Ríkisstjórnarflokkarnir farnir að stunda hópefli - loksins

HópefliÞað kom nokkuð á óvart að menn teldu frétta að vænta af löngum ríkisstjórnarfundi í gær og sameiginlegum fundi þingflokka VG og Samfylkingar. Hvernig datt mönnum í hug að tíðinda væri að vænta? Ríkisstjórninni líður vel í ráðleysi og dáðleysi sínu og ekki frekari tíðinda að vænta. ESB aðildarviðræður eru hafnar og menn komnir á kaf í að mæla grassprettu í 800 metrum ofan sjávarmáls og skoða blessaða álastofnana. Er hægt að ætlast til einhvers meira af sípuðandi ráðherrunum?

Enda kom það á daginn. Spunameistararnir höfðu reynt að blása út vægi þessara funda, en í ljós kom að ekkert var þar að baki. Fréttamenn kvörtuðu sáran yfir því að vera hafðir að fíflum allan liðlangan daginn; yfir engu, bókstaflega engu.

Það vekur helst athygli langminnugra, að ráðherrarnir eru farnir að nota sömu hugtökin og krataráðherrarnir í upphafi tíunda áratugsins þegar þeir voru að segja okkur tíðindi af fyrirhuguðum álverum; sem vel að merkja komu aldrei. Nú tala ráðherrarnir eins og kratarnir þá um "landsýn í málinu". Eiga núna við Icesave, eins og lesa má um á bls 2 í Morgunblaðinu í dag.

Afraksturinn af öllu fréttapúlinu var sá að ríkisstjórnarflokkarnir slógu sér saman um ein salarkynni fyrir þingflokksfundi sína. Þeir fóru semsé í einhvers konar hópefli.

Það er eitt það skynsamlegasta sem ríkisstjórnarþingflokkarnir hafa gert. Ekki veitir af. Við vitum að þeir eru út og suður í öllum málum. ESB, Icesave svo og önnur málin stór og smá. Nú síðast er allt upp í loft vegna orku og iðnaðararframkvæmda. Þótt iðnaðarráðherrann okkar láti eins og allt sé friði og spekt í þessu máli. Annað blasir við öllum þeim sem vilja heyra og sjá.

Það er því svo að sjá að ofan í allt annað heimilisböl á stjórnarheimilinu, sé skollin á meiriháttar meðvirkni, þar sem heimilisfólkið þykist ekki taka eftir því þegar ágreiningur hefur blossað upp í stórmálum. Ætli hópefli nægi til að ráða bót á því?




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband