höfuðborg Bandaríkjanna hafa þeir upplýsingarnar. Málin sem lögð hafa verið fyrir embættismenn vestur í Washington um skattahækkanir og niðurskurð verða falin fyrir almenningi og þinginu, af því að þau eru ekki talin vænleg til pólitísks árangurs hér fyrir kosningar.

Ingibjörg Sólrún er hætt og með henni hafa farið leifarnar af samræðustjórnmálum. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa markað sér nýja slóð. Ofríkisstjórnin hefur kynnt verklagið sitt.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband