Breiðsíðan gegn Ögmundi

Ögmundur JónassonÞeir eru komnir af stað með hræðsluáróðurinn. Þegar Ögmundi Jónassyni er þrýst út úr ríkisstjórninni, þá fara þeir á kreik sem reyna að gera hann tortryggilegan. Fyrst formaður VG, sem lætur í veðri vaka að verkefnin í Heilbrigðisráðuneytinu hafi verið Ögmundi  ofviða. Hann hafi gefist upp fyrir viðfangsefninu. Það er ekki að undra þó Ögmundi Jónassyni sárni, eins og hann segir í Morgunblaðinu í dag.

Og í dag er heil breiðsíða lögð af stað til þess að leiða fráfarandi heilbrigðisráðherra  frá villu hans vegar,  með  lítt dulbúnum hótunum .

Bara í dag eru þau fjögur sem skrifa í þessa veru í dagblöðunum.

Jóhann Hauksson fréttaskýrandi, verður seint  af nokkurri sanngirni,  sakaður um velvild í garð Sjálfstæðisflokksins. Hann skrifar mikla frasagrein um háskann sem hlotist geti af því að víkja af vegi ríkistjórnarinnar, af því að það kunni að efla  Sjálfstæðisflokkinn. Og hans tónn er:þessi: Ætlar Ögmundur Jónasson að varpa á glæ sögulegu tækifæri til samstarfs vinstri flokkanna, með því að láta samviskuna þvælast fyrir sér í Icesavemálinu.

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður og rithöfundur skrifar pistil í Fréttablaðið  í dag og kallar ákvörðun Ögmundar  „hégómafulla  píslarvættistilhneigingu“ , - „sem kunni að koma í veg fyrir að landsmenn eigi til hnífs og skeiðar næstu árin“,; það má ekki minna vera.

Og áhrifamaður í Vinstrihreyfingunni grænu framboði,  Sverrir Jakobsson skrifar síðan grein í sama blað í dag og víkur að málflutningi forystumanna Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna og fer um hann mjög hörðum orðum. En segir síðan Ögmund nánast orðið handbendi þessa máflutnings og segir svo: „Það sem er þó furðulegast af öllu er að þessi þjóðrembumálflutningur hafi nú glapið hinn ágæta mann Ögmund Jónasson og hann taki nú þátt í vitleysunni“.

Og loks er á baksíðu Fréttablaðsins pistill eftir gamlan frambjóðanda VG, Kolbein Óttarsson Proppé, sem klappar þann steininn sem drýgstur er talinn verða í í hræðsluáróðrinum gegn öllum sem ekki lúta því almætti sem ríkisstjórninni ræður.  Tónninn er þessi. Ef menn hlýða ekki foringjunum er þessi merka tilraun til myndunar vinstri stjórnar farin út um þúfur og það er mikill skaði. Því segir pistlahöfundurinn: „Hún er því mikil ábyrgðin sem hvílir á herðum þeirra stjórnarliða sem véla um framtíð stjórnarinnar. Vonandi bera þeir gæfu til að setja eigin persónu til hliðar og horfa á hugsjónirnar. Annars eru þeir ekki merkilegir stjórnarmálamenn.“

Það er augljóst að þessum skrifum er ætlað að veikja stöðu Ögmundar Jónassonar og hræða menn frá því að andmæla nokkru sem máli skiptir og kemur frá ríkisstjórninni. Menn eiga að ganga í takt, í þágu hins mikla málstaðar; í samræmdu göngulagi fornu.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband