Nú verður hlegið hátt í Brussel

Það fór svo að ríkisstjórnin magalenti í sínu stærsta máli, ESB málinu. Þessi makalausa lending, að annar stjórnarflokkurinn styður niðurstöðu málsins, en hinn er klofinn í guðveit hvað marga parta, er ótrúlegt klúður sem veikir ríkisstjórnina frá fyrsta degi.

 Það er ekki einu sinni svo að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu sammála um þetta mikla mál. Amk. einn þeirra er á móti og næstu dagar eiga eftir að leiða í ljós hvort þeir séu fleiri og hvernig þingflokkur Vinstri grænna  skiptist nákvæmlega í afstöðu sinni.

Gagnstætt því sem aðstæður gefa tilefni til, þá  voru efnahagsmálin ekki fyrirhafnarmesta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Þegar kemur að heimilum og fjölskyldum þá segja ríkisstjórnarsinnar helst að eitthvað vanti upp á kynningu á þeim fínu málum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur  lét vinna. Það vantar því ekki aðgerðir að þeirra sögn, heldur meiri atbeina almannatengla og auglýsingastofa. Þetta er ótrúleg óskammfeilni.

Stóra ESB málið hefur þess vegna meira vægi í hugum ríkisstjórnarinnar en nokkuð annað,  þó fylgismennirnir séu allir út um víðan völl.

Og hugsum okkur svo framhaldið. Nái vilji Samfylkingarinnar og þess hluta ríkisstjórnarliðsins  sem beygður hefur verið til fylgilags, fram að ganga, þá mun verða send ósk um aðild að ESB, þar sem hugur fylgir ekki máli, enda liggur fyrir andstaða umtalsverðs hluta stuðningsliðs ríkisstjórnarinnar. Fyrir vikið verða samningsmarkmiðin óljós og algjörlega ótrúverðug. Enda segir fátt af þeim málum í stjórnarsáttmálanum.

Svörin suður í Brussel verða þess vegna alveg fyrirsjáanleg. Þar verður rekinn upp skellihlátur, svo undir mun taka í fjöllunum hér norður á Íslandi. Því þó margt kostulegt hafi nú átt sér stað úti í ESB,  þá mun vandræðagangur ríkisstjórnarinnar  á Íslandi slá öll met.

Ríkisstjórninni er þess vegna alls ekki alls varnað. Hún hefur að minnsta kosti skemmtanagildi; að henni má hlægja. Það er þó allaveg einhvers virði.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband