Sjálfstæðismenn höfnuðu sameiningu við FL fyrirtækið

Það er stórfurðulegt að fjölmiðlar og stjórnmálamenn reyni að tengja saman fjárhagsstyrk FL group til Sjálfstæðisflokksins og þær hugmyndir sem uppi voru um að sameina REI ( dótturfélag Orkuveitu Reykjavikur ) og Geysi Green energy, sem FL group átti stóran hlut í. Þeir sem svoleiðis iðju stunda eru í blekkingarleik. Vísvitandi blekkingarleik þegar í hlut eiga Svandís Svavarsdóttir og Dagur B. Eggertsson, sem láta í þessu máli tilganginn helga meðalið og dósera af fullkomnu virðingarleysi fyrir staðreyndum um málið.

Verra er og óskiljanlegra er hins vegar að hlýða á fimbulfamb ágæts prófessors og fréttakonu á RÚV sem setti saman dæmalausa dellu um þetta mál í útvarpinu á páskadagskvöld. Samsæriskenningarnar sem þá dundu á hlustum okkar útvarpshlustenda voru fáránlegar. Skrýtið er að þessi ágæta fréttakona fjallaði um málið á sínum tíma og hefði því átt að vita betur.

Sameining við FL fyrirtæki lofuð og prísuð

Það er eins og það hafi farið framhjá þessu ágæta fólki að það voru sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem stoppuðu þennan samruna dótturfyrirtækis Orkuveitunnar og fyrirtækis á vegum FL group. Þá voru þeir úthrópaðir fyrir tiltækið og Björn Ingi Hrafnsson sleit meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, svo svekktur var hann yfir því að geta ekki sameinað REI og Geysi green.

Svo blindur var hann líka á ágæti samningsins að hann sagði: "Það er stefnt á skráningu á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði um mitt ár 2009 og þá hygg ég að komi í ljós að sú fjárfesting sem að Orkuveitan hefur gert í þessum efnum fyrir hönd íbúanna á suðvesturhorninu hafi enn margfaldast að raungildi og nemi jafnvel 30, 40 milljörðum sem að fari langt með að dekka skuldir Reykjavíkurborgar."

Samfylking gladdist yfir að sameinast fyrirtæki FL group

Vilji Samfylkingarinnar stóð til þessarar sameiningar. Henni fagnaði Össur Skarphéðinsson, með þesum orðum: ": Það sem að mér finnst standa uppúr í þessu er að Reykjavíkurborg leggur bara í beinum verðmætum inn sex milljarða. Mér skilst að hún eigi nú þegar hlut sem að er þá miðað við það sem að þú ert að segja yfir 20 milljarðar því að þeir eiga, Reykjavíkurborg, eitthvað um 35%. Þannig að þá finnst mér það nú mikil viðskiptaleg snilld að hafa tekist að búa þannig úr loftinu nánast til 14 - 15 milljarða verðmæti fyrir okkur sem að erum skattborgarar í Reykjavík og ég vildi bara óska þess að Reykjavíkurborg takist að realísera þessi verðmæti og þá hugsanlega getur hún notað það til þess að lækka orkuverðið til okkar. "

Og nú er spurt...

Vill nú ekki Samfylkingin segja okkur söguna alla af þessari viðskiptalegu snilld.? Hvað var það sem knúði Samfylkingu og Framsóknarflokk til þessara viðskipta við FL fyrirtækið? Er þessi fortíð svo mikið feimnismál að ekki megi rifja hana upp? Og ætla fjölmiðlar landsins ekki að sýna þá döngun að rifja upp þetta mál og hlut  Samfylkingar og Framsóknarflokks?




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband