Leikið á veikleika íslenskra stjórnvalda

icesaveÞað kemur ekki á óvart að Hollendingar og Bretar taki fálega hugmyndum um að taka upp samninginn um Icesave að nýju. Hver myndi ekki gera það sem hefði fengið uppáskrifaðan svo einhliða samning frá ríkisstjórn Íslands. Bresk og hollensk stjórnvöld prísa sig sæla með samninginn og vilja því vitaskuld ekki ljá því máls að taka hann upp.

En það er við slíkar aðstæður sem á íslensk stjórnvöld reynir. Við þessar aðstæður að tefla af styrkleika en ekki alltaf eins og staðan sé fyrirfram vonlaus, eins og gert var í Icesavemálinu allt síðasta ár.

Reynsla ríkisstjórna Breta og Hollendinga er sú að forsvarsmenn Íslands beygja sig undan hótunum. Þeir hafa séð það sí og æ. Þess vegna er þeirri herstjórnarlist beitt að láta reyna á þolrifin í ríkisstjórninni. Út á það gengur taktíkin þessa dagana.

Og einmitt þetta er að koma í ljós. Og illu heilli þá virðist herbragðið virka ágætlega. Á meðan upp hrannast rökin úr öllum áttum sem styrkja samningsstöðu okkar, hafa Bretar og Hollendingar uppi hótanir af því að þeir vita að það bítur á ístöðulítil stjórnvöld hér.

Síðan geta viðsemjendur okkar alltaf rifjað upp dómsdagslýsingarnar sem ríkisstjórnin hafði uppi eftir að forsetinn synjaði lögunum staðfestingar. Í þeim sjá þeir stöðumat stjórnvalda okkar. Þeir lesa það skýrt og skilmerkilega, að hér á landi meta stjórnvöldin stöðu sína eins aumkunarverða og hægt er að hugsa sér.

Þess vegna eru menn svona pollrólegur, forhertir og hrokafullir úti í Hollandi og Bretlandi. Þeir vita þar sem er að stjórnvöld sem meta aðstöðu sína svo hraklega, sem hin íslensku,  eru ekki líkleg til nokkurra stórræða. Þess vegna var ekki merkilegra svara að vænta frá yfirvöldum í Hollandi og Bretlandi. Þau eru löngu farin að þekkja samningsaðilann á Íslandi og hvers er að vænta frá honum.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband