Rangt, félagi Ögmundur!

Ögmundur JónassonÖgmundur Jónasson segir að í stórum málum eins og Icesave eigum við að rífa okkur upp úr pólitísku skotgröfunum. Það er ýmislegt til í því. Icesave málið er þeirrar gerðar að þar eigum við að snúa saman bökum sem Íslendingar, í deilu við þá stóru og öflugu; Hollendinga, Breta, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þá aðra sem eru að reyna að þvinga okkur til nauðungar.

En á sama tíma og þingmaðurinn slær þennan sáttatón skrökvar hann því upp á okkur sjálfstæðismenn að í okkar hópi hafi þeir verið til sem vildu láta Icesave samning Steingríms J. og Jóhönnu yfir okkur ganga. Þetta er tilhæfulaust og gerir Ögmund ákaflega ótruverðugan þegar hann hvetur til þess að menn þvert á flokkslínur, snúi bökum saman.

Þegar Ögmundur hefur yfir svona máflutning þá er hann auðvitað bara kominn ofan í kunnuglegar skotgrafir sínar. Hér birtist okkur, VG þingmaður að ráðast að pólitískum andstæðingum sínum í Sjálfstæðisflokknum. Flóknara er það ekki. Verst er að í þetta skipti fer hann með staðlausa stafi.

Sannleikur málsins er þessi: Ríkisstjórnin vann Icesave samkomulagið á eigin forsendum. Þess var vandlega gætt að hafa ekki samráð við stjórnarandstöðuna. Okkur var sagt að engir formlegir samningafundir hefðu átt sér stað, en tveimur dögum seinna var búið að ljúka samningagerðinni. Forystumenn ríkisstjórnarinnar og þeirra talsmenn lögðu ofuráherslu á að ljúka málinu í einum hvelli og helst að láta þingið fallast á takmarkalitla ríkisábyrgð; helst án þess að hafa fengið svo mikið sem að berja samninginn augum.

Ríkisstjórnin hafði hins vegar ekki vald á málinu. Vegna þess að stjórnarandstaðan var málinu mjög andsnúin ásamt nokkrum þingmönnum úr VG.

Það er þess vegna gróflega dapurlegt að sjá Ögmund Jónasson gera tilraun til þess að endurrita söguna í því skyni að fegra stöðu sína og ríkisstjórnarinnar. Og að minnsta kosti eru slík vinnubrögð lítt til þess fallin til þess að styrkja þverpólitískt samstarf í þessu máli, þar sem þess gerist þó mikil þörf.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband