Ríkisstjórninni var þröngvað til þessarar niðurstöðu

icesaveNiðurstöðunni í Icesave málinu var þröngvað upp á stjórnarliða. Samfylking og hluti Vinstri grænna vildu samþykkja hinn kolómögulega Icesave samning óbreyttan. Allt fram á síðustu stundu leituðu Steingrímur J Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra allra leiða til þess að tryggja að litlar sem engar breytingar yrðu gerðar á samningnum sem gerður var við Breta og Hollendinga

Þau og fylgismenn þeirra í stjórnarflokkunum  vildu gera smávægilegar fegrunaraðgerðir á algjörlega ómögulegri samningsniðurstöðu. Þau nutu stuðnings til þess af frá taglhnýtingum sínum úr háskólasamfélaginu sem höfðu það hlutverk að ljá því eymdartali blæ trúverðugleika.

En sem betur fer voru þingmenn Samfylkingarinnar og Steingrímshluti VG pínd til þess að fallast á miklar breytingar á samkomulaginu. Það voru settir inn lagalegir fyrirvarar, til þess meðal annars að tryggja rétt okkar  betur. Það voru settir inn efnahagslegir fyrirvarar til þess að tryggja að við gætum ráðið við klyfjarnar af Icesave.

Hvorugt vildi ríkisstjórnin. Þar var allt reynt til að koma í veg fyrir að sú niðurstaða sem nú er fengin yrði ofan á. Það var ekki fyrr en ráðherrunum var orðið ljóst að þeir hefðu ekki vald á málinu að þeir létu sig. Að því máli þurfti margar atrennur og það er ein skýringin á því að málið hefur nú verið í þinglegri meðferð í einn og hálfan mánuð.

Málið var flókið og afla þurfti alls konar gagna. Þau gögn vísuðu öll til einnar áttar. Málið var alveg gjörsamlega óviðunandi. Það þurfti mikilla breytinga við. Gegn því ólmuðust ábyrgðarmenn málsins; stjórnarflokkarnir.  Nauðugir  féllu ráðherrarnir frá afstöðu sinni, af því að þingviljinn var annar en afstaða ríkisstjórnarinnar.  Segja má í rauninni að Alþingi hafi tekið völdin í þessu máli af ríkisstjórninni.

Niðurstaðan sem fékkst var þrátt fyrir ríkisstjórnina, en ekki vegna hennar. Í raun var Icesavesamningi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hafnað.  Ríkisstjórnin var gerð afturreka. Svo einfalt er það.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband