Vígbúumst til varnarbaráttu

ÍslandskortÞað er gömul saga og ný að þegar kemur að því að herða að ríkisrekstrinum, þá birtast alltaf tillögur sem ganga út á að skera niður eins fjarri höfuðstöðvum stofnana og hægt er. Lítil útibú úti á landi, litlar ríkisstofnanir og annað þess háttar verða alltaf efstar á óskalistanum þegar farið er í þessi verk.

Nú höfum við minna úr að spila, það er nauðsynlegt að draga saman seglin og sjá; upp fara að dúkka tillögur sem munu hafa það í för með sér að opinber starfsemi úti á landi verður einkanlega fyrir hnífnum. Fækkun sýslumannsembætta og sameining skattstofa eru klassísk dæmi og þeim dæmum mun fjölga.

Þarna eru þó ekki stóru hagræðingarmöguleikarnir, en þetta eru þægilegustu hugmyndirnar, fyrir þá sem sitja suður í Reykjavík og hafa það verkefni með höndum að lækka útgjöld.

Það þarf ekki að rekja hina löngu raunasögu sem hefur verið í kring um þá eðlilegu viðleitni að efla atvinnustarfsemi á landsbyggðinni með því að ætla henni einhvern skerf af þeriri gríðarlegu þjónustu sem ríkið veitir. Það hefur sannarlega miðað dálítið áleiðis á síðustu árum; en alltof lítið samt. Við vitum að það er vandræðalaust að staðsetja ríkisstörf utan höfuðborgarinnar, en þar hefur af ýmsum ástæðum verið við ramman reip að draga.

Í þenslunni var þessi barátta líka mjög ójöfn Nokkur ríkisstörf á landbyggðinni dugðu lítið til þess að hamla á móti atvinnuuppbyggingunni sem varð til dæmis í bönkunum, þjónustugreinunum og byggingarstarfseminni, á höfuðborgarsvæðinu á velmektardögum þessarar atvinnuuppbyggingar..

En samt skipti þessi opinbera starfsemi á landbyggðinni miklu máli. Þarna urðu til störf sem svöruðu óskum samtímans, unga fólksins sem hafði aflað sér menntunar og krafðist fjölbreytni í starfsvali á heimaslóðum. Nú þegar harðnað hefur á dalnum, sjáum við þýðingu þessarar viðleitni til styrkingar atvinnulífsins á landbyggðinni í nýju ljósi.

Það er þess þess vegna gríðarlega brýnt núna að vera vel á verði. Kerfið malar hægt - en örugglega. Það verður mikil tilhneiging til þess að leggja af opinberu atvinnustarfsemina á landbyggðinni. Við sem erum því andvíg þurfum þess vegna að fara að undirbúa okkur undir það að vígbúast til þeirrar varnarbaráttu; hvar í flokki sem við stöndum. Nú þurfum við að gæta vel að okkur.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband